Hvernig mataræði kattarins styður meltinguna

Nýta má alla þætti mataræðis kattarins til að styðja og hafa stjórn á meltingarnæmi hans, allt frá því að gefa honum rétta trefjablöndu yfir í hágæðaprótein.

Article

Adult cat sitting down indoors on a wooden floor eating from a red bowl.

Allir kettir geta þjáðst af meltingarvandamálum einhvern tíma á ævinni, en með ráðgjöf frá dýralækni getur þú valið viðeigandi mataræði til að hafa stjórn á hvers kyns meltingarnæmi auk þess að draga úr einkennum og óþægindum.

Hlutverk próteins í mataræði kattarins

Prótein er byggingarefni líkama kattarins og nýtist fyrir allt frá húð og hári til klóa og mótefna. Amínósýrum úr próteini er hægt að breyta í glúkósa, sem er nauðsynlegur til að heili, nýru og rauð blóðkorn kattarins virki með réttum hætti auk þess sem glúkósinn veitir orku.

Því miður getur prótein einnig verið ein helsta orsök meltingarvandamála hjá köttum ef þeir geta ekki melt það auðveldlega eða ef þeir eru með ofnæmi eða óþol fyrir próteininu. Mjög meltanleg prótein geta hjálpað til við að draga úr einkennunum vegna þess að þau krefjast minni „vinnu“ af meltingarfærunum við upptöku næringarefnanna. Mataræði fyrir ketti með fæðuofnæmi eða óþol nýtir staka próteingjafa, t.d. vatnsrofið prótein eða sjaldgæfari prótein, til að draga úr líkum á óþægindum í þörmum.

Fita í mataræði kattarins

Fita er góður orkugjafi fyrir köttinn, en með henni fær kötturinn meira en tvisvar sinnum meiri orku heldur en hann fengi með sömu þyngd af próteini eða kolvetni. Nauðsynlegar fitusýrur eru einnig mikilvægar fyrir heilbrigða virkni ákveðinna líffæra eins og t.d. húðar. Einnig getur fita í mataræði verið hjálpleg við að gefa köttum sem þjást af þyngdartapi aukið kaloríumagn.

Hins vegar getur of mikið af fitu leitt til meltingarerfiðleika. Dýralæknirinn þinn mun geta ráðlagt þér um ákjósanlegt magn af fitu út frá ástandi, aldri og lífsstíl kattarins. Þannig getur þú veitt honum þann næringarlega ávinning sem fæst af fitunni en forðast jafnframt óþarfa álag á meltingarkerfið.

Kettir og kolvetni

Kettir þurfa ekki kolvetni á sama hátt og fólk, en það er góður glúkósagjafi og getur veitt orku í mataræðinu. Ákveðinn misskilningur hefur verið ríkjandi um að kettir geti þjáðst af glútenóþoli eða glúteinofnæmi, rétt eins og fólk. Þetta hefur hins vegar aldrei verið staðfest. Kettir með meltingarfæravandamál geta notið góðs af mjög meltanlegum kolvetnisgjöfum eins og t.d. hrísgrjónum.

Adult cat standing indoors eating from a silver bowl.

Notkun trefja í mataræði kattarins

Rétt blanda af trefjum í mat kattarins getur skipt miklu máli hvað varðar heilbrigði meltingarvegsins. Trefjaríkt mataræði getur hjálpað til við að koma í veg myndun hárkúlna - sem er sérstakt vandamál hjá inniköttum - auk þess að ýta undir náttúrulegar þarmahreyfingar. Leysanlegar trefjar geta haft jákvæð áhrif á meltingarflæðið og einnig haldið stjórn á örflórunni sem lifir í meltingarkerfi kattarins.

Vítamín, steinefni og önnur næringarefni í mat kattarins

Kötturinn þinn þarf flókna blöndu steinefna og vítamína í snefilmagni til að stuðla að skilvirkri virkni líkamans. Sérhvert vítamín og steinefni gegnir nokkrum mismunandi hlutverkum. Sem dæmi virkar E-vítamín sem öflugt andoxunarefni auk þess að næra húðina.

Bætibakteríuörvandi efni og góðgerlar geta einnig verið gagnlegir við að stýra meltingarnæmi kattarins. Bætibakteríuörvandi efni eru ómeltanlegt burðarlag eða „grunnur“ sem gagnlegar bakteríur í meltingarvegi geta nærst og vaxið á, en góðgerlar eru lifandi lífverur sem hafa jákvæð áhrif á örflóruna í meltingarkerfi kattarins. Þetta tvennt nýtist til að koma jafnvægi aftur á bakteríurnar sem eru í meltingarvegi kattarins og styðja þannig við áframhaldandi heilsu hans.

Ráðfærðu þig við dýralækni ef þú telur að kötturinn þinn eigi við meltingarerfiðleika að stríða. Hann getur ráðlagt þér hvað sé best að gera og mun vísa þér á rétt fóður í góðu jafnvægi sem getur stuðlað að bættri heilsu kattarins.

Maine Coon adult standing in black and white on a white background

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Líkaðu við og deildu þessari síðu