Ómissandi hlutir fyrir nýja hvolpinn þinn
Það er nauðsynlegt að undirbúa heimkomu nýja hvolpsins þíns með fyrirvara. Þótt mikilvægt sé að velja réttan mat, þarftu einnig að gera ýmsar aðrar ráðstafanir, svo sem búa til pláss til að borða og drekka, finna stað til að sofa á og hluti til að leika sér með. Að undirbúa gátlista yfir nauðsynleg atriði er hentug leið til að ganga úr skugga um að þú sért með allt sem þú þarft áður en nýi hvolpurinn kemur.
Hvolparúm
Hvolpurinn þinn þarf góðan tíma til að hvíla sig og sofa þegar hann kemur, þar sem það hjálpar honum að vaxa. Því er nauðsynlegt að útvega honum þægilegt rúm eða hvolpakörfu. Rúmið ætti að vera staðsett í rólegu horni þar sem hann hefur sitt eigið rými.
Það mun hjálpa hvolpinum þínum að venjast nýja heimilinu og veita honum stað þar sem honum finnst hann geta sofnað öruggur. Veldu rúmföt sem auðvelt er að þrífa, en þó nægilega þykk til að vera þægileg og bættu kannski við tusku með lykt móðurinnar til að hjálpa hvolpinum að koma sér betur fyrir.
Matar- og vatnskálar fyrir hvolpinn þinn
Sterkar matar- og vatnskálar eru mikilvægar vegna þess að hvolpur sem er að taka tennur tyggur allt sem hann sér, sem gæti leitt til vandamála ef notaðar eru plastskálar. Mælt er með matar- og vatnsskálum úr ryðfríu stáli þar sem þær eru hreinlegri og auðvelt að þrífa þær auk þess sem þær brotna ekki eða flísast úr þeim eins og keramikskálum.
Finndu varanlegan stað sem er hljóðlátur og öruggur fyrir skálar hvolpsins, svo hann hafi ákveðinn stað til að borða á. Best er að hafa litla skál fyrir mat og stærri skál með vatni.
Bursti eða greiða til að snyrta hvolpinn
Hvolpurinn þinn þarf sérstakan snyrtibursta eða greiðu til að halda feldinum heilbrigðum og snyrtilegum. Að snyrta hvolpinn reglulega venur hann við snertingu og meðhöndlun fólks, sem auðveldar ykkur báðum verkefnið þegar hann verður stærri og sterkari.
Úrval bursta eða snyrtihanska er í boði fyrir hunda. Snyrtitól eru hönnuð fyrir ákveðnar hárlengdir svo mikilvægt er að velja það sem hentar feldi hvolpsins þíns.
Leikföng fyrir hvolpinn
Leikföng koma í góðar þarfir þegar þú umhverfisþjálfar hvolpinn þinn og þau geta líka komið í veg fyrir að hann nagi húsgögnin á heimilinu. Gættu þess að velja leikfang sem hentar stærð hvolpsins þíns. Leikföng eiga að vera tvisvar sinnum stærri en munnur hvolpsins til að koma í veg fyrir að hann gleypi þau.
Leikföng úr gúmmíi endast oftast best en þú skalt kaupa þau í verslun með vandaðar vörur eða hjá dýralækninum. Mjúk leikföng endast ekki að eilífu en sum eru endingarbetri en önnur. Það á að vera óhætt að þvo mjúk leikföng í þvottavél.
Aldrei skilja hvolpinn eftir eftirlitslausan með leikfang sem hann getur gleypt, reipi eða annað sem hann getur hengt sig í eða skaðað sig á. Ef hvolpur gleypir leikfang getur það stíflað meltingarveginn eða hvolpurinn jafnvel kafnað. Þú ættir að forðast að gefa hvolpinum bein því þau geta flísast og geta valdið innvortis meiðslum. Þegar leikföng hvolpsins rifna eða láta verulega á sjá, borgar sig að fleygja þeim til að forðast slys.
Hálsól og taumur fyrir hvolpinn
Hvolpurinn þarf að venjast því að hafa hálsól og ganga í taumi. Jafnvel þótt hann fari bara í göngutúra í garðinum til að byrja með, er skynsamlegt að venja hann strax við ól og taum. Hálsólin þarf að vera nægilega vel hert til að hún renni ekki fram af höfði hvolpsins. Það borgar sig að festa nafnspjald með símanúmerinu þínu á hálsólina.
Það er best að hafa allt tilbúið áður en hvolpurinn kemur á heimilið þannig að allt sé til taks þegar hann kemur.
Sérsniðin næring fyrir hvolpinn þinn
Mikið úrval er til af fóðri sem styrkir varnarkerfi og heilbrigðan vöxt ásamt því að þroska meltingarkerfið.
Líkaðu við og deildu þessari síðu