Streitueinkenni hjá köttum

Kettir sýna merki um streitu með ýmsu móti og hægt er að greina streitumerkin á hegðun þeirra. Kynntu þér hvað getur valdið streitu hjá köttum og hvernig hægt er að sigrast á henni.
Adult cat lying down on a carpet surrounded by grey blankets.

Hefur kötturinn þinn hegðað sér undarlega? Felur hann sig þegar dyrabjallan hringir eða er hann tortrygginn við gesti og jafnvel heimilisfólkið? Hugsanlega hefur kötturinn þinn gert þarfir sínar fyrir utan kattakassann. Allt eru þetta merki um streitu hjá kettinum.

Hvað veldur streitu og kvíða hjá köttum?

Ein leið til að meta hvort streita hrjáir köttinn þinn er að skoða aðstæðurnar út frá sjónarhóli hans. Eigandinn getur haft gaman af því að fá gesti í heimsókn en ný lykt og ókunnugt fólk raskar daglegum venjum kattarins. Ef nýtt barn eða gæludýr kemur á heimilið getur það valdið streitu hjá kettinum. Eins ef byggingaframkvæmdir eru í gangi eða breytingar á heimilinu. Segja má að hvers kyns breytingar á daglegum venjum geti haft streituvaldandi áhrif á köttinn.

Streitueinkenni hjá köttum

Kettir sýna merki um streitu á ýmsa vegu. Húðvandamál, meltingarkvillar og sjúkdómar í blöðru geta komið upp. Kötturinn gæti gert þarfir sínar fyrir utan kattakassann, tjáð sig með óvenjulegum hætti, til dæmis kurri eða hvæsi, sýnt árásarhneigð gagnvart fólki eða öðrum dýrum eða þrifið sig óvenju mikið. Dæmi eru meira að segja um að kettir sleiki sig svo mikið af völdum streitu að skallablettir myndist í feldinum.

Að hjálpa til við að koma í veg fyrir eða draga úr streitu hjá köttum

Hvað er hægt að gera til að draga úr streitu og kvíða hjá köttum? Ein lausn er að fækka eins og hægt er þeim skiptum sem þeir lenda í óþægilegum aðstæðum. Þegar þú ferð á ferðalag, er þá til dæmis mögulegt fyrir þig að fá einhvern til að sjá um köttinn heima hjá þér, þar sem hann er öruggur, í stað þess að koma kettinum fyrir annars staðar?

„Umhverfisauðgun“ er hugtak sem dýralæknar nota til að lýsa aðferðum til að gera heimilið þitt að betri vistarveru fyrir köttinn þinn. Köttum getur leiðst, sem getur einnig leitt til hegðunarvandamála. Veiðar eru köttum eðlislægar, svo þú skalt hvetja þá til að leika hvenær sem þú getur.

Önnur hugmynd til að draga úr streitu kattarins er að setja upp fleiri kattakassa eða matarsvæði. Slíkt minnkar samkeppni ef margir kettir er á heimilinu. Margir kettir njóta sín best þegar þeir geta ferðast lóðrétt um rýmið og þeim gæti líkað að fá kattatré þar sem þeir geta fylgst með heimilislífinu úr öruggri fjarlægð. Vatnsbrunnar gætu dregið úr leiðindum og orðið hvatning fyrir köttinn til að drekka meira.

Aðrar leiðir standa til boða til að draga úr streitu kattarins ef ofangreindar tillögur virka ekki fyrir hann. Kattaferómón (efnafræðileg efni sem eru losuð í umhverfið og hafa áhrif á hegðun dýra) eru fáanleg í skömmturum og spreyjum og hjálpa þau til við að draga úr streitu. Margar dýralæknastofur nota slík efni til að róa kettina sem þangað koma.

Lyfseðilsskyld lyf eru annar möguleiki sem dýralæknirinn þinn gæti mælt með. Og ef þú átt í vandræðum með að gefa kettinum þínum munntökulyf er lyfseðilsskylt fóður með næringarefnum sem draga úr streitu mjög auðvelt í notkun - þú setur það einfaldlega í matarskálina.

Heimsæktu dýralækninn þinn

Dýralæknirinn þinn er besta upplýsingaveitan hvað varðar streitu hjá kettinum þínum og mun hann geta ráðlagt þér hvernig þú getur auðveldað ferðina á dýralæknastöðina. Þegar þú hefur fengið streitugreiningu staðfesta geturðu rætt möguleikann á að fá lyfseðilsskylt fóður til að vinna gegn vandanum.

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Líkaðu við og deildu þessari síðu