Það er mikilvægt að velja réttan hvolp til að fá á heimilið og undirbúa börn fyrir komu hans til að tryggja að bæði þau og hvolpurinn séu hamingjusöm og örugg.
Uppfræðsla barnanna þinna
Að fá hvolp er ákaflega spennandi tími fyrir börn, en mikilvægt er að útskýra að gæludýrið sé ekki leikfang og að þau þurfi að fara varlega með nýja félagann sinn. Það getur verið yfirþyrmandi fyrir ungan hvolp að kynnast nýju fólki og neikvæð upplifun mun hafa varanleg áhrif. Félagsmótunar- og óttatímabilið byrjar frá fjögurra vikna aldri og stendur allt fram á 14 vikna aldur og öll áföll sem eiga sér stað á þessum tíma geta haft varanlegar afleiðingar. Þess vegna er mikilvægt að þetta sé gert í rólegu og afslöppuðu umhverfi þar sem börn eru hvött til að halda ró sinni.
Til að auðvelda ferlið getur þú:
- Beðið börn að sitja á gólfinu og bíða þar til hvolpurinn kemur sjálfur til þeirra.
- Kennt börnum hvernig á að halda á nýja gæludýrinu með því að styðja varlega við líkama þess þegar þau taka það upp. Besta leiðin er að renna opinni hönd undir magann og styðja við afturendann með hinni hendinni.
- Þegar börn knúsa hvolpinn skaltu tryggja að þau haldi ekki of fast.
Að tryggja öryggi hvolpsins og barnanna
Ýmislegt er hægt að gera til að auka öryggi bæði hvolpsins og barnanna á meðan þau vaxa og dafna saman. Með því að minna börn á að þau hafa hlutverki að gegna hvað varðar þroska hvolpsins og öryggi hans munu þau finna til ábyrgðar gagnvart honum.
Til að koma í veg fyrir bit og klór skaltu kenna barninu þínu að:
- Trufla ekki hvolpinn þegar hann sefur eða borðar.
- Horfa ekki beint í augu hvolpsins.
- Halda honum ekki of fast í fanginu.
- Gefa honum ekki neinn mat af matarborðinu.
Börn yngri en 10 ára ættu ekki að vera skilin ein eftir með hvolpinum og því ætti einhver fullorðinn ávallt að vera til staðar þegar börn og hvolpar leika sér saman.
Hundategundir sem henta með börnum
Það þarf að huga að mörgum þáttum þegar hundategund er valin, meðal annars lífsháttum fjölskyldunnar. Ákveðnar hundategundir eru þekktar fyrir tiltekna eiginleika og hegðun, til dæmis hvort þeim líkar almennt vel að vera með börnum. Þetta er einn þátturinn sem taka þarf tillit til. Hvert dýr hefur sitt geðslag og hér eru almennar upplýsingar en ekki tæmandi lýsing.
Hundategundum má skipta í litlar, miðlungs stórar, stórar og mjög stórar. Þótt hundur sé lítill þýðir það ekki að það sé auðveldara að annast hann. Gott er að huga að almennu geðslagi hundategundarinnar, stærðinni og hversu atorkumikill hundurinn er. Ef börn á heimilinu eru með hundaofnæmi, hentar best tegund sem ekki framkallar ofnæmisviðbrögð.
Í hópi vinsælustu fjölskylduhundanna eru:
Golden Retriever: Sjálfsöruggir, greindir, vinalegir, trygglyndir og þolinmóðir hundar. Retriever-hundar hafa gaman af því að leika við börn en þeir þurfa mikla hreyfingu og útivistarsvæði.
Labrador Retriever: Þeir eru þekktir fyrir ljúft lunderni og hafa lengi verið með vinsælustu hundategundunum. Þeir þurfa mikla hreyfingu svo þeir fitni ekki of mikið.
Bulldog: Bulldog er trygglyndur og rólegur félagi og fjölskylduhundur sem hentar þeim sem eru ekki að leita að mjög atorkumiklum hundi.
Beagle: Þessi tegund nærist á félagsskap. Beagle-hundar eru þekktir fyrir vingjarnlegt og ljúft eðli.
Havanese: Einstaklega elskulegir hundar. Havanese-hundar eru leikglaðir og jafnlyndir smáhundar sem eru þekktir fyrir að vera sérlega ljúfir í samskiptum við börn.
Poodle: Ofnæmisfrí hundategund. Poodle-hundar geta ýmist verið litlir eða stórir og þeir eru bráðgreindir. Þeir eru alla jafna hlýðnir og þýðir í viðmóti en þeir þarfnast mikillar feldhirðu.
Það getur verið mjög gefandi að hafa hund í fjölskyldunni og hann getur verið frábær félagsskapur fyrir börnin. Það þarf að kenna börnum frá upphafi hverjar þarfir nýja gæludýrsins eru og hvaða ábyrgð felst í því að eiga hund. Ef þessu er fylgt eru mestar líkur á að hundahaldið verði í senn ánægjulegt og hættulaust.