Á hverju stigi líkamlegs þroska hvolpsins mun fóðrið sem hann borðar hafa áhrif á hversu sterkur, heilbrigður og hamingjusamur hann verður sem fullorðinn hundur. Það getur virkað flókið að átta sig nákvæmlega á hvar, hvenær og hvernig eigi að fóðra hvolpinn þinn, en hér eru nokkur einföld ráð sem hjálpa þér að gefa honum sem best veganesti inn í framtíðina.
Hversu oft ætti ég að fóðra hvolpinn minn?
Hundar eru almennt með viðkvæmt meltingarkerfi sem bregst ekki vel við að fá of mikið af mat, eða alveg nýja tegund af mat. Þegar þú fóðrar hvolpinn þinn er betra að skipta matarskammti dagsins niður í smærri og tíðari máltíðir til að forðast allt álag á meltinguna. Hér eru einfaldar leiðbeiningar:
- Afvenslun (allar stærðir): fjórar máltíðir á dag
- Allt að fjögurra mánaða aldri (lítil kyn) eða allt að sex mánaða aldri (stór kyn): þrjár máltíðir á dag
- Fjögurra til tíu mánaða aldur (lítil kyn) eða sex til tólf mánaða aldur (stór kyn): tvær máltíðir á dag
Hversu mikið ætti ég að gefa hvolpinum?
Magnið sem þú gefur hvolpinum í hverjum matartíma er mismunandi eftir hundakyni og stærðarflokki þess: örlítill, lítill, meðalstór, stór eða risastór. Notaðu leiðbeiningar framleiðandans um hvolpafóðrið til að ákvarða magnið, en ef þú ert ekki alveg viss um magnið skaltu fá ráðleggingar frá dýralækni.
Ekki hafa of miklar áhyggjur ef hvolpurinn borðar ekki allan matinn sem þú gefur á diskinn á matmálstímum. Það er eðlilegt að matarlystin sé breytileg og ef hann fær mat reglulega mun hann geta fengið nægju sína næst.
Vegna þess að hvolpar ganga í gegnum hröð vaxtarskeið þurfa þeir orkuþéttara fóður en fullorðnir hundar. Hvolpar vita hins vegar ekki hvernig á að hemja fæðuinntöku, svo það er nauðsynlegt að þú stjórnir skömmtunum vandlega til að koma í veg fyrir þyngdaraukningu. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir stór hundakyn, vegna þess að offóðrun getur leitt til að vöxturinn verði of hraður og þeir lendi í stoðkerfisvandamálum.
Hver er besta leiðin til að fóðra hvolpinn minn?
Besta leiðin til að fóðra hvolpinn þinn er að koma upp rútínu og halda þér við hana. Gefðu honum á sama tíma, á sama stað og með sömu skál, svo hann skilji nákvæmlega hvenær og hvar matmálstímar eru. Hvolpar þurfa ekki sömu fjölbreytni í mataræði og fólk, svo þú skalt halda þig við sama matinn í hvert skipti.
Þegar þú skiptir yfir í annan mat - til dæmis þegar hann þroskast úr því að vera hvolpur í fullorðinn hund - skaltu gera það yfir rúma viku eða svo með því að blanda saman nýja og gamla matnum og auka smám saman hlutfall nýja fæðisins.
Þegar þú hefur sett skál hvolpsins niður þefar hann af matnum og rekur nefið í hann til að kanna hitastigið. Þegar hann er byrjaður að borða skaltu fylgjast með honum til að tryggja öryggi hans, en ekki atast í honum á meðan vegna þess að það getur valdið árásargjarnri verndarhegðun.
Láttu skálina vera í 15 til 20 mínútur og fjarlægðu hana svo, jafnvel þótt enn sé einhver matur óétinn. Það mun hjálpa honum að læra að hann verður að borða þegar þú ákveður það. Þú ættir einnig að fóðra hvolpinn þinn eftir að þú hefur borðað eða alfarið á öðrum tíma til að sýna valdastiga heimilisins. Tryggðu að alltaf sé nóg vatn í boði og skiptu því út reglulega.
Ef þú gefur hvolpinum þínum matarafganga getur það orsakað slæma hegðun vegna þess að það ruglar rútínunni. Eins skaltu forðast að gefa honum of oft mat sem verðlaun (til dæmis eftir að hann lærir ákveðna færni) og ekki nota nammi til að hvetja hann til að borða „aðal“ matinn sinn - það er of ruglingslegt fyrir hvolpinn og gæti leitt til að hann borði ekki.