Þvag- og hægðaleki hjá köttum
Þegar kötturinn þinn eldist gæti orðið breyting á því hvort hann notar kattakassann eða fer út til að gera þarfir sínar. Ýmislegt getur valdið því að kötturinn hættir að hafa fulla stjórn á þvaglátum og hægðum en til eru lausnir við því.
Hver eru einkenni þvag- og hægðaleka hjá rosknum köttum?
Ef kötturinn þinn hefur ekki fulla stjórn á þvaglátum eða hægðum, fylgir því hugsanlega mikil áreynsla fyrir hann að gera þarfir sínar. Einnig er mögulegt að hann finni ekki fyrir þörf til að létta á sér og skilji fyrir vikið eftir tauma á gólfinu. Hann gæti haft niðurgang sem hann hefur ekki stjórn á og hætt að nota kattakassann eins og venjulega.
Hver er ástæða þvag- og hægðaleka hjá rosknum köttum?
Ástæðurnar geta verið margvíslegar. Hver orsök er meðhöndluð á ákveðinn hátt auk þess sem gerðar eru ráðstafanir í forvarnarskyni. Þegar kettir eldast, rýrna vöðvarnir sem tengjast lífsnauðsynlegum líffærum og kettirnir hafa ekki sömu stjórn á þeim og áður. þegar vöðvar í kringum þvagfærakerfi og þarmana veikjast, skerðist geta kattarins til að hafa stjórn á þvaglátum og hægðum.
Liðagigt getur líka valdið þvagláts- og hægðavandamálum hjá gömlum köttum. Ef gamli kötturinn þinn er með slitgigt getur verið sársaukafullt fyrir hann að fara í og úr kattakassanum. Það getur verið ástæða þess að hann gerir þarfir sínar annars staðar. Í slíku tilviki er ekki víst að kötturinn sé með þvag- eða hægðaleka svo best er að fara með hann til dýralæknis til að fá greiningu á vandamálinu.
Einn af hverjum 200 köttum fær sykursýki og yfirleitt kemur hún fram hjá köttum sem eru sjö ára eða eldri. Meðal einkenna sykursýki eru mjög tíð þvaglát og mikið magn af þvagi. Einkennin gætu bent til þvagleka. Ef kötturinn þinn er of þungur er hann í aukinni hættu á að fá sykursýki. Ef hann pissar oftar en venjulega, magnið er óvenju mikið og ef hann er þyrstari og lystugri en venjulega, skaltu strax fara með hann til dýralæknis.
Rosknir og aldraðir kettir geta fengið elliglöp og talið er að yfir 80% katta á aldrinum 16 til 20 ára fái elliglöp. Elliglöp lýsa sér einkum í svefnleysi, auknum kvíða og minnisleysi auk þess sem kötturinn virðist vera illa áttaður. Kötturinn þinn virðist hugsanlega hafa þvagláts- eða hægðavandamál en ef hann er með elliglöp man hann kannski ekki hvar kattakassinn er.
Hvernig get ég séð um kött sem hefur ekki stjórn á hægðum?
Mikilvægt er að ráðfæra sig við dýralækni ef þú tekur eftir einkennum þess að köttur sem farinn er að reskjast hafi ekki stjórn á hægðum eða þvaglátum. Hann mun geta greint orsökina og veitt viðeigandi meðferð. Dæmi um meðferð sem dýralæknirinn gæti ráðlagt eru:
- Vöðvaörvandi efni sem veitir kettinum þínum aukna stjórn á þvagblöðruvöðvum
- Bætt mataræði sem dregur úr hættu á steinamyndun í þvagfærum (sem getur valdið sársauka og óþægindum)
- Sérstakt mataræði sem styður við heilbrigða meltingu og dregur úr einkennum eins og niðurgangi með réttri blöndu af trefjum, próteinum og forlífs- eða flórubætandi efnum
Þú gætir líka viljað gera einhverjar breytingar á heimilinu til að auðvelda roskna kettinum að nota kattakassann sinn, eins og t.d. að fá kassa með lægri hliðum eða setja kattakassa á hverja hæð hússins til að einfalda aðganginn.
Þótt það geti verið erfitt þegar roskni kötturinn þinn missir stjórn á hægðum eða þvaglátum þá eru aðferðir í boði sem geta hjálpað honum að ná bata og bættri heilsu. Ræddu við dýralækninn þinn til að fá frekari aðstoð og upplýsingar.
Related Articles
Finna dýralækni
Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.
Líkaðu við og deildu þessari síðu