Á ég að taka að mér heimilislausan hund eða kaupa hvolp?
Það er vissulega spennandi að fá sér hvolp en því fylgir jafnframt ákveðið álag á heimilið. Það getur líka verið ákaflega gefandi að taka að sér fullorðinn hund og í sumum tilvikum hentar það jafnvel betur. Því geta fylgt kostir sem þú hafðir ekki leitt hugann að.
Að taka að sér fullorðinn hund
Það er kannski ekki jafn „krúttlegt“ að taka að sér fullorðinn hund og hvolp en það getur verið auðveldara. Hundur sem fær annað tækifæri hjá nýrri fjölskyldu er gjarnan ótrúlega blíður og örlátur á vinahót. Hann er líka búinn að fara í gegnum hvolpaskeiðið sem reynist oft á hvolpaeigendur við þjálfun hvolpanna sinna.
Kostir þess að taka að sér fullorðinn hund
- Líklegt er að fullorðinn hundur hafi þegar fengið grunnþjálfun. Það er samt ekki alltaf raunin og þarf að fá staðfest hjá fyrri eiganda eða athvarfinu þar sem hundurinn er.
- Fullorðni hundurinn er líklegri en hvolpur til að hafa stjórn á þvagblöðrunni og kunna að gera þarfir sínar úti.
- Persónuleiki fullorðins hunds er orðinn þroskaður og auðveldara er að meta hvernig hann fellur að fjölskyldulífinu.
- Fullorðinn hundur er fullvaxinn og því þarf ekki að velta vöngum yfir stærðinni.
- Fullorðnir hundar eru alla jafna ekki jafn ærslafullir og hvolpar. Það þýðir ekki að þeir séu dauflegir, eingöngu að mesti hvolpagalsinn ætti að vera liðinn hjá þótt það geti raunar verið breytilegt eftir tegundum.
Hugsanlegir erfiðleikar við að taka að sér fullorðinn hund
- Ef fullorðinn hundur er heimilislaus er hugsanlegt að hann hafi orðið fyrir áfalli. Það gæti orsakað hegðunarvandamál.
- Stundum er erfitt að venja hunda af ósiðum sem þeir hafa tamið sér.
- Ef fullorðinn hundur er ekki húshreinn, eins og sagt er eða vanur að gera þarfir sínar úti, getur verið erfitt að kenna honum það á fullorðinsaldri.
- Ef hundurinn hefur litla lífsreynslu getur verið erfitt fyrir hann að venjast nýjungum, til dæmis börnum, köttum eða jafnvel ryksugu.
- Heilsufarsvandamál geta komið upp með hækkandi aldri, ekki síst ef hundurinn hefur ekki fengið viðhlítandi umönnun. Umtalsverður kostnaður getur hlotist af því. Til dæmis: Offita, sykursýki, skert sjón, skert heyrn eða vandamál í tengslum við tennur eða tannhold.
- Ef annar hundur er á heimilinu getur verið erfiðara fyrir hann að sættast við fullorðinn hund en hvolp.
Áður en þú kemur heim með fullorðinn hund
- Spurðu um aldur hundsins
- Aflaðu þér upplýsinga um hvernig lífi hans var háttað áður
- Spurðu um persónuleika hans
- Spurðu hvernig honum lyndi við aðra hunda
- Spurðu hvort hann sé sáttur innan um börn
- Spurðu hvort hann sé hræddur við eitthvað sérstakt, hvort eitthvað valdi honum kvíða eða hvort hann sé árásargjarn.
- Spurðu hvort einhver heilsufarsvandamál hrjái hundinn og hvernig tannheilsan sé. Fáðu einnig að vita hvort hann er fullbólusettur og hvort þú þurfir að vera á varðbergi vegna einhvers í heilsufarssögu hans.
- Kannaðu hvort þú mátt verja tíma með hundinum áður en þú tekur hann að þér
- Athugaðu hvort þú mátt fara með hann í gönguferðir, taumlausan og í taumi
- Spurðu hvort þú megir fara með hundinn inn í bíl til að sjá hvernig hann bregst við
Ef þú spyrð að þessum atriðum færðu betri sýn á hundinn og fortíð hans. Það gerir þig hæfari til að mæta þörfum hans og veita honum öruggt og gott skjól. Auk þess gerir það þér kleift að undirbúa þig til að mæta þörfum hans.
Að velja hvolp
Þegar sú ákvörðun liggur fyrir að bæta hvolpi við fjölskylduna þarf að velja staðinn þar sem hvolpurinn er keyptur. Þú getur valið um að taka að þér hvolp eða hund úr athvarfi eða leita til ræktanda og kaupa ættbókafærðan hvolp. Þú skalt kynna þér valkostina vel og ganga úr skugga um að ræktandi hvolpsins þíns sé vandur að virðingu sinni. Hægt er að finna ræktendur í gegnum dýralækna eða Hundaræktarfélag Íslands. Það er varasamt að kaupa hvolp í gæludýraverslun eða ámóta stað.
Kostir við að velja hvolp
- Ef þú ákveður að fá þér ættbókafærðan hvolp eru meiri líkur á að þú getir séð fyrir stærð hundsins og líkamlegt útlit þegar hann verður fullorðinn.
- Þú getur fengið ítarlegri hugmynd um líkamlegan og tilfinningalegan bakgrunn hvolpsins en þegar þú færð fullorðinn hund frá hundaathvarfi.
- Þú færð ýtarlegar heilsufarsupplýsingar um hvolpinn, ekki síst ef þú ferð til viðurkennds ræktanda.
- Best er að byrja alla þjálfun meðan hundurinn er ungur. Það þýðir að þú sérð alfarið um að kenna hvolpinum þínum og þjálfa hann en þarft ekki að venja hann af gömlum siðum.
- Þjálfun hvolpsins er mikilvægur þáttur í að styrkja tengslin milli ykkar.
- Mestar líkur eru á því að þú munir eiga mörg ánægjuleg ár með hundinum þínum.
Áskoranir við að ákveða að fá sér hvolp
- Hvolpar eru ómótstæðilegir en þeir geta líka eyðilagt muni og reynt á þolinmæðina. Ekki vanmeta tímann sem þarf að verja með hvolpi og þá skuldbindingu sem felst í að taka að sér hvolp, þjálfa hann og kenna honum. Ef þú leggur þig fram frá upphafi færðu það margfalt til baka í ánægðari hundi sem er þægilegri í umgengni og samskiptum.
- Ungir hvolpar eru afar forvitnir og þeir læra af reynslunni. Það er jákvætt en það þýðir jafnframt að þú þarft stöðugt að hafa auga með hvolpinum þínum. Ef þú vinnur utan heimilis allan daginn og líklegt er að þú þurfir að skilja hvolpinn lengi eftir einan, ættir þú að endurskoða hugmyndina um að taka að þér hvolp.
- Hvolpar geta átt yndisleg samskipti við börn en þeir þurfa líka staðfestu. Það er mikilvægt að börnin skilji að hvolpurinn er ekki leikfang og að það þarf að koma fram við hann af virðingu svo hann temji sér ekki ósiði.
Áður en þú kaupir hvolp
- Skoðaðu aðstæðurnar sem hvolpurinn ólst upp í hjá ræktandanum.
- Kannaðu hvort hvolpurinn hefur fengið að kanna umhverfi sitt utan dyra.
- Fáðu upplýsingar um ætterni hvolpsins og fáðu að sjá hann í samskiptum við mömmu sína. Ekki á að skilja hvolpa frá mæðrum sínum fyrir átta vikna aldur.
- Fáðu að vita hvort búið er að bólusetja og örmerkja hvolpinn og fáðu gögn frá dýralækni sem staðfesta það.
- Kannaðu hvort búið er að gefa hvolpinum lyf gegn sníkjudýrum (ormalyf).
- Spurðu ræktandann hvort og hvernig hann hafi umhverfisþjálfað hvolpinn.
- Veittu því eftirtekt hvort ræktandinn vill fá upplýsingar um þig. Ábyrgur ræktandi vill að hvolparnir fái góð heimili.
Hvort sem þú tekur að þér hvolp eða fullorðinn hund, hefur það sína kosti og galla. Hver sem niðurstaðan verður, skaltu undirbúa þig vel því lengi býr að fyrstu gerð og ef þú vandar valið eykur þú líkurnar á ánægjulegu lífi með hundi á heimilinu.
Related Articles
Líkaðu við og deildu þessari síðu