Hvenær verður hvolpurinn minn fullorðinn?
Hvolpurinn hefur eigin persónuleika og útlit en hann hefur líka eigin næringarþörf. Næringarþörf hvolpsins breytist með aldrinum allt þar til hann nær fullorðinsaldri. Hvað þarf hann nákvæmlega og hvenær telst hundur formlega fullorðinn?
Hvenær verður hvolpurinn minn fullorðinn?
Það fer eftir tegund og stærð hvenær hundurinn þinn telst vera fullorðinn. Hundategundum er skipt í fimm stærðarflokka: Mjög litlir (x-small), smáhundar (small), miðlungsstórir (medium), stórir (large) og mjög stórir (giant). Hvolpurinn þinn verður fullorðinn sem hér segir:
- Mjög lítill (x-small) 4 kg: 8 mánaða
- Smáhundur (small) 5 - 10 kg: 10 mánaða
- Miðlungsstór (medium) 11 - 25 kg: 12 mánuðir
- Stór (large) 26 - 44 kg: 15 mánuðir
- Mjög stór (giant) 45 kíló og meira: 18 til 24 mánaða
Það er misjafnt hvenær hundar teljast „fullorðnir“ og fer eftir því hversu lengi þeir eru að taka út fullan vöxt en það er misjafnt eftir tegundum. Stórir og risastórir hundar eru lengur að ná fullum líkamlegum þroska en smáhundar þótt þeir vaxi í raun mjög hratt.
Það sem hvolpur þarf að fá í fóðrinu sínu
Líkami hvolpa gengur í gegnum miklar breytingar þar sem hann vex hratt, burtséð frá því hver tegundin eða stærðin er. Hvolpar þurfa að fá meira kalsíum en fullorðnir hundar þar sem beinin eru að vaxa og þroskast.
Þeir þurfa líka meira prótein en fullorðnir hundar því vöðvar og aðrir vefir eru líka í örum vexti. Hvolpar þurfa orkumeira fóður en fullorðnir hundar því þeir geta ekki borðað jafn mikið magn en þurfa eigi að síður mikla orku til að vaxa og þroskast.
Vandamál sem eiga aðeins við um hvolpa
Það er einkum tvennt sem þarf að hafa í huga varðandi fóðrun og umönnun hvolpa, sem hefur meiri áhrif á þá en fullorðna hunda: Meltingarkerfi þeirra er viðkvæmt og ónæmiskerfið takmarkað.
Meltingarkerfi hvolpa er viðkvæmara en meltingarkerfi fullorðinna hunda, ekki síst þegar þeir byrja að fá annað en móðurmjólk. Breyting á fóðri og umhverfi hefur oft áhrif á meltingu hvolpanna. Fóðurkúlurnar þurfa að vera af réttri stærð og lögun ásamt því að hafa rétta áferð svo auðvelt sé fyrir hvolpinn að borða þær. Fóðrið þarf einnig að vera auðmeltanlegt svo þeir geti nýtt öll næringarefnin án þess að fá óþægindi í magann.
Á aldrinum fjögurra til tólf vikna myndast svokallað ónæmisbil og þá er ónæmiskerfi hvolpanna viðkvæmt. Á þessu tímabili fær hvolpurinn ekki lengur mótefnin með móðurmjólkinni og náttúrulegar varnir hans eru ekki fullmótaðar. Á þessum tíma er lykilatriði að næringarefni í fóðrinu nýtist til að styrkja ónæmiskerfið og innihaldi til dæmis E-vítamín.
Skipt úr hvolpafóðri í fullorðinsfóður
Þegar hvolpurinn fullorðnast, getur þú skipt um fóður til að tryggja að hann fái nákvæmlega það sem hann þarf á fullorðinsaldri.
Fullorðnir hundar þurfa tvær máltíðir á dag og þeir þurfa fóður sem gefur þeim nauðsynlega orku en er þó ekki of fituríkt. Hægt er að skipta um fóður á einni viku með því að blanda nýja fóðrinu smám saman út í gamla fóðrið: Blandaðu fullorðinsfóðri út í hvolpafóðrið og auktu hlutfall nýja fóðursins smám saman meðan hundurinn er að venjast því.
Sérsniðin næring fyrir hvolpinn þinn
Mikið úrval er til af fóðri sem styrkir varnarkerfi og heilbrigðan vöxt ásamt því að þroska meltingarkerfið.
Líkaðu við og deildu þessari síðu