Byrja þarf snemma að kenna góða hegðun og hlýðni. Þjálfun hunds þarf að hefjast eins snemma og mögulegt er, vegna þess að þegar hvolpurinn er ungur er námsgeta hans í hámarki. Hundurinn þinn ætti að skilja grunnreglur lífsins, jafnvel þegar hann er ennþá einungis hvolpur, til að hjálpa honum að þroskast í sjálfsöruggan og skapgóðan fullorðinn hund og koma í veg fyrir taugaveiklun sem gæti leitt til skaðlegrar hegðunar.
Að húsvenja hvolpinn þinn
Hvolpurinn þinn verður líklega ekki orðinn húsvanur þegar þú kemur með hann heim og því geta orðið slys fyrstu vikurnar. Oft henda slysin hjá hvolpi á heimilinu vegna þess að hann fær of fljótt of mikið frelsi og er ekki viss um hvar sé rétti staðurinn til að pissa.
Til að forðast þetta getur þú gripið til ákveðinna aðgerða:
- Gakktu úr skugga um að hvolpurinn þinn hafi aðeins aðgang að einu eða tveimur herbergjum í húsinu, þar sem fjölskyldan eyðir mestum tíma
- Settu hvolpinn í kassann sinn þegar þú getur ekki fylgst með honum. Hvolpar eru síður líklegir til að óhreinka svefnsvæðið sitt vegna þess að þeir líta á það sem örugga svæðið sitt og vilja halda því hreinu
- Fóðraðu hvolpinn á ákveðnum reglulegum tímum. Þannig geturðu betur fylgst með hvolpinum, því líklegra er að það þurfi að hleypa honum út fljótlega eftir að hann hefur borðað
- Það er mikilvægt að styrkja æskilega hegðun, svo þú skalt hrósa hvolpinum fyrir að pissa úti.
- Til að þú getir hrósað honum samstundis er góð hugmynd að fara út með hvolpinum
- Aldrei refsa eða skamma hvolp sem hefur lent í „slysi“. Þess í stað skaltu finna leiðir til að koma í veg fyrir að hvolpurinn þurfi nokkurn tímann að pissa innandyra.
- Ekki bíða eftir að hvolpurinn gefi merki um að hann vilji fara út. Flestir hvolpar læra ekki að láta vita að þeir þurfi að pissa fyrr en þeir læra að halda í sér þegar þeir eru inni. Farðu með hann út með reglulegum hætti
Farðu oft með hann út, eftir hvern málsverð og lúr, áður en hann fer að sofa og um leið og þú vaknar á morgnana, svo hann venjist þessari rútínu. Til að byrja með skaltu alltaf fara með hann á sama staðinn svo hann þekki sína eigin lykt.
Ef þú tekur eftir að hvolpurinn sé að snúast í kringum sig og þefa af gólfinu innandyra er það merki um að hann þurfi að létta á sér. Ef slys verður hjá hvolpinum skaltu ekki skamma hann, heldur sótthreinsa blettinn til að fjarlægja lyktina hans. Ekki þvo blettinn þegar hann er viðstaddur í herberginu og ekki nota bleikiefni þar sem bæði geta vakið athygli hvolpsins.
Hlýðniþjálfun hvolpa
Hundar eru hópdýr sem þurfa aga. Þeir þurfa einn ákveðinn leiðbeinanda frá upphafi. Ekki öskra þegar þú kallar á hvolpinn þinn. Hundar greina mjög vel blæbrigði og ólíkan tón í röddinni; stuttur og skarpur tónn á við þegar hann fær fyrirskipun, ánægjutónn þegar honum er fagnað og alvarlegur tónn þegar hann er skammaður. Notaðu alltaf sama orðið fyrir sömu skipunina.
Að kenna hvolpinum að setjast
Notaðu fóður sem verðlaun. Haltu nammibita fyrir ofan trýni hvolpsins og færðu bitann varlega upp á við og aftur á bak, yfir höfuð hvolpsins. Þegar hvolpurinn fylgir nammibitanum með höfðinu sest hann niður. Segðu „sestu“ meðan hann er að setjast.
Um leið og hann sest niður skaltu segja „fínt, sestu“ og gefa honum verðlaun. Þetta þarf að endurtaka oft og mörgum sinnum til að hvolpurinn læri að tengja verðlaunin við athöfnina að setjast. Byrjaðu að þjálfa hann þrisvar sinnum á dag í fimm mínútur í senn. Síðan getur þú lengt tímann smám saman þegar hvolpurinn eldist.
Að kenna hvolpinum að leggjast
Þegar hvolpurinn er búinn að læra að setjast getur þú byrjað að kenna honum skipun um að leggjast. Byrjaðu á að láta hann setjast og hvettu hann síðan til að leggjast niður með því að halda á nammibita og láta hann síga niður milli þófanna. Dragðu nammibitann síðan í átt frá hundinum og segðu „leggstu“. Þegar hann leggst niður skaltu svo gefa honum verðlaunin ásamt miklu hrósi.
Að velja matarverðlaun fyrir þjálfun hvolpsins
Veldu eitthvað sem er hvorki stórt né hitaeiningaríkt en eitthvað sem hvolpinum finnst gott. Þú getur notað fóðurkúlur sem þú dregur þá frá dagsskammtinum eða næringarríkt góðgæti sem er ætlað fyrir þjálfun. Mundu að telja hitaeiningarnar með í heildar fóðurskammti dagsins.
Ef þig langar að þjálfa hundinn meira, getur þú farið á þar til gert námskeið fyrir hvolpa og eigendur þeirra. Hlýðni er undirstaða alls sem þú gerir með hvolpinum þínum. Þú getur styrkt æfingarnar á námskeiði eða í þar til gerðum félagsskap.