Atriði sem gott er að hafa í huga áður en þú færð þér kött
Hefur þú tíma til að annast kött?
Kettlingur getur verið skemmtileg viðbót við fjölskylduna en hann stækkar og þroskast í fullorðinn kött. Það er langtíma skuldbinding að taka að sér kött. Margir halda að það sé einfaldara að eiga kött en hund. Kettir geta samt verið mjög kröfuharðir á athygli og þeim fylgir langtíma skuldbinding.
Annað sem hefur áhrif á hversu mikil umönnunin verður er hvort þú tekur að þér kettling eða fullorðinn kött. Kettlingur þarf meiri umönnun. Það þarf að kenna honum ýmislegt og fóðra hann oftar en fullorðinn kött. Þá þarftu að ákveða hvort þú vilt hreinræktaðan kött eða blending og hvort þú vilt fá hann hjá ræktanda eða í athvarfi. Sumir kettir í athvörfum hafa lent í erfiðri lífsreynslu og þurfa aukna umhyggju og alúð í byrjun.
Hegðun katta fer annars vegar eftir erfðafræðilegu upplagi og hins vegar lífsreynslu þeirra. Kettlingar öðlast mesta félagsfærni á fyrstu átta vikunum. Það skiptir því höfuðmáli að sinna þeim vel í frumbernsku.
Passar köttur eða kettlingur inn í daglegt mynstur þitt?
Hvaða dýr sem er breytir lífsstílnum þínum en þó vonandi bara til hins betra. Hugsanlega eru einhverjar daglegar venjur þínar óhagganlegar. Þá þarf að huga að því hvort þær hafa áhrif á komu kattar eða kettlings á heimilið.
Spurningar sem þú skalt spyrja þig:
- Áttu börn? Það gæti haft áhrif á það hvernig kött þú færð þér því sum kattakyn henta betur með börnum en önnur.
- Eru önnur gæludýr á heimilinu og ef svo er, hvernig myndu þau bregðast við nýja dýrinu? Það getur verið snúið að kynna nýtt gæludýr fyrir þeim sem fyrir eru á heimilinu. Það tekur tíma og reynir á þolinmæðina. Það getur tekið marga mánuði fyrir dýrin að sættast að fullu. Stundum tekst það aldrei.
- Ertu með svæði utan dyra eða verður kötturinn alfarið inni?
- Vinnur þú allan daginn utan heimilis? Ef svo er, hvað verður um köttinn þegar þú ert að heiman?
- Getur þú aðlagað heimilið þannig að það verði vænlegur staður fyrir kött að búa á?
- Ferðast þú mikið? Ef þú ferðast án þess að taka köttinn með, skaltu íhuga vandlega hvaða möguleikar eru í boði varðandi kattagæslu.
- Hefur þú fjárráð til að annast köttinn, kaupa gæludýratryggingu og fóður, borga dýralæknakostnað, hugsanlega feldhirðu og gæslu?
Svörin við þessum spurningum segja ekki aðeins til um það hvort köttur passar inn í lífsmynstur þitt og fjölskyldu þinnar heldur líka hvers konar köttur hentar þér best.
Er heimilið þitt öruggt fyrir kött eða kettling?
Heimili kattarins er mikilvægur liður í velferð hans. Eftir að kettlingurinn hefur komið sér fyrir á nýja heimilinu þarf hann að kanna allt umhverfið. Leyfðu honum að skoða sig vel um og ná áttum á sínum eigin hraða, en yfirfarðu hvort einhverjar hættur séu mögulega til staðar.
Tryggðu einnig að rólegt rými sé til staðar sem kötturinn getur hörfað á, sérstaklega fyrst eftir að hann kemur heim, svo hann geti smám saman kannað nýja svæðið sitt og kynnst fjölskyldunni.
Hlutir sem þú getur gert til að draga úr streitu á heimilinu eru meðal annars:
- Veittu kettinum þínum sérstakt matarsvæði. Það verður að vera langt frá kattabakkanum, helst fjarri háværum svæðum vegna þess að kettir vilja snæða á rólegu svæði.
- Tryggðu að hann hafi kattabakka sem einnig er geymdur á rólegu svæði. Hann þarf alltaf að vera á sama stað, þar sem kötturinn kemst auðveldlega að honum og fjarri matar- og vatnsskálum.
- Passaðu einnig að hann hafi sérstakt svæði til að leika, veiða, klifra og klóra.
- Útvegaðu kettinum einnig sérstakt svefnpláss sem hann hefur út af fyrir sig.
Eru einhverjar hættur á heimilinu?
Ýmislegt getur verið hættulegt fyrir kött eða kettling bæði innan og utan heimilisins, þar á meðal:
- Rafmagnsvírar eða -snúrur.
- Heimilisefni, hreinlætisvörur og lyf sem auðvelt er að komast í.
- Óvarðar hitahellur.
- Svalir.
- Eitraðar plöntur eins og: Alpafjóla, jólaviður, mistilteinn, bláregn, köllubróðir, kærleikstré, glóðarrós, alparós, köralkirsuber, lárviðarrós, jólastjarna, bergflétta, rökkurlauf, ilmbaun og fíkustré.
Að íhuga hvort köttur eða kettlingur muni henta þínum lífsstíl og heimili mun hjálpa þér að meta hvort þú getir veitt honum hamingjusamt og öruggt umhverfi. Ef af verður, hjálpar það þér einnig að gera samband þitt við nýja fjölskyldumeðliminn enn meira gefandi.
Líkaðu við og deildu þessari síðu