Hótelhósti hjá hundum

Hótelhósti, eða smitandi barkabólga hjá hundum, er mjög smitandi öndunarfærasjúkdómur. Hundar fá hann oft þegar þeir komast í náið samband við aðra hunda í ákveðnu umhverfi eins og á hundahóteli, dagvistun eða á hundasýningum.
Puppy Siberian Husky lying down on an examination table in a vets office.

Hvað er hótelhósti?

Hótelhósti er mjög smitandi öndunarfærasjúkdómur sem getur breiðst hratt út meðal hunda, sérstaklega ef þeir eru í mikilli nálægð hver við annan.

Hver eru einkenni hótelhósta?

Algengasta einkenni hótelhósta eru miklir og þurrir hóstakrampar og stundum kúgast hundarnir í kjölfarið. Oftast dregur úr krafti hóstanna á fyrstu 5 dögunum, en sjúkdómurinn er viðvarandi í 10 til 20 daga. Almennt heilsufar hundsins eða hvolpsins auk aldursins getur ráðið því hversu alvarlegur sjúkdómurinn verður fyrir hann.

Önnur einkenni geta einnig verið:

  • nefrennsli
  • hnerrar
  • rennsli úr augum

Hvað veldur hótelhósta?

Hundar fá oft hótelhósta þegar þeir eru í nánu sambandi við aðra hunda í ákveðnu umhverfi eins og á hundahóteli, dagvistun eða á hundasýningum. Hann getur smitast ef hundur kemst í snertingu við smitaðan hund eða ef hundar deila sýktum hlutum á borð við matar- eða vatnsskálum.

Er hægt að bólusetja hvolpinn minn fyrir hótelhósta?

Hægt er að koma í veg fyrir hótelhósta með réttri bólusetningu, svo mikilvægt er að tryggja að hvolpurinn fái nauðsynlegar sprautur á réttum aldri.

Dýralæknirinn þinn mun hjálpa þér að velja þá bólusetningaráætlun sem hentar hvolpinum þínum best. Við það tekur hann mið af þeirri áhættu sem líklegt er að hvolpurinn muni búa við vegna lífsstíls hans og umhverfis auk þeirra athafna sem hann mun taka þátt í.

Hvernig veit ég hvort hvolpurinn minn þarf þessa bólusetningu?

Sumar bólusetningar eru lögboðnar en aðrar eru bara ráðlagðar. Mælt er með bólusetningu gegn hótelhósta ef hvolpurinn eða hundurinn þinn mun verða í nánu sambandi við aðra hunda.

Ef hvolpurinn þinn mun dvelja á hundahótelum eða taka þátt í sýningum, íþróttum eða athöfnum þar sem hann gæti orðið útsettur fyrir hótelhósta er mikilvægt að segja dýralækninum frá því svo hægt sé að vernda hvolpinn með góðum fyrirvara.

Mun bólusetningin alltaf vernda hundinn minn gegn hótelhósta?

Þegar kemur að hótelhósta geta margir virkir orsakavaldar tengst ákveðnum sjúkdómi. Bóluefnið verndar gegn þeim orsakavöldum sem taldir eru mikilvægastir, en virkar ekki gegn þeim öllum.

Þrátt fyrir að hvolpurinn þinn hafi fengið bólusetninguna getur hann því engu að síður fengið sjúkdóminn ef hann kemst í snertingu við þá orsakavalda sem bóluefnið virkar ekki gegn.

Eru aðrar leiðir til að koma í veg fyrir að hundar fái hótelhósta?

Þegar þú skoðar hundahótel ættirðu að byrja á að kanna hvort þar sé gerð krafa um að allir hundar séu bólusettir gegn hótelhósta. Þú sérð það þegar þú fyllir út umsókn um vist fyrir hvolpinn þinn.

Meðal þess sem er yfirleitt spurt um á hundahótelum og í dagvist er hvaða bólusetningar hundurinn hefur fengið. Mestar líkur eru á því að farið verði fram á að hvolpurinn þinn sé bólusettur áður en hann fær leyfi til að dvelja þar.

Það ætti að varna því að veiran komist inn á viðkomandi hótel eða dagvist eða breiðist út í grenndinni. Ef aðeins sumir hundanna eru bólusettir munu orsakavaldar sjúkdómsins dreifast auðveldlega meðal hundanna sem eru á viðkomandi stað. Það leiðir til þess að hættan á smiti eykst.

Þú getur líka spurst fyrir um hvaða forvarnir eru gerðar ef hundar veikjast, til dæmis hvort þeir eru hafðir í einangrun og hvernig verkferlar eru í tengslum við þrif og sótthreinsun. Með því að vita af öllum verkferlum sem eru í gildi geturðu betur tryggt að hvolpurinn þinn sé í sem minnstri hættu á að fá hótelhósta.

Hvað á ég að gera ef mér finnst hundinum mínum líða illa?

Það er auðvelt að greina einkenni hótelhósta. Ef þú telur að hvolpurinn sé með einhver þessara einkenna ættirðu að hafa samband við dýralækni. Hann mun framkvæma ýmsar prófanir til að ákvarða hvort hvolpurinn sé með sjúkdóminn og getur svo veitt ráð um bestu meðferðina.

Til að tryggja að sem mestar líkur séu á að hundurinn sleppi við að fá hótelhósta þegar hann er í nánu samneyti við aðra hunda skaltu alltaf láta dýralækninn þinn vita með fyrirvara svo hann geti gefið bóluefnið innan nauðsynlegra tímamarka.

Jack Russel Terrier adult standing in black and white on a white background

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsu hundsins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Sérsniðin næring fyrir hvolpinn þinn

Mikið úrval er til af fóðri sem styrkir varnarkerfi og heilbrigðan vöxt ásamt því að þroska meltingarkerfið.

Líkaðu við og deildu þessari síðu