Bólusetningar hvolpa: Inflúensubróðir í hundum

3.10.2018
Inflúensubróðir er veira sem veldur hótelhósta. Hún er bráðsmitandi og fjölgar sér yfirleitt mest þar sem margir hundar eru í návígi.
Young dog sitting on an examination table in a vets office.

Hvað er inflúensubróðir í hundum?

Inflúensubróðir í hundum er veira sem leggst á öndunarfærin. Þetta er ein af mörgum veirum sem getur valdið hótelhósta í hundum. Hún er bráðsmitandi og fjölgar sér yfirleitt mest þar sem margir hundar eru í návígi.

Hver eru einkenni inflúensubróður í hundum?

Ef hvolpurinn þinn er með inflúensubróður er hann líklega með eftirfarandi einkenni:

  • Þurran hósta sem kemur í kviðum
  • Háan hita
  • Nefrennsli
  • Hnerra
  • Þrútin augu
  • Depurð, sinnuleysi og lystarleysi

Hvað veldur inflúensubróður?

Veiran nær sér yfirleitt á strik þar sem stór hópur hunda kemur saman og er í návígi í talsverðan tíma. Dæmi um slíka staði eru ræktendabú, hundahótel, hundaathvörf, gæludýraverslanir, hundagæsluheimili og hundasýningar.

Sjúkdómurinn berst með beinum hætti, snertingu við sýktan hund, með fóður- og vatnsskálum og hundabælum. Hann getur einnig smitast með lofti þegar sýktur hundur hnerrar eða hóstar.

Get ég látið bólusetja hvolpinn minn við inflúensubróður?

Bóluefni verja hvolpinn gegn smitandi og stundum banvænum sjúkdómum. Þess vegna er mikilvægt að hvolpurinn þinn fái allar nauðsynlegar bólusetningar á réttum aldri.

Skylt er að bólusetja við ákveðnum sjúkdómum en aðrar bólusetningar eru valkvæðar. Það fer eftir áhættunni á að hvolpurinn þinn smitist hvort mælt er með því að hann fái bólusetningu gegn inflúensubróður. Ekki er skylt að bólusetja gegn inflúensubróður.

Hvernig veit ég hvort hvolpurinn minn þarf þessa bólusetningu?

Dýralæknirinn ráðleggur þér þær bólusetningar sem henta hvolpinum þínum. Það sem ræður úrslitum er áhættan sem fylgir lífsháttum og umhverfi hvolpsins.

Ræddu við dýralækninn þinn og segðu honum hvar hvolpurinn þinn kemur til með að dvelja. Ef það eru til dæmis líkur á að hvolpurinn verði í dagvist eða á hundahóteli, mælir dýralæknirinn með bólusetningu gegn inflúensubróður.

Kemur bóluefnið í veg fyrir að hundurinn minn geti nokkurn tímann smitast af inflúensubróður?

Veirur geta stökkbreyst. Sumar veirur breytast mjög mikið, aðrar lítið og enn aðrar nánast ekkert.

Inflúensubróðir er þekktur fyrir stökkbreytingar og þess vegna borgar sig að bólusetja hundinn árlega til að tryggja honum vernd gegn afbrigðum veirunnar.

Talaðu við dýralækninn sem skipuleggur bólusetningar hvolpsins þíns í samræmi við þarfir hans en þær geta meðal annars farið eftir því hvar hann býr og hverjir lifnaðarhættir hans eru.

Eru aðrar leiðir til að verja hvolpinn minn gegn inflúensubróður?

Þegar þú skoðar hundahótel skaltu kanna hvort gerð er krafa um að allir hundar séu bólusettir gegn inflúensubróður eða hótelhósta. Þú sérð það þegar þú fyllir út umsókn um vist fyrir hvolpinn þinn.

Meðal þess sem er yfirleitt spurt um á hundahótelum og í dagvist er hvaða bólusetningar hundurinn hefur fengið. Mestar líkur eru á því að farið verði fram á að hvolpurinn þinn sé bólusettur áður en hann fær leyfi til að dvelja þar.

Það ætti að varna því að veiran komist inn á viðkomandi hótel eða dagvist eða breiðist út í grenndinni.

Þú getur líka spurst fyrir um hvaða forvarnir eru gerðar ef hundar veikjast, til dæmis hvort þeir eru hafðir í einangrun og hvernig verkferlar eru í tengslum við þrif og sótthreinsun. Ef allir þessir þættir eru í lagi ætti hvolpurinn þinn að vera óhultur fyrir inflúensubróður.

Hvað á ég að gera ef mér finnst hundinum mínum líða illa?

Ef þú heldur að hvolpurinn þinn sé sýktur af inflúensubróður skaltu fara með hann strax til dýralæknis. Hann gerir ýmsar mælingar til að kanna hvort hvolpurinn þinn er sýktur og ef svo er, segir hann þér hvað best er að gera í stöðunni.

Þegar hundar eru í miklu návígi er aukin hætta á að veiran fjölgi sér. Það er mikilvægt að þú segir dýralækninum hvar hundurinn þinn mun dvelja því þá getur hann gert bólusetningaáætlun í samræmi við það.

Efst á síðu

Sérsniðin næring fyrir hvolpinn þinn

Mikið úrval er til af fóðri sem styrkir varnarkerfi og heilbrigðan vöxt ásamt því að þroska meltingarkerfið.

Content Block With Text And Image 1