Kötturinn minn er með hárlos

Það er leitt að horfa upp á köttinn sinn missa fallega feldinn en það getur líka verið merki um alvarleg vandamál. Lesa má um algengar ástæður fyrir hárlosi hjá köttum hérna.

Article

Adult cat lying down looking at a grooming brush with white hair on it.

Það er eðlilegt að vilja að feldurinn sé ávallt heilbrigður og glansandi og þess vegna er óþægilegt að sjá mikið hárlos hjá kettinum sínum. Svolítið hárlos er fullkomlega eðlilegt en sé hárlosið mikið gæti það bent til þess að eitthvað alvarlegt ami að kettinum.

Hárlos af völdum húðsveppabólgu

Húðsveppabólga er algengasta ástæða fyrir hárlosi hjá köttum. Þessi sveppasýking er bráðsmitandi og kemur oft upp í kettlingum og köttum sem búa margir saman á heimili. Orsakavaldurinn er örsporasveppur, microsporum canis, sem smitast milli dýra og úr umhverfinu. Hann er smitnæmur í marga mánuði.

Sveppurinn kemst inn í húð kattarins í gegnum sár eða rispur og kemur sýkingin fyrst fram í ysta lagi húðarinnar og hársekkjum. Ef kötturinn er með sár á svæðum sem hann nær ekki að sleikja, til dæmis á höfðinu, er aukin hætta á að hann fái þessa sveppasýkingu því með feldsnyrtingu losar kötturinn sig við óværuna áður en hún veldur usla. Kettir sem eru með lélegt ónæmiskerfi, til dæmis í kjölfar veikinda eða læknismeðferðar, eru í aukinni hættu að fá þessa húðsveppasýkingu.

Einkenni sýkingarinnar geta verið ólík milli katta en líklegast er að þú takir eftir litlum skallablettum og rauðum flekkjum á húðinni sem stundum eru hreistraðir. Feldhár geta líka brotnað auðveldlega eða verið á annan hátt óeðlileg.

Hægt er að meðhöndla og lækna húðsveppasýkingu og er það gert í nokkrum skrefum. Fyrst þarf að ná tökum á sýkingunni, eyða öllum sveppum og allri sveppagró og að lokum sótthreinsa allt umhverfi kattarins. Heimilisfólk getur smitast af húðsveppum. Þess vegna er brýnt að fara með köttinn til dýralæknis um leið og grunur vaknar um húðsveppasýkingu svo hægt sé að meðhöndla köttinn og koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Adult Russian lying down indoors on a white rug.

Hárlos í kjölfar of mikillar snyrtingar

Kettir eru duglegir að þrífa sig og snyrtingin heldur feldinum heilbrigðum og gljáandi. Eigi að síður getur of mikil snyrting valdið hárlosi og haft aðra fylgifiska.

Kettir snyrta sig með grófri tungunni til að losa húð og feld við sníkjudýr, dauð hár, hvers kyns leifar og annað sem angrar þá. Tungan getur slitið feldhárin og valdið feldlosi. Ef kötturinn þinn snyrtir sig af of miklu offorsi fer að sjá á feldinum og skallablettir geta jafnvel myndast. Kötturinn gleypir dauðu hárin sem hann sleikir og þau geta myndað hárkúlur í meltingarveginum. Það getur valdið stíflu.

Of mikil snyrting getur verið merki um hegðunarvandamál hjá kettinum. Ef hann er stressaður getur hann átt það til að nota snyrtinguna sem aðferð til að róa sig. Hann getur einnig tekið upp á því að snyrta sig of mikið af því honum leiðist, til dæmis ef hann fær ekki nægilega örvun á heimilinu. Ef þú tekur eftir því að kötturinn þinn snyrtir sig óþarflega mikið, skaltu hafa samband við dýralækni. Hann getur aðstoðað þig við að finna ástæðuna fyrir þessari hegðun og einnig lausn á vandanum.

Hárlos í tengslum við mataræði

Ef kötturinn fær ekki öll þau næringarefni í fóðrinu sem viðhalda feldi og húð heilbrigðri, er hugsanlegt að hann missi feld af þeim sökum.

Bæði húð og feldur katta þarfnast talsverðs magns af próteinum. Um 30% af próteinum sem þeir innbyrða daglega fer í uppbyggingu á feldi og húð. Ef köttur fær ekki nægilegt magn af gæðapróteinum eða ef hann fær tormelt prótein, getur það valdið þunnum feldi, slitnum feldhárum og jafnvel hárlosi.

A og E vítamín eru ákaflega mikilvæg til að halda feldinum heilbrigðum og varna hárlosi. Þessi vítamín stjórna frumuvextinum og virka eins og náttúruleg andoxunarefni. Skortur á þessum vítamínum getur valdið því að kötturinn myndar ekki nægilega mikið af keratíni, sem er megin uppistaða feldháranna.

Yfirleitt er hægt að stöðva hárlos, annars vegar með lyfjagjöf og hins vegar með því að gera breytingar í umhverfi kattarins og/eða á fóðri. Ræddu við dýralækninn þinn. Hann getur greint ástæðuna fyrir hárlosinu og bent þér á leiðir til að stöðva það.

Maine Coon adult standing in black and white on a white background

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Líkaðu við og deildu þessari síðu