Ætti ég að taka að mér kött eða kaupa kettling?

Ýmsir þættir munu líklega hafa áhrif á ákvörðun þína um hvort þú fáir þér kettling eða fullorðinn kött. Báðir kostirnir geta verið mjög gefandi, en með því að vinna undirbúningsvinnuna getur þú tryggt að gæludýrið þitt verði ánægt og aðlagist vel nýja heimilinu.
Adult cat standing next to a kitten licking its ear.

Það er ekkert rétt eða rangt svar þegar þú ert að ákveða hvort þú viljir fá þér fullorðinn kött eða kettling. Það sem skiptir máli er að þú kannir vel kostina sem þér bjóðast og þú farir til ábyrgs ræktanda eða athvarfs þar sem þú færð góðar upplýsingar, ráð og aðstoð.

Ýmsir þættir munu líklegast hafa áhrif á ákvörðunina, til dæmis hvort þú viljir ákveðið kattakyn og hvort þú hafir tíma til að húsvenja kettling. Báðar þessar aðferðir við að fá kött geta verið mjög gefandi, en þær eru engu að síður mjög ólíkar.

Að taka að sér fullorðinn kött

Þegar ákveðið er að fá kött á heimilið sjá kannski flestir fyrir sér að eignast kettling, en það fylgja hins vegar ýmsir kostir því að taka að sér fullorðinn kött. Kattaathvörf eru víða full af köttum á öllum aldri sem leita að nýjum heimilum og í sumum tilvikum eru þeir hreinræktaðir.

Kostirnir við að taka að sér fullorðinn kött

  • Að veita fullorðnum ketti heimili er ábyrgur kostur og getur verið mjög gefandi
  • Þú munt geta valið úr fjölbreyttu úrvali katta sem eru mismunandi í útliti, aldri og skapgerð
  • Starfsfólk athvarfa mun þekkja hvern kött vel og getur hjálpað þér að finna þann sem hentar þér best
  • Fullorðnir kettir eru í flestum tilvikum orðnir húsvanir og kunna að nota kattakassa
  • Fullvaxnir kettir geta verið hljóðlátari en kettlingar
  • Kettir úr athvörfum hafa jafnan fengið meðferð við sníkjudýrum, verið skoðaðir af dýralækni og eru mögulega vanaðir og bólusettir áður en þú ferð með þá heim
  • Hvers kyns hegðunareinkenni og skapgerð eru sennilega þegar komin fram hjá fullorðnum ketti svo þú ættir að geta fundið gæludýr sem er þegar farið að sýna hver þau einkenni sem þú óskar eftir

Áskoranir við að taka að sér fullorðinn kött

  • Saga margra katta sem hefur verið bjargað í athvarf er óljós og sýna gæti þurft sumum þeirra svolitla viðbótarumönnun til að hjálpa þeim að koma sér fyrir á nýja heimilinu
  • Fullorðinn köttur gæti þegar verið búinn að tileinka sér slæmar venjur sem erfitt gæti verið að breyta
  • Langt er um liðið síðan fullorðinn köttur var á aðalfélagsmótunarskeiði sínu, en engu að síður er enn svigrúm fyrir ákveðna hegðunaraðlögun

Hvar á að finna kött til að taka að sér

Ýmsir staðir eru í boði til að finna kött til að taka að sér, en sennilega eru athvörf algengust. Þegar þú velur athvarf er mikilvægt að heimsækja það og spyrja gaumgæfilega út í stefnu þess, umönnun og hollustuhætti.

Gott athvarf ætti jafnframt að hafa gert ráðstafanir til að félagsmóta ketti og venja þá við líf á hefðbundnu fjölskylduheimili.

Tækifæri til að finna kött til að bjarga gefast oft einnig hjá:

  • Vinum, nágrönnum eða kunningjum sem gætu átt ketti sem þeir geta ekki hugsað lengur um.
  • Dýralæknar. Stundum eru óskilakettir hjá dýralæknum svo þú getur prófað að spyrjast fyrir hjá þeim.
Kitten grey and white standing indoors playing with a red ball.

Að velja kettling

Ákveðið kattakyn getur verið hinn fullkomni köttur í augum sumra. Til að tryggja að þú fáir það sem þú vilt er heppilegra að taka að sér kettling frekar en fá fullorðinn kött úr athvarfi.

Til eru fjölmörg kattakyn og hvert þeirra hefur sín einkenni. Kattakynin eru ekki bara ólík í útliti heldur einnig í atgervi. Það er því mikilvægt að þú skoðir valmöguleikana og veljir kött af kyni sem hentar lífsstíl þínum.

Fæstir ábyrgir ræktendur vilja láta kettlingana frá sér fyrir 12 vikna aldur, þegar búið er að bólusetja þá og þeir eru tilbúnir að fara frá mömmu sinni og systkinum. Á þessum tíma á sér stað mikilvæg umhverfisþjálfun í lífi kettlingsins. Það er mikilvægt að ræða við ræktandann og spyrja hann hvað hann hafi gert til að stuðla að þroska kettlingsins.

Það er einnig hægt að fá kettlinga í athvarfi. Í þeim tilvikum liggja sjaldan fyrir upplýsingar um ætternið. Starfsfólk í athvarfinu ætti þó að geta áttað sig á persónueinkennum kettlinganna og aðstoðað þig við val á kettlingi sem hentar best heimilisaðstæðum þínum. Þótt hægt sé að greina ákveðin persónueinkenni hjá kettlingum gæti það verið tilviljun en eins og margir kisuaðdáendur segja, þá er það hluti af því sem er heillandi við ketti.

Kostir við að eignast kettling

  • Kettlingar eru leikglaðir og fjörugir. þeir lífga þess vegna upp á heimilishaldið
  • Þú getur oft valið það kattakyn sem þú vilt
  • Þú færð allar heilsufarsupplýsingar hjá ræktandanum

Áskoranir við að eignast kettling

  • Kettlingar þurfa meira á þér að halda og í lengri tíma en fullorðinn köttur
  • Þú þarft að gefa þér tíma til að kenna kettlingnum að gera þarfir sínar á réttum stað

Hvar hægt er að eignast kettling

Það er víða hægt að fá kettlinga, hvort sem þeir eru frá ræktanda, úr athvarfi eða frá fjölskyldu þar sem kettlingar fæddust óvart. Það mikilvæga er að ganga úr skugga um að kettlingarnir og móðir þeirra séu heilbrigð og vel séð um þau áður en þú tekur einn heim.

Það er eindregið mælt með að þú farir til virts ræktanda eða seljanda. Þú getur spurst fyrir og aflað þér upplýsinga um ábyrga ræktendur í nágrenni við þig.

  • Ef þú ákveður að kaupa kettling af ákveðnu kattakyni og ert búin/n að finna ræktanda, skaltu fara í heimsókn og skoða aðbúnað kettlinganna.
  • Kettlingar sem alast upp á fjölmennu heimili þar sem þeir venjast daglegu heimilishaldi, til dæmis gestagangi, hljóðum í ryksugu eða þvottavél og öðrum dýrum sem eru á heimilinu, eru fljótari að aðlagast nýja heimilinu en kettlingar sem alast upp utan heimilis og án samskipta við fólk.
  • Fáðu upplýsingar um geðslag foreldra kettlinganna og spurðu ræktandann hvað hann hafi gert til að umhverfisþjálfa þá. Skoðaðu hvort hreint er í kringum kettlingana og gakktu úr skugga um að vel hafi verið hlúð að heilsufari, velferð og fóðrun þeirra.

Hvort sem þú tekur að þér kettling eða fullorðinn kött, borgar sig að kynna sér málið vel fyrirfram. Það gerir þig að umhyggjusamari og ábyrgari kattaeiganda og tryggir kettinum þínum ánægjulegt líf hjá þér.

Lesa meira um kattakyn

Leita að kattakyni
Maine Coon adult standing in black and white on a white background

Líkaðu við og deildu þessari síðu