Að halda kettinum þínum í heilbrigðri þyngd
Þegar kötturinn þinn er í heilbrigðri þyngd eru lífsgæði hans betri – hann getur leikið og hreyft sig meira, líkamleg og andleg heilsa er betri og hann mun lifa lengur. Sem eigandi kattarins þarftu að vita nákvæmlega hvernig þú getur hjálpað honum að viðhalda heilbrigðri þyngd og öðlast framúrskarandi lífsgæði.
Að hjálpa kettinum þínum að fá hreyfingu
Það er nauðsynlegt að þú gefir þér reglulega tíma til að leika við köttinn þinn, sérstaklega ef hann heldur sig mest innandyra, til að hjálpa honum að viðhalda heilbrigðri þyngd. Innikettir þurfa að meðaltali þriðjungi færri hitaeiningar en útikettir vegna minni orkunotkunar, og því er leikur við köttinn góð aðferð til að auka hreyfingu hans og draga úr líkum á að hann þyngist.
Það er frábær byrjun að gefa þér tvær mínútur af leiktíma tvisvar á dag, og auka tímann svo smám saman eftir því sem kötturinn verður virkari. Gefðu honum leikföng sem hann getur leikið sér með sjálfur eða matarleikföng sem gefa kettinum nokkur fóðurkorn í verðlaun þegar hann leikur með þau og hvetja þannig til aukinnar hreyfingar.
Leiði er ein meginástæðan fyrir því að kettir borða án þess að vera svangir. Með því að gefa kettinum hluti til að leika með hjálparðu honum þess vegna að einbeita sér að einhverju hollara og skemmtilegra til lengri tíma litið.
Að fóðra köttinn þinn rétt
Ef þú temur þér ákveðnar reglur um fóðrunina frá upphafi er líklegra að kötturinn þinn haldist í kjörþyngd og venji sig ekki á að betla eða væla um mat.
Mældu ráðlagðan dagskammt af fóðri eða vigtaðu hann, til dæmis á eldhúsvigt. Þér kann að finnast þetta lítið magn en í tilbúnu heilfóðri eru næringarefnin í jafnvægi og skammtastærðirnar vandlega reiknaðar út miðað við að kötturinn þinn fái öll næringarefni sem hann þarf. Kötturinn þinn þarf líka að hafa aðgang af nægu fersku vatni. Það bætir meltinguna og kemur í veg fyrir þvagfæravandamál eins og myndun þvagfærasteina.
Haltu kattanammi í hófi því það getur aukið daglegan hitaeiningafjölda verulega. Ef þú gefur kettinum þínum aukabita skaltu reikna þá inn í heildar hitaeiningafjölda dagsins.
Réttur matur á réttum tíma
Næringarþörf katta er ólík eftir aldri og lífsháttum. Til að viðhalda kjörþyngd þarf þess vegna að fylgjast með vextinum og aðlaga fóðrið að þörfum á hverjum tíma.
Kettlingar þurfa mjög mikla orku á aldrinum fjögurra vikna til fjögurra mánaða því þá vaxa þeir mjög hratt. Meltingarkerfi þeirra er hins vegar viðkvæmt og þess vegna þarf orkuþéttleiki í fóðrinu að vera mikill auk þess sem það þarf að vera auðmeltanlegt svo þeir fái ekki magakveisu. Vigtaðu kettlinginn þinn reglulega og aðlagaðu fóðurskammta í samræmi við þyngdaraukninguna sem dýralæknirinn sagði þér að væri eðlileg.
Ófrjósemisaðgerð hefur veruleg áhrif á þyngd kattarins þíns. Orkuþörf hans minnkar um 30% en matarlystin getur aukist um allt að 26% dagana eftir aðgerðina. Geldir kettir eru því í meiri hættu á að þyngjast, ekki síst skömmu eftir aðgerðina. Sérstakt fóður fyrir geldinga getur komið í veg fyrir að það gerist. Í því eru færri hitaeiningar og næringarefnablandan er með þeim hætti að kötturinn fær öll nauðsynleg næringarefni til að viðhalda heilbrigði.
Orkuþörfin eykst verulega á meðgöngu og við lok meðgöngunnar borðar læðan 70% meira en venjulega. Fóður sem er sérhannað fyrir læður á meðgöngu og með kettlinga á spena er besti kosturinn. Fóðrið er fituríkt og eykur mjólkurframleiðslu læðunnar. Best er að ræða við dýralækninn og fá ráð hjá honum um heppilegt fóður og hvernig best er að haga fóðurgjöf kettlingafullrar læðu.
Dýralæknirinn þinn getur ráðlagt þér hvað best er að gera til að kötturinn þinn haldist í kjörþyngd.
Related Articles
Finna dýralækni
Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.
Líkaðu við og deildu þessari síðu