Hvítblæði í köttum
Hvað er hvítblæði í köttum?
Hvítblæði í köttum (FeLV) er víxlveira af sömu veirugerð og HIV. Menn geta ekki smitast af henni.
Þessi sjúkdómur er mun fátíðari en áður og nú veikist innan við 1% heilbrigðra katta af hvítblæði. Þessu má þakka víðtækum og árangursríkum bólusetningum kettlinga og fullorðinna katta sem hófust upp úr 1990.
Hvað gerist ef kötturinn minn eða kettlingur fær hvítblæði?
Hvítblæði í köttum bælir ónæmiskerfið smám saman og gerir köttinn varnarlausari gagnvart öðrum sjúkdómum, til dæmis:
- Krabbameini
- Bólgum í líffærum
- Ófrjósemi
Kettlingum sem veikjast versnar smám saman og séu þeir ekki meðhöndlaðir, leiðir veirusýkingin til dauða.
Hvernig smitast hvítblæði í köttum?
Kettir smitast gegnum munnvatn, þegar þeir sleikja hver annan, deila matarskál og eru mikið í návígi hver við annan. Veiran getur einnig borist milli katta með líkamsvessum eins og blóði eða mjólk.
Hún getur legið í leyni í frumum kettlingsins eða líkama kattarins og er því dulin ógn. Veiran kemur erfðaefni sínu fyrir í erfðaefni kattarins. Hún getur vaknað af dvala og valdið sjúkdómseinkennum löngu eftir að kötturinn smitaðist.
Hversu lengi geta kettir lifað með hvítblæði?
Sjúkdómsferli hvítblæðis í köttum er venjulega í kringum þrjú ár þótt ekki lifi allir kettir svo lengi.
Er hægt að bólusetja gegn hvítblæði í köttum?
Til allrar hamingju er til bóluefni gegn þessari banvænu veirusýkingu.
Bólusetning gegn hvítblæði er ein af mikilvægustu bólusetningunum og nauðsynlegt er að bólusetja alla ketti og kettlinga með þessu bóluefni. Þú ættir að ræða við dýralækninn þinn um bólusetningaáætlun fyrir kettlinginn þinn.
Hvenær er best að bólusetja kettlinginn minn?
Heppilegasti aldurinn fyrir fyrstu bólusetningu er átta vikna. Næst er hægt að bólusetja hann þremur til fimm vikum seinna. Þetta á við um grunnbólusetningarnar sem verja kettlinginn þinn gegn algengustu og hættulegustu sjúkdómunum. Bólusett er gegn:
- Kattaflensu, bæði áblástursveiru í köttum (fHV) og bikarveiru í köttum (FCV)
- Kattafársveiru (FPV)
- Hvítblæði í köttum (FeLV)
Dýralæknirinn getur ráðlagt þér varðandi aðrar bólusetningar fyrir kettlinginn þinn, í samræmi við lífshættina, ekki síst ef hugmyndin er sú að hann verði útiköttur og þar af leiðandi í samskiptum við aðra ketti.
Þarf að endurbólusetja gegn hvítblæði í köttum?
Já og hið sama á við um grunnbólusetningarnar. Dýralæknirinn endurbólusetur gegn hvítblæði í köttum þegar kettlingurinn er 12 - 16 vikna gamall.
Þegar kettlingurinn þinn verður ársgamall þarf hann að fá fyrstu endurbólusetninguna sína og verður þaðan í frá bólusettur einu sinni á ári. Hafðu samband við dýralækninn þinn ef þú vilt frá frekari upplýsingar eða ráðleggingar.
Related Articles
Finna dýralækni
Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.
Líkaðu við og deildu þessari síðu