Leiðbeiningar þínar fyrir kaup á kettlingi
Þegar þú ákveður að kaupa kettling er mikilvægt fyrir þig að vinna undirbúningsvinnuna vandlega til að koma í veg fyrir að þú fjármagnir óábyrga ræktun og tryggja að þú fáir heilbrigt gæludýr með þér heim.
Kostir við að kaupa kettling
- Það er líklegra að þið eigið lengra líf fyrir höndum saman
- Þú getur fengið mun ítarlegri sjúkrasögu kettlingsins
- Kettlingar eru ólíklegri til að hafa þróað með sér hegðunarvanda af völdum fyrri reynslu.
Gallar við að kaupa kettling
- Kettlingar þurfa meiri umönnun og athygli en fullorðnir kettir fyrst um sinn
- Kettlingar munu þurfa nokkra þjálfun
- Kettlingar gætu þurft meiri umönnun og læknishjálp í upphafi, eins og t.d. bólusetningar
Hvar á að kaupa kettling
Það er hægt að kaupa kettling frá skráðum ræktanda. Það mikilvæga er að ganga úr skugga um að kettlingarnir og móðir þeirra séu heilbrigð og vel séð um þau áður en þú tekur einn heim. Forðastu að kaupa kettlinga frá stöðum sem virða ekki velferð dýra. Það er eindregið mælt með að þú farir til virts ræktanda eða seljanda. Það er góð hugmynd að biðja dýralækninn þinn um að benda þér á ræktendur í nágrenninu.
Góð ráð við kaup á kettlingi
- Farðu undantekningarlaust heim til ræktandans og sjáðu hvar kettlingurinn býr áður en þú tekst á hendur þessa skuldbindingu. Með því móti fræðist þú betur um sögu kettlingsins og hvernig hugsað hefur verið um hann.
- Þegar þú talar við ræktanda, skaltu spyrja hann um geðslag foreldranna því þá færðu betri mynd af því hvernig kettlingurinn þinn verður.
- Spurðu ræktandann hvað hann hafi gert til að venja kettlingana við fólk og almennt heimilishald (sem oft er talað um sem umhverfisþjálfun). Félagshæfni katta mótast að mestu leyti fyrstu átta vikurnar í lífi þeirra svo það skiptir höfuðmáli að sinna þeim vel í frumbernsku.
- Skoðaðu hvort hreint er í kringum kettlingana og hvort þeir eru vel nærðir.
- Spurðu um aldur kettlinganna. Þeir ættu að vera hjá læðunni þar til þeir ná um 12 vikna aldri, því það getur haft áhrif á hegðun þeirra í framtíðinni ef þeir eru teknir fyrr frá mömmu sinni.
- Aðgættu hvort þú sérð einhver merki um heilsufarsvandamál. Kettlingar eiga að hafa líflegan augnsvip og vera í eðlilegum holdum.
- Spurðu hvort þeir hafi farið í skoðun hjá dýralækni. Í dýralæknaskoðun felst einnig bólusetning, ormahreinsun og skimun eftir arfgengum sjúkdómum ef um er að ræða hreinræktað kattakyn. Farðu fram á að fá heilbrigðisvottorð með kettlingnum.
- Spurðu hvort læðan hafi verið bólusett og ormahreinsuð. Sé það ekki raunin, er ólíklegt að kettlingarnir hafi verið bólusettir og ormahreinsaðir.
- Spurðu hvort kettlingarnir hafi verið örmerktir. Ef ekki, skaltu láta örmerkja kettlinginn þinn sem fyrst.
- Veldu þér dýralækni og pantaðu tíma fyrir kettlinginn fljótlega eftir að hann kemur inn á heimilið.
Það getur verið mjög gaman að koma heim með kettlinginn en áður en að því kemur borgar sig að undirbúa sig. Ef þú vandar þig og vinnur heimavinnuna, eykur þú líkurnar á því að taka heilbrigt dýr sem er í góðu jafnvægi, inn á heimilið og kemst hjá því að eiga viðskipti við þá sem eru óvandir að virðingu sinni.
Related Articles
Líkaðu við og deildu þessari síðu