Það sem aldraðir kettir þurfa að fá í fóðrinu sínu
Líkami kattarins breytist með aldrinum. Það þýðir að hann þarf annars konar fóður. Kötturinn þinn telst vera öldungur þegar hann verður 11 ára og þá sérðu merki þess að líkaminn er að eldast auk þess sem hegðunin breytist.
Hvað gerist þegar kötturinn eldist?
Þegar kötturinn þinn eldist ferðu smám saman að sjá merki þess, bæði líkamleg og atferlisleg.
Hann sefur væntanlega meira og hegðar sér hugsanlega öðruvísi en áður, er til dæmis ekki jafn félagslyndur eða mjálmar meira. Húðin gæti tekið breytingum og feldurinn glansar hugsanlega ekki eins og áður. Ellin bitnar líka á liðunum svo göngulagið gæti breyst og hugsanlega getur kötturinn ekki lengur snyrt sjálfan sig eins og áður.
Það hægist á allri líkamsstarfsemi. Ónæmiskerfið er ekki jafn öflugt og áður og einnig hægist á meltingunni. Tennur eyðast og tannholdssjúkdómar gera stundum vart við sig. Fyrir vikið getur kötturinn átt erfitt með að borða, enda finnur hann til. Það getur valdið því að hann léttist. Lyktarskyn og bragðskyn geta dofnað og heyrnin versnað. Hugsanlega þolir hann líka streitu verr en áður.
Upp geta komið sjúkdómar sem eru algengir hjá köttum, til dæmis nýrnasjúkdómar, sykursýki, slitgigt eða ofvirkur skjaldkirtill. Hægt er að draga úr einkennum þessara sjúkdóma með réttu fóðri og lyfjum.
Hvernig breytist næringarþörf katta þegar þeir eldast?
Þegar líkamleg geta kattarins þíns breytist, þarf hann annars konar fóður en þegar hann var yngri.
Nú er erfiðara fyrir meltingarkerfið að melta fæðuna og nýta næringarefnin, ekki síst fitu og prótein. Eyddar tennur, tannholdssjúkdómar og vandamál í meltingarfærum geta líka gert kettinum erfitt um vik að tyggja fóðrið sem hann er vanur. Mjúkt fóður með áferð sem líkist búðingi getur hentað honum betur.
Minna lyktar- og bragðskyn getur dregið úr matarlyst. Fóðrið þarf þess vegna að vera sérstaklega girnilegt til að kötturinn vilji borða það og fái nauðsynleg næringarefni.
Hvaða sérstöku næringarefni þarf eldri köttur?
Aldraði kötturinn þinn þarf að fá fóður sem inniheldur ákveðin næringarefni til að bæta heilsufarið og hægja á þróun aldurstengdra sjúkdóma. Sem dæmi má nefna glúkósamín, chondroitine og fitusýrur eins og EPA/DHA ásamt þykkni úr grænkræklingi. Þessi næringarefni auka hreyfigetu aldraðra katta. Kettir sem eiga erfitt með hreyfingar hafa sýnt framfarir eftir að hafa borðað sjúkrafóðrið í einn mánuð. Jafnframt dró úr verkjum á þessum tíma.
Hægt er að bæta meltingarvandamál með sérstöku fóðri sem inniheldur rétt hágæða næringarefni. Auðmeltanleg prótein bæta til dæmis meltingu hjá eldri köttum. Rófumauk getur haft bakteríuörvandi áhrif og omega 3 EPA/DHA fitusýrur viðhalda meltingarkerfinu heilbrigðu.
Aldraðir kettir geta fengið langvinnan nýrnasjúkdóm og þvagfærasjúkdóma. Fóður með takmörkuðu fosfóri getur hægt á þróun þessara sjúkdóma hjá öldruðum köttum sem eru í áhættuhópi. Fosfór getur safnast hættulega mikið fyrir í blóði katta með nýrnasjúkdóm. Kosturinn við blautfóður er að kötturinn innbyrðir meira vatn. Við það eykst þvagmagnið og að sama skapi minnka líkur á því að þvagfærasteinar myndist.
Það þarf að huga að fjórum atriðum varðandi fóður fyrir aldraða ketti: Það þarf að vera heilfóður og auðmeltanlegt til að tryggja vellíðan kattarins. Jafnvægi þarf að vera milli næringarefna og það þarf að hægja á öldrunareinkennum. Fáðu ráðleggingar hjá dýralækninum þínum um það sérfóður sem uppfyllir öll þessi skilyrði og hentar aldraða kettinum þínum.
Líkaðu við og deildu þessari síðu