Algengir sjúkdómar sem hrjá gamla ketti
Article
Aldraðir kettir, sem náð hafa tíu ára aldri, eru því miður líklegir til að fá ýmsa sjúkdóma eftir því sem þeir eldast. Líkamsstarfsemi þeirra hrörnar smám saman. Hægt er að draga úr einkennum með réttri samsetningu af fóðri, læknismeðferð og breytingum í umhverfinu.
Skert hreyfigeta aldraðra katta
Gamlir kettir fá oft liðagigt og verki í liði þar sem brjósk og liðir hrörna með aldrinum. Þetta veldur skertri hreyfigetu og óstöðugleika. Kötturinn á erfiðara en áður með að stökkva og stundum á hann meira að segja erfitt með að þrífa sig þar sem skrokkurinn er orðinn stirðari. Ef kötturinn er viðkvæmur í liðum er hann líklega ekki áhugasamur um að leika sér og kemur kannski ekki þegar kallað er á hann enda veldur öll hreyfing honum sársauka.
Hægt er bæta ástand liðanna með réttu fóðri sem til dæmis inniheldur langkeðja omega 3 fitusýrur en þær hafa jákvæð áhrif á liði kattarins þíns. Næringarefni eins og kondróitín og glúkósamín hafa góð áhrif á brjóskið.
Hægt er að bæta líðan gamla kattarins þíns með því að koma fyrir rampi svo hann komist auðveldlega á uppáhalds staðinn sinn, nota grunnan kattakassa svo hann eigi auðveldara með að fara ofan í hann og upp úr honum ásamt því að útbúa þægilegt bæli fyrir hann.
Aldraðir kettir og sykursýki
Sykursýki hrjáir um einn af hverjum 200 köttum og sérstaklega eldri ketti. Tíðni sykursýki eykst hratt meðal katta sem orðnir eru sjö ára eða eldri og hún tengist offitu með beinum hætti. Besta leiðin til að draga úr líkum á að kötturinn þinn fái sykursýki er að viðhalda honum í kjörþyngd.
Í köttum með sykursýki geta frumur líkamans ekki nýtt sér insúlínið. Í sumum tilvikum leiðir það til þess að líkaminn nær ekki að framleiða nægilegt magn insúlíns til að starfa eðlilega. Þetta þýðir að þeir þurfa að fá insúlín í sprautuformi, oftast tvisvar á dag. Oft eru kettirnir meðhöndlaðir með tvíþættri meðferð, annars vegar insúlíngjöf og hins vegar með fóðri sem er próteinríkt en með lágt kolvetnishlutfall.
Helstu einkenni hjá eldri köttum með sykursýki eru tíð og mikil þvaglát, aukinn þorsti og matarlyst auk þess sem þeir hafa tilhneigingu til að fitna. Ef þú tekur eftir einhverjum þessara einkenna hjá kettinum þínum, skaltu fara með hann til dýralæknis.
Aldraðir kettir og þyngdartap
Kettir léttast gjarnan með aldrinum en það er þó ekki eiginlegt sjúkdómseinkenni. Það er mikilvægt að þú farir með köttinn til dýralæknis ef hann léttist. Dýralæknirinn getur þá greint orsökina og útvegað viðeigandi meðferð fyrir köttinn.
Sumir líffærasjúkdómar valda því að kettir léttast, til dæmis langvinnur nýrnasjúkdómur, sykursýki, ofvirkur skjaldkirtill og iðrabólga. Hugsanlega léttist kötturinn þinn vegna minnkandi matarlystar. Orsök þess gæti verið:
- Tannsjúkdómur sem veldur sársauka þegar hann borðar
- Minnkað lyktar- og bragðskyn sem dregur úr áhuga á fóðrinu
- Meltingarvandamál sem koma í veg fyrir eðlilega upptöku næringarefna
Dýralæknirinn getur ráðlagt þér hvernig þú getur best annast köttinn þinn miðað við orsakir þyngdartapsins. Þú getur líka prófað að gefa honum mýkra fóður sem er auðveldara að borða eða hitað fóðrið upp svo það verði lyktarmeira. Það gæti aukið matarlystina hjá honum.
Þótt krankleikar af þessu tagi séu algengir meðal eldri katta, ættu þeir ekki að valda óþarfa sársauka eða álagi. Farðu með köttinn þinn til dýralæknis ef þú heldur að hann finni til. Dýralæknirinn aðstoðar þig með ánægju.
Finna dýralækni
Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.
Líkaðu við og deildu þessari síðu