Hundurinn þinn: Got í heimahúsi og fyrstu 48 klukkutímarnir

20.9.2018
Lestu um hvernig þú getur undirbúið aðstöðu fyrir tíkina þína svo hún geti gotið heima í þægilegu og öruggu umhverfi. Einnig hvernig þú getur undirbúið hvolpana sem best undir lífið.
Adult Jack Russell lying down in a dog bed with her newborn puppies.

Ef tíkin þín er hvolpafull viltu kannski frekar að hún gjóti heima en hjá dýralækninum. Áður en stóri dagurinn rennur upp þarftu að huga að nokkrum atriðum til að tryggja að tíkinni og hvolpunum líði eins vel og kostur er.

Þótt tíkin þín gjóti heima er mikilvægt að þú hafir símanúmer vakthafandi dýralæknis ef eitthvað bjátar á í gotinu. Dýralæknar búa yfir ómetanlegri reynslu og geta hjálpað þér að sjá til þess að hvolparnir komist heilu og höldnu í heiminn.

Þú þarft að setja upp aðstöðu heima hjá þér þar sem tíkin getur gotið. Það er mikilvægt að setja þessa aðstöðu upp með réttum hætti svo tíkinni líði vel og hún finni ekki fyrir streitu. Með því móti fá hvolparnir besta upphaf sem hægt er að hugsa sér. Hér eru nokkur atriði sem er gott að hafa í huga.

Gotkassi tíkarinnar

Kassinn þarf að vera úr vatnsþéttu efni sem auðvelt er að þrífa. Hann þarf að vera nægilega stór fyrir tíkina og hvolpana hennar. Settu efni í botninn sem einangrar gólfkulda og sem auðvelt er að skipta út og þvo: Handklæði og dagblöð eru mjög hentug. Ef tíkin vegur meira en 15 kíló skaltu setja stangir meðfram hliðum kassans að innanverðu. Stangirnar eiga að vera í 10-15 cm hæð frá gólfi, þær varna því að tíkin leggist ofan á hvolpana þegar hún leggst niður.

Lykilatriði varðandi got í heimahúsi: Hiti, raki og loftræsting

Nýgotnir hvolpar geta ekki haldið á sér hita og þeir geta ofþornað. Það skiptir því höfuðmáli að í herberginu þar sem tíkin gýtur, sé rétt hita- og rakastig. Hægt er að setja vatn í skálar eða nota rakatæki til að auka rakastigið sem á að vera 65-70%. Hægt er að hækka hitastigið í herberginu með því að hækka í ofnum eða setja hitalampa fyrir ofan gotkassann.

Hitastig fyrstu fjóra dagana eftir að hvolpar koma í heiminn á að vera milli 29,5 og 32°C. Eftir það má lækka hitann smám saman þannig að hann sé 26,7°C þegar hvolparnir eru sjö til tíu daga. Síðan er hitinn aftur lækkaður í 22,2 °C þegar hvolparnir eru orðnir fjögurra vikna gamlir. Gotkassinn á að vera í vel loftræstu herbergi en þar má hvorki vera dragsúgur né þungt loft.

Gættu vel að hreinlæti

Gotkassinn og svæðið í kringum hann þarf að vera tandurhreint. Æskilegt er að fáir séu á ferli í kringum gotkassann og að reglulega sé sótthreinsað og þrifið. Gættu líka að eigin hreinlæti áður en þú ferð að gotkassanum. Áður en þú sýnir tíkinni hvar hún á að gjóta, skaltu baða hana eða bursta feldinn til að ná í burtu sem mestu af óhreinindum og bakteríum.

Að sýna tíkinni hvar hún á að gjóta

Það skiptir miklu máli að tíkinni líði vel þar sem hún gýtur og annast hvolpana sína fyrstu vikurnar eftir að þeir koma í heiminn. Skynsamlegt er að sýna henni gotkassann einni til tveimur vikum fyrir áætlað got. Til að forðast smit, er ekki æskilegt að önnur gæludýr á heimilinu komi að gotkassanum. Jafnframt skiptir máli að tíkinni finnist kassinn og umhverfið í kringum hann þægilegt og öruggt.

Newborn puppy lying down asleep on a blanket.

Eftir heimafæðingu hundsins þíns

Hvolpar eru ákaflega viðkvæmir fyrstu þrjár vikurnar. Einkum og sér í lagi fyrstu 48 klukkustundirnar en þær geta gert útslagið um það hvort hvolparnir þroskast áfram eðlilega. Súrefnisskortur og sýking eru helstu áhættuþættirnir í goti. Til að lágmarka hættuna, er mikilvægt að fylgja ráðunum hér að framan um undirbúning á svæðinu þar sem tíkin gýtur.

Eftir gotið eru nokkrar leiðir til að veita hvolpunum besta undirbúning sem hugsast getur.

Reyndu að fá hvolpana til að sjúga móður sína eins fljótt og auðið er eftir fæðingu. Hvolparnir fá þá mjólkurbrodd sem tíkin framleiðir en hann styrkir og eflir ónæmiskerfi hvolpanna. Hvolparnir þurfa að fá mjólkurbroddinn á fyrstu 12 til 16 klukkutímunum svo það borgar sig að hvetja þá til að fara strax á spena.

Mælt er með því að vigta hvolpana reglulega til að fylgjast með því hvernig þeir dafna. Ef hvolpar þyngjast ekki eða byrja að léttast, ætti dýralæknir að skoða þá eins fljótt og auðið er. Þú skalt jafnframt meta hvort einhverjir hvolpanna séu sérstaklega léttir við fæðingu svo hægt sé að fylgjast með þeim og styðja sérstaklega.

Ef nýgotinn hvolpur er of léttur, missir hann fljótt líkamshita og orku enda eru efnaskiptin hröð auk þess sem aðrir þættir hafa áhrif þar á. Þegar hvolpar koma í heiminn vega þeir ekki nema eitt til þrjú prósent af þyngd tíkarinnar. Lág fæðingarþyngd miðast við neðra fjórðungsmark viðkomandi hundategundar.

Ef vel er að verki staðið, getur tíkin verið slök í gotinu inni á heimilinu. Þitt hlutverk er að undirbúa heimilið vandlega og annast hvolpana vel þessa fyrstu þýðingarmiklu daga í lífi þeirra.

Efst á síðu

Sérsniðin næring fyrir hvolpinn þinn

Mikið úrval er til af fóðri sem styrkir varnarkerfi og heilbrigðan vöxt ásamt því að þroska meltingarkerfið.

Content Block With Text And Image 1