Fóðrunarleiðbeiningar fyrir kettlinga eftir þroskastigi
Frá fæðingu til fullorðinsaldurs geturðu beitt mismunandi aðferðum til að stuðla að því að kötturinn verði heilbrigður og sáttur. Þetta á til að mynda við um mataræði hans og hvernig hann þróar tengsl við fæðu sína.
Að fóðra kettlinginn þinn fram að fjögurra vikna aldri
Frá fæðingu og þar til hann er orðinn mánaðargamall fær kettlingurinn alla næringu sem hann þarfnast með því að sjúga móður sína. Í fyrstu fær hann broddmjólk - vökva sem minnir á mjólk sem eflir ónæmiskerfið við upphaf ævinnar - og svo kemur mjólkin á eftir. Ef dýralæknirinn ráðleggur þér það, getur þú gefið nýfædda kettlingnum kettlingamjólk til að tryggja að hann fái alla þá næringu sem hann þarf. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef móðir hans mjólkar ekki nægilega mikið eða ekki neitt, eða ef gotið er mjög stórt.
Í fyrstu gæti kettlingurinn lést örlítið á meðan hann lærir að sjúga. Eftir það ætti hann svo að þyngjast jafnt og þétt - vigtaðu hann daglega og ráðfærðu þig við dýralækni ef kettlingurinn hættir að þyngjast eða léttist. Það besta sem þú getur gert á þessu tímabili er að sjá til þess að kettlingarnir og móðir þeirra séu örugg og ótrufluð og fái að nærast í friði.
Að fóðra kettlinginn þinn frá fjögurra vikna til fjögurra mánaða aldurs
Þegar kettlingurinn nær fjögurra vikna aldri mun hann byrja að sýna föstu fæði áhuga og þú getur byrjað afvenslun. Þú getur ýmist gert þetta með því að bleyta þurrt korn með kettlingamjólk eða vatni þannig að það verði að mauki svo kettlingurinn geti borðað það auðveldlega, eða með því að nota blautfæði. Veldu fóður sem er sérstaklega hannað fyrir kettlinga og styður við vöxt þeirra. Til dæmis ætti það að vera ríkt af andoxunarefnum til að örva mótefnaframleiðslu, vegna þess að ónæmið sem kettlingurinn fékk frá móður sinni byrjar að minnka við afvenslunina.
Þú getur byrjað að koma á góðum matarvenjum með því að aðgreina vel svæðin þar sem kettlingurinn matast, leikur sér, sefur og fer í kattakassann, rétt eins og hann myndi gera í náttúrulegu umhverfi. Hafðu líka alltaf nóg af hreinu vatni aðgengilegt til að kötturinn geti drukkið eftir þörfum.
Að fóðra kettlinginn þinn frá fjögurra mánaða aldri
Þegar kettlingurinn þinn þroskast, skaltu viðhalda góðum fóðurvenjum og forðast óþarfa streitu. Leyfðu honum að borða í næði og á rólegum stað. Kettir borða oft og lítið í einu, vanalega 15-17 litlar máltíðir á dag. Flestir kettir hafa góða sjálfsstjórn þegar kemur að mat og sé það raunin varðandi köttinn þinn getur þú skilið dagsskammtinn eftir í fóðurskálinni.
Ef þú ákveður að láta gera köttinn þinn ófrjóan aukast líkur á því að hann þyngist hratt eftir aðgerðina. Ástæðan er sú að orkuþörfin minnkar um 30% meðan matarlystin eykst um allt að 26%. Veldu fóður sem er sérstaklega ætlað geldum köttum og sem hentar kattakyninu. Fylgstu vandlega með líkamsþyngd kattarins þíns.
Þegar þú velur fóður fyrir kettling sem er orðinn 12 mánaða, skaltu hafa lífshætti hans í huga. Innikettir sem hreyfa sig lítið þurfa færri hitaeiningar en útikettir. Það er mikilvægt að gefa kettinum rétt magn af fóðri svo hann fitni ekki og fái lífstílstengda sjúkdóma.
Ef þú venur kettlinginn þinn á góðar matarvenjur er líklegra að hann verði heilbrigður og hamingjusamur í framtíðinni. Ef þú hefur efasemdir um fóðrun kattarins þíns, skaltu leita ráða hjá dýralækni.
Related Articles
Sérsniðin næring fyrir kettlinginn þinn
Næringarríkt fóður sem styrkir náttúrulegt varnarkerfi kettlingsins og stuðlar að heilbrigðum vexti og þroska meltingarfæranna.
Líkaðu við og deildu þessari síðu