Flasa og þurr húð
Húðin er stærsta líffæri kattarins og eitt það mikilvægasta þegar kemur að vörnum gegn sýkingum, sníkjudýrum eða ertandi efnum. Flasa getur einnig myndast á húðinni.
Hvað er flasa í köttum?
Í húð kattarins eru fitukirtlar sem framleiða húðfitu. Flasa myndast við offramleiðslu þessara kirtla. Undir venjulegum kringumstæðum nærir húðfitan húðina og ver hana. Of mikil húðfita ertir hinsvegar húðina og veldur því að hún flagnar.
Kötturinn þinn er með flösu ef þú sérð hvítar flyksur í feldinum sem geta líka sest á fötin þín og í kattabælið. Húðin þornar og getur líka bólgnað. Kötturinn snyrtir sig og klórar sér líka óvenju mikið. Óreglulegir skallablettir geta myndast og almennt hárlos getur aukist.
Hvað veldur flösu í köttum?
Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að kötturinn myndar flösu. Flasa er ein af afleiðingum hringorms, sveppasýkingar sem myndast þegar gró kemst inn í húðina í gegnum sár og ræðst á ysta lag húðarinnar. Auk flösunnar geta myndast óreglulegir eða kringlóttir skallablettir, feldhár geta slitnað og rauðir flekkir geta myndast í húðinni. Hægt er að meðhöndla þessa bráðsmitandi sýkingu en það er mikilvægt að fara strax til dýralæknis ef þú sérð þessi einkenni.
Fóður getur líka valdið flösu hjá kettinum þínum ef það inniheldur ekki næringarefni sem eru nauðsynleg til að viðhalda húðinni heilbrigðri. Allt að 30% af próteinum, sem kötturinn innbyrðir daglega, fara í endurnýjun á húðfrumum. Fóðrið þarf því að innihalda hágæða auðmeltanleg prótein sem auðvelt er fyrir líkamann að nýta.
Omega 3 og omega 6 fitusýrur auka almennt heilbrigði húðarinnar. Þar sem kötturinn getur ekki framleitt þessar fitusýrur sjálfur þarf hann að fá þær í fóðrinu. Ákveðin vítamín eins og A vítamín hafa líka góð áhrif á húðina því þau koma jafnvægi á frumuvöxt og framleiðslu húðfitu.
Lífshættir geta orðið til þess að kötturinn þinn fær flösu. Ef hann býr í of heitu húsnæði getur húðin þornað. Þá verður offramleiðsla á húðfitu með þeim afleiðingum að flasa myndast. Of mikil snyrting getur líka átt þátt í því að húðvandamál koma upp. Það er algengt meðal innikatta. Ef þú baðar köttinn oft og notar annað sjampó en það sem sérstaklega er ætlað köttum, getur það ert húðina. Húð katta hefur hærra sýrustig en húð manna svo sápuefni sem eru ætluð okkur henta köttum ekki.
Hvernig get ég meðhöndlað flösu hjá kettinum mínum?
Ef þú hefur tekið eftir flösueinkennum hjá kettinum þínum er mikilvægt að fara með hann til dýralæknis ef ske kynni að hann sé með hringorm eða aðra sníkjudýrasýkingu. Ef kötturinn er með hringorm, mun dýralæknirinn veita meðferð í þremur stigum: meðhöndla sýkt hár, fjarlægja öll gró sem eftir eru og sótthreinsa umhverfi kattarins. Ef flasan stafar af annarri tegund sníkjudýra mun dýralæknirinn mæla með bestu meðferðinni.
Að gefa kettinum þínum heildstætt fæði sem er í góðu næringarfræðilegu jafnvægi er ein besta leiðin til að halda húðinni sem heilbrigðastri og koma í veg fyrir einkenni á borð við flösu. Ef kötturinn þinn er sérstaklega viðkvæmur fyrir húðsjúkdómum gætirðu líka valið mat sem er sérstaklega hannaður til að styrkja og viðhalda góðri heilsu húðarinnar. Þú ættir einnig að fylgjast vel með umhverfi og lífsstíl kattarins til að vera viss um að þú gerir allt sem hægt er til að tryggja velferð hans.
Oftast er auðvelt að lækna flösu hjá köttum; ráðfærðu þig við dýralækninn og hann mun fúslega útskýra hvernig best sé að viðhalda heilbrigði hárs og húðar hjá kettinum.
Related Articles
Finna dýralækni
Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.
Líkaðu við og deildu þessari síðu