Umönnun kattarins við ævilok

Það er erfitt og óþægilegt þegar líður að ævilokum kattarins þíns en með því að gera svolitlar breytingar geturðu gert ævikvöldið ánægjulegt og þægilegt fyrir hann.
Ageing cat lying down indoors on the carpet.

Kettir lifa að meðaltali í 15 ár en það er ekki óalgengt að þeir nái 20 ára aldri. Þegar líður að ævilokum kattarins þíns geturðu gert einfaldar breytingar til að veita honum bestu hugsanlegu umönnun, þú getur stuðlað að góðri heilsu og gert honum lífið þægilegra.

Hvað gerist þegar köttur eldist?

Frá 11 ára aldri verða öldrunarmerki kattarins þíns sýnileg. Bragð- og lyktarskyn minnkar, heyrnin versnar og hreyfigetan minnkar þegar liðirnir eyðast og valda sársauka. Húðin lætur á sjá og feldurinn líka. Ástæðan er sú að fitukirtlarnir, sem framleiða næringu fyrir húðina, virka ekki eins og áður. Sjúkdómur eins og liðagigt gerir kettinum líka erfiðara um vik að snyrta sig almennilega.

Tennur og tannholdssjúkdómar geta gert vart við sig og þá getur orðið sársaukafullt fyrir köttinn að borða. Það hægir á meltingu og annari líkamsstarfsemi og þess vegna er erfiðara fyrir hann að nýta öll nauðsynleg næringarefni úr fæðunni. Fyrir vikið getur hann lést.

Rosknir og aldraðir kettir geta fengið elliglöp og talið er að yfir 80% katta á aldrinum 16 til 20 ára fái elliglöp. Einkennin eru svefnleysi, kvíði og minnisleysi auk þess sem kötturinn virðist vera illa áttaður. Hann getur til dæmis gleymt hvar fóðrið eða kattakassinn er.

Þannig getur þú létt gamla kettinum þínum lífið

Það þarf ekki að gera nema smávægilegar breytingar til að létta gamla kettinum þínum lífið, sérstaklega þegar líður að ævilokum hans.

Umhverfi gamla kattarins þíns

Auðveldaðu kettinum þínum að komast á uppáhalds staðina sína með því að setja ramp eða þrep fyrir hann og komdu þar fyrir uppáhalds leikföngunum hans og öðru sem hann hefur gaman af. Hafðu fóður og vatn á aðgengilegum stað. Hugsanlega getur þú nú notað grynnri kattakassa svo auðveldara sé fyrir hann að fara í hann og úr honum.

Ageing cat sitting down on an ageing owners knee while being stroked.

Svefn, þjálfun og gamli kötturinn þinn

Ef þú leikur við köttinn þinn yfir daginn, verður hann þreyttur að kvöldi og temur sér þar af leiðandi góðar svefnvenjur. Þú getur gert bælið mjúkt og notalegt með því að bæta púðum í það svo kötturinn finni ekki fyrir verkjum ef hann er orðinn lélegur til heilsunnar. Ferómón-úði nýtist vel til að hjálpa kettinum að slaka á. Hann dregur úr kvíða og svefnleysi.

Gamli kötturinn og mataræði hans

Það getur valdið öldruðum ketti streitu ef sífellt er verið að skipta um fóður til að auka fjölbreytnina. Svo framarlega sem hann fær viðeigandi fóður í samræmi við breytingar á næringarþörf, er engin ástæða til að gefa honum annað fóður nema dýralæknir ráðleggi það.

Ef þú velgir fóðrið, eykst lyktin af því og verður lystugra í augum kattarins. Þú getur einnig valið handa honum fóður sem er auðvelt að melta. Kettir hafa tilhneigingu til að drekka minna vatn með aldrinum og það getur leitt til vandamála í þvagfærakerfinu. Sjáðu til þess að kötturinn þinn hafi ævinlega greiðan aðgang að fersku vatni. Gosbrunnur sem er sérstaklega hannaður fyrir ketti getur nýst vel í þessu sambandi.

Velferð gamla kattarins þíns

Það er mikilvægt að fara reglulega með gamla köttinn til dýralæknis svo hægt sé að fylgjast með heilsufari hans. Þetta ætti að gera að minnsta kosti tvisvar á ári. Ef kötturinn þinn á erfitt með andardrátt, virðist vera einrænn, vill ekki hreyfa sig eða neitar að borða, gæti hann verið kvalinn og þá þarftu að fara með hann strax til dýralæknis.

Dýralæknirinn getur metið hversu kvalinn kötturinn er og hvort rétt er að leggja hann inn eða gera aðrar ráðstafanir.

Hægt er að bæta líðan gamla kattarins þíns með aðlögun á heimilinu, breytingu á fóðri og samvinnu við dýralækni varðandi nauðsynlega læknismeðferð. Ef þú hefur efasemdir um hvernig þú getur best hlúð að gamla kettinum þínum, skaltu leita ráða hjá dýralækni.

Líkaðu við og deildu þessari síðu