Alnæmisveira í köttum
Hvað er alnæmisveira í köttum?
Alnæmisveira í köttum (FIV) er samsvarandi HIV í mönnum. Það er mikilvægt að vita að fólk smitast ekki af þessari veiru en 1-5% katta bera hana í sér.
Ef köttur smitast af alnæmisveirunni, ber hann veiruna í sér það sem eftir er.
Hvernig smitast alnæmisveiran milli katta?
Hún smitast í slagsmálum og í gegnum bitsár. Hún er þess vegna algengari í ungum ógeldum köttum sem fá að fara út enda slást þeir helst þegar þeir eigna sér yfirráðasvæði.
Hún getur líka smitast með blóðgjöf ef blóðið er ekki skimað.
Hvað gerist ef kettir eru smitaðir af alnæmisveirunni?
Sjúkdómurinn þróast mjög hægt og á mörgum árum. Hann eyðir hvítu blóðkornunum og gerir út um eiginleika kattarins til að verjast sjúkdómum. Afleiðingar skerts ónæmiskerfis eru fylgisýkingar þegar kötturinn nær sér ekki af minniháttar sjúkdómum.
Hver eru einkenni alnæmisveiru?
Köttur með alnæmisveiru fær ýmis einkenni. Sem kattareigandi ættir þú einkum að vera á varðbergi fyrir:
- Þyngdartapi
- Hita
- Sýkingum
- Niðurgangi
- Sleni
Sýktir kettir geta jafnframt þróað með sér taugasjúkdóma og krabbamein.
Er hægt að kanna hvort kötturinn minn er með alnæmisveiruna?
Dýralæknir getur kannað hvort kötturinn þinn eða kettlingurinn er með alnæmisveiruna. Það gerir hann með blóðrannsókn.
Á ég að láta svæfa köttinn minn ef hann er með alnæmisveiru?
Það er engin ástæða til að svæfa hann þótt hann sé með alnæmisveiru. Hins vegar þarf að sýna heilbrigða skynsemi varðandi forvarnir og þú ættir ekki að leyfa honum að ganga lausum úti þar sem hann getur smitað aðra ketti.
Get ég látið bólusetja köttinn minn eða kettlinginn gegn alnæmisveiru?
Bóluefni gegn alnæmisveirunni hefur verið á markaði síðan 2002.
Þegar kemur að því að bólusetja kettlinginn þinn, þarftu að vita af ólíkum flokkum bóluefna.
Bóluefni skiptast í grófum dráttum í tvennt, annars vegar grunnbóluefni og hins vegar þau sem mælt er með. Allir kettlingar og kettir þurfa að fá grunnbólusetningar hjá dýralækni, hvernig sem lífshættir þeirra eru.
Í grunnbólusetningu eru bóluefni gegn:
- Kattaflensu, bæði áblástursveiru í köttum (fHV) og bikarveiru í köttum (FCV)
- Kattafársveiru (FPV)
- Hvítblæði í köttum (FeLV)
Bóluefni gegn alnæmisveiru er ekki flokkað sem grunnbóluefni. Það þýðir að ekki er skylt að bólusetja ketti og kettlinga gegn veirunni. Dýralæknar gefa önnur bóluefni en grunnbóluefnin ef ástæða er til, miðað við lífshætti kattarins eða kettlingsins.
Ef þú hefur áhyggjur eða vilt átta þig betur á því hvaða bólusetningar henta kettlingnum þínum, skaltu ræða við dýralækninn. Hann getur gert tillögur að bólusetningaáætlun miðað við aðstæður. Til dæmis getur skipt máli hvort kötturinn þinn fær að fara út og hvort hann verður í samneyti við aðra ketti.
Hversu margar sprautur fær kettlingurinn minn?
Bólusett er þrisvar sinnum við alnæmisveirunni með tveggja til fjögurra vikna millibili.
Hvenær fær kötturinn minn fulla vernd gegn alnæmisveirunni?
Kettlingurinn þinn er ekki fullvarinn fyrr en eftir þriðju bólusetninguna. Það borgar sig þess vegna að halda honum innan dyra fram að því.
Þarf að endurbólusetja gegn alnæmisveirunni?
Kettlingurinn þinn þarf að fá endurbólusetningu einu ári eftir að hann var bólusettur í annað sinn og síðan árlega upp frá því. Dýralæknirinn segir þér hvenær þarf að bólusetja og minnir þig á þegar kominn er tími á endurbólusetningu.
Ef þú hefur einhverjar efasemdir varðandi bólusetningar kettlingsins þíns skaltu tala við dýralækninn þinn.
Related Articles
Finna dýralækni
Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.
Líkaðu við og deildu þessari síðu