Ætti ég að láta vana hundinn minn?
Ákvörðun um að láta vana hvolpinn sinn ætti að taka að vel ígrunduðu máli. Aðgerðin hefur í för með sér ýmiss konar ávinning fyrir hundinn þinn, þig og umhverfið heima fyrir, en hún mun einnig hafa áhrif á hegðun hvolpsins.
Hvað er gelding?
Vönun er hugtak sem notað er fyrir karlkyns hunda, þótt það sé stundum notað fyrir bæði kynin. Við vönun fer hvolpurinn í læknisaðgerð sem kemur í veg fyrir að hann geti eignast hvolpa. Þú gætir einnig hafa heyrt það kallað ófrjósemisaðgerð eða geldingu.
Hvernig virkar gelding?
Hjá karlkyns hundum framkvæmir dýralæknir aðgerðina. Algengasta tegund vönunar gengur út á að fjarlægja eistu hundsins algerlega með skurðaðgerð. Aðgerðin kemur í veg fyrir að líkami hvolpsins framleiði sæði sem getur frjóvgað tík og þannig gert hana hvolpafulla.
Hvenær ættirðu að vana hundinn þinn?
Ef þú ákveður að láta vana hvolpinn þinn þarf að gera það fyrir kynþroskaaldurinn, sem er við um það bil sjö til tíu mánaða aldur. Hjá stórum og risastórum hundakynjum er kynþroskaaldurinn örlítið seinna og því ætti að vana slíka hunda þegar þeir eru örlítið eldri. Dýralæknirinn þinn mun geta ráðlagt þér hver sé besti tíminn til að vana hvolpinn með sem öruggustum og hentugustum hætti fyrir bæði þig og hann.
Hvernig veit ég hvort ég ætti að vana hvolpinn minn?
Ýmislegt mælir með því að þú látir gera hvolpinn þinn ófrjóan, það getur bætt heilsufar hans og hegðun.
- Hann verður ólíklegri til að fara á flakk og lenda í útistöðum við aðra hunda.
- Það getur dregið úr og jafnvel alfarið komið í veg fyrir að aðrir rakkar merki sér yfirráðasvæði í garðinum þínum.
- Það dregur úr líkum á að hundurinn þinn stingi af.
- Það kemur í veg fyrir að hvolpar komi óvart í heiminn og einnig í veg fyrir sjúkdóma sem smitast við pörun.
- Það getur dregið úr árásarhneigð.
Þó ber að geta þess að talið er að hundar sem eru gerðir ófrjóir séu í aukinni hættu á að fá ristil- eða beinkrabbamein.
Hvað ætti ég að gefa vanaða hvolpinum mínum?
Efnaskiptin breytast þegar búið er að gera hund ófrjóan, eða taka hann úr sambandi eins og oft er sagt. Orkuþörfin breytist og hundinum er því hættara við að fitna. Þetta getur gerst mjög hratt, á nokkrum vikum eða mánuðum, svo það er mikilvægt að vera undirbúinn ef þú ákveður að láta taka hvolpinn úr sambandi.
Taka þarf tillit til breyttrar næringarþarfar hans strax, sem þú getur gert með því að gefa honum sérhannað fóður fyrir hunda sem hafa verið vanaðir. Dýralæknirinn þinn mun einnig geta ráðlagt þér hvernig þú þurfir að fylgjast með þyngd hundsins og breyta fæðu hans eftir aðgerðina.
Ófrjósemisaðgerðir á hundum eru algengar. Hundar róast oft í kjölfar slíkra aðgerða og þá verður heimilislífið líka rólegra. Enginn nema þú tekur ákvörðun um að fara með hundinn í ófrjósemisaðgerð en ef þú ert í vafa getur þú ráðfært þig við dýralækni.
Related Articles
Sérsniðin næring fyrir hvolpinn þinn
Mikið úrval er til af fóðri sem styrkir varnarkerfi og heilbrigðan vöxt ásamt því að þroska meltingarkerfið.
Líkaðu við og deildu þessari síðu