Breytingar á fóðri eftir því sem hundurinn eldist

Næringarþörf hundsins þíns breytist eftir því sem hann þroskast og þú þarft að miða fóðrið hans við það. Lestu ítarlegar upplýsingar um breytta næringarþörf hunda.
Ageing Irish Setter lying down indoors.

Næringarþörf hvolpa sem eru að vaxa, fullvaxinna hunda og þeirra sem eru farnir að eldast, er ólík. Þess vegna þarf hundurinn að fá viðeigandi fóður á hverju aldursskeiði til að tryggja að hann verði sem heilbrigðastur.

Næring eldri hunda

Þegar hundar eldast breytist næringarþörf þeirra. Hún er gjörólík næringarþörf hvolpa og nokkuð ólík næringarþörf fullorðinna hunda. Það þarf að hlúa vel að hundi til að hann haldi góðri heilsu alla ævi. Regluleg hreyfing viðheldur vöðvastyrk hundsins og kemur í veg fyrir að hann þyngist um of. Það þarf einnig að sinna munnhirðu og feldhirðu.

Hvað varðar orkuþörf er rétt að miða við hversu mikið hundurinn hreyfir sig, aldur hans og hugsanleg heilsufarsvandamál. Hundur með liðagigt hreyfir sig til dæmis minna og þarf þar af leiðandi minni orku. Því þarf að gæta þess að hann þyngist ekki of mikið. Hundurinn þarf ekki að fá orkuskert fóður nema hann sé of þungur. Minni áhugi á hreyfingu er ekki endilega fylgifiskur þess að eldast. Það þarf að rannsaka hundinn til að kanna hvort einhver sjúkdómur hrjáir hann.

Besta leiðin til að komast sem fyrst að því hvort einhver hrörnunarsjúkdómur hrjáir hundinn er að vigta hann reglulega og fara með hann í reglubundnar dýralæknaskoðanir.

Næring fyrir hunda sem eru að eldast

Með hækkandi aldri breytist meltingin og sömuleiðis næringarþörfin. Fóður fyrir hunda sem eru að eldast ætti að einkennast af eftirfarandi:

Vera auðugt af C og E vítamínum

Þetta eru andoxunarefni sem verja líkamann gegn skaðlegum áhrifum oxunar sem fylgir öldrun.

Innihalda hágæða prótein

Eldri hundar nýta prótein ekki jafn vel úr fóðrinu og ungir hundar enda hægist á meltingarstarfsemi með aldrinum. Mikilvægast er að auka gæði próteina. Sumir halda að prótein valdi nýrnabilun. Það er ekki raunin. Nýrnabilun er langvinnur ólæknandi sjúkdómur sem er algengari meðal þeirra sem eldri eru. Mælt er með því að minnka fosfór í fóðrinu til að hægja á þróun sjúkdómsins. Áður en þú skiptir um fóður skaltu samt fá greiningu hjá dýralækni.

Innihalda hærra hlutfall af járni, kopar, sinki og mangan

Þessi næringarefni hafa góð áhrif á húð og feld. Lífræn sölt eru auðmeltanlegri en ólífræn sölt og því er líklegra að þau nýtist hundi með hægvirkt meltingarkerfi.

Innihalda aukið magn af fjölómettuðum fitusýrum

Sojaolía er notuð til að viðhalda feldgæðum en þó eru hjólkrónuolía og lýsi enn betri. Venjulega framleiða hundar þessar fitusýrur en með aldrinum getur dregið úr þeirri framleiðslu.

Innihalda svolítið meira af trefjum sem virka sem kjölfesta

Með því að fá meira af trefjum minnka líkurnar á harðlífi sem er stundum fylgifiskur ellinnar þegar hundar fara að hreyfa sig minna.

Tannheilsan versnar með aldrinum. Huga þarf að lögun, stærð og mýkt fóðurkúlnanna til að tryggja að hundurinn borði nægilega mikið.

German Shepherd adult eating from a red bowl

Matur fyrir eldri hunda

Þegar hundur hefur lifað þrjá fjórðu hluta ævinnar miðað við lífslíkur, telst hann vera öldungur. Öldrunareinkenni koma smám saman í ljós þegar hundur nær ákveðnum aldri. Þessi einkenni eru vanalega augljós hjá smáhundum þegar þeir ná 12 ára aldri, hjá miðlungs stórum hundum þegar þeir verða 10 ára og hjá stærri hundum upp úr átta ára aldri.

Á þessu aldursskeiði skiptir máli að gefa fóður sem vinnur gegn öldrunareinkennum. Þannig er hægt að viðhalda heilbrigði hundsins eins lengi og mögulegt er. Eftirfarandi þættir eru sérlega mikilvægir:

Að bæta ónæmi og auka viðnám gegn smiti

Ónæmiskerfi hunda veikist með aldrinum. Það hefur sýnt sig að ákveðin næringarefni styrkja ónæmiskerfið, meðal annars beta karótín, E og C vítamín og steinefni eins og sink.

Að bæta útlit húðar og felds

Ákveðin efni auka heilbrigði og fegurð húðar og felds ef þau eru gefin reglulega. Hjólkrónuolía hefur góð áhrif, hún eykur gljáa feldsins og teygjanleika húðarinnar. Sink er gott fyrir aldraða hunda með rytjulegan feld.

Að draga úr liðagigt

Glúkósamín, kondróitín súlfat og EPA/DHA bæta hreyfigetu aldraðra hunda. Það hefur sýnt sig að hreyfigeta hunda með slitgigt eykst ef þeir fá þessi næringarefni. Nokkrar tegundir nýrra fóðurblanda hafa verið þróaðar, þar á meðal curcuma-þykkni, fjölfenól og vatnsrofið kollagen, og hafa þær reynst árangursríkar við að bæta hreyfigetu og lífsgæði aldraðra hunda.

Aldraðir hundar eru vitaskuld ólíkir. Heilbrigður gamall hundur ætti ekki að borða sama fóður og gamall hundur með heilsufarsvandamál.

Ef þú ferð með hundinn þinn í reglubundnar dýralæknaskoðanir er hægt að greina hvers kyns sjúkdóma á frumstigi. Oft og tíðum getur fóður fyrirbyggt eða dregið úr klínískum einkennum langvinnra sjúkdóma í gömlum hundum. Dýralæknirinn getur ráðlagt þér hvaða fóður hentar best.

Líkaðu við og deildu þessari síðu