Hvernig eru þvagfæravandamál hjá hundum meðhöndluð?
Þvagfæravandamál af ýmsu tagi, allt frá bakteríusýkingum til þvagsteina, eru því miður algeng hjá hundum. Ef hundurinn þinn hefur greinst með þvagfæravandamál mun dýralæknirinn aðstoða þig við að meðhöndla einkennin ásamt undirliggjandi orsökum til að tryggja að hundurinn sé eins heilbrigður og hamingjusamur og kostur er.
Af hverju eru þvagfæravandamál óþægileg fyrir hunda?
Rétt eins og hjá fólki eru þvagfæri hundsins ábyrg fyrir því að búa til, geyma og losa út þvag, sem inniheldur úrgangsefni sem myndast við nauðsynlega starfsemi líkamans. Jafnvel væg þvagfæravandamál geta verið mjög sársaukafull eða óþægileg fyrir hunda og haft áhrif á hegðun þeirra. Alvarleg þvagfæravandamál eins og t.d. stífla geta leitt til frekari heilsufarsvandamála og jafnvel verið banvæn.
Af þessum ástæðum er mikilvægt að þú ráðfærir þig við dýralækni við fyrstu merki um þvagfæravandamál hjá hundinum.
Einkenni þvagfæravandamála hjá hundum
Þú getur haft augun opin fyrir nokkrum algengum einkennum sem benda til þess að hundurinn þinn þjáist af þvagfæravandamáli:
- Erfiðleikar með þvaglát
- Áreynsla við þvaglát
- Tíðari þvaglát, eða tilraunir til að pissa, án árangurs
- Þvagleki
- Blóðugt eða skýjað þvag
- Verkir
- Drekkur meira vatn
- Minni matarlyst
Hvað mun dýralæknirinn gera varðandi þvagfæravandamál hundsins míns?
Dýralæknirinn rannsakar hundinn þinn og spyr meðal annars um drykkjuvenjur hans og þvaglát. Dýralæknirinn kann að spyrja hversu oft hundurinn pissar og hvernig hann hegðar sér við þvaglátin. Þessar upplýsingar hjálpa dýralækninum að finna út orsök vandans. Hugsanlega vill dýralæknirinn fá þvagsýni til rannsóknar. Auk þess gæti hann viljað taka röntgenmyndir og gera blóðrannsókn til að komast að orsökinni.
Að rannsókn lokinni útskýrir dýralæknirinn fyrir þér hvers konar meðferð hentar best. Í sumum tilvikum, til dæmis ef þvagfærasteinar myndast, er skurðaðgerð óhjákvæmileg. Stundum nægir að nota hollegg til að lina þjáningar hundsins. Önnur vandamál gætu þýtt að hundurinn þinn þurfi að fara á sýklalyf eða borða sérstakt meðferðarfæði sem hefur verið þróað til að vinna á þvagfæravandamálum.
Hvernig þú getur brugðist við þvagfæravandamálum hundsins heima við
Líklega leggur dýralæknirinn til að þú breytir lifnaðarháttum hundsins og skiptir um fóður til að bæta ástand þvagfærakerfisins.
Það er mjög mikilvægt að tryggja að hundurinn hafi aðgang að nægu fersku og hreinu vatni og hvetja hann til að drekka oft. Það getur leitt til að þvagið verði þynnra, auk þess sem hann þarf oftar að pissa, sem „skolar út“ úr kerfinu.
Einnig er hægt að velja mat hundsins sérstaklega með það fyrir augum að bæta heilbrigða virkni þvagkerfisins. Til er sérstakt sjúkrafóður sem er hannað til að auka heilbrigði þvagfærakerfisins. Það eyðir þvagfærasteinum og kemur í veg fyrir að þeir myndist aftur. Þessar blöndur þynna þvagið og hafa áhrif á steinefnasamsetningu og sýrustig þvagsins hjá hundinum.
Þvagfæravandamál valda hundinum þínum óþægindum og geta haft langvinnar afleiðingar. Farðu til dýralæknis um leið og þú sérð merki um vandamál af þessum toga. Hann leiðbeinir þér og segir þér hvað best er að gera í stöðunni.
Finna dýralækni
Ef þú hefur áhyggjur af heilsu hundsins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.
Líkaðu við og deildu þessari síðu