Af hverju er hundurinn minn alltaf að klóra sér?

3.10.2018
Ef hundurinn þinn klórar sér meira en venjulega gæti sökudólgurinn verið ein af þessum algengu ástæðum.
Puppy Jack Russell sitting outdoors scratching itself

Hundurinn þinn er duglegur að sjá um sjálfan sig og það felst meðal annars í að klóra sér öðru hvoru til að losna við skordýr og aðra ertingarvalda. En ef þú hefur tekið eftir að hundurinn klóri sér í sífellu nokkra daga í röð, eða sérð að húð hans sé þrútin, gæti það þýtt að eitthvað sé ekki með felldu.

Klór af völdum skordýra eða flóa á hundinum

Ein algengasta orsök stöðugs kláða er að sníkjudýr hafi komið sér fyrir á hundinum. Þetta geta verið flær, lýs og önnur skordýr eða mítlar, en allt þetta getur valdið ertingu hjá hundinum. Flóameðferð ætti að vera reglulegur hluti af umönnun hundsins til að draga úr hættu á smiti. Hvað varðar rykmaura og önnur ytri sníkjudýr sem finnast á heimilum getur þú minnkað líkurnar á að húð hundsins verði fyrir ónotum af þeirra völdum með því að ryksuga reglulega og láta hundinn nota dýnu eða rúm sem er með mítlavörn.

Hins vegar gæti hundinn þinn klæjað af öðrum og flóknari ástæðum: ofnæmi.

Hundurinn þinn og ofnæmi

Sumir hundar hafa af erfðafræðilegum orsökum tilhneigingu til ofnæmisviðbragða í húðinni, og kallast það „ofnæmishúðbólga“. Hún hefur áhrif á verulegan hluta hundastofnsins í sumum löndum, og ákveðnum kynjum – t.d. French Bulldog, German Shepherd og Labrador Retriever – er hættara við henni en öðrum.

Ofnæmishúðbólga myndast vegna þess að ónæmiskerfi hundsins bregst of skart við venjulegum umhverfisþáttum eða einhverju í mataræðinu. Þessi viðbrögð valda svo óþægindum sem leiða til þess að hundurinn klórar sér kröftuglega. Þessi hegðun getur svo leitt til frekari vandamála vegna þess að húðin rifnar eða særist og það gerir hundinn viðkvæmari fyrir öðrum sýkingum.

Adult German Shepherd standing outdoors.

Fyrir hverju hafa hundar ofnæmi?

Hundar geta fengið ofnæmi fyrir ýmsu. Það geta verið þættir úr umhverfinu eins og fjaðrir, mygla eða maurar, einnig árstíðabundnir ofnæmisvaldar eins og gras eða frjókorn. Ennfremur geta þeir fengið fæðuofnæmi og meðal mögulegra ofnæmisvalda eru ákveðnar mjólkurafurðir, nautakjöt, kjúklingakjöt, egg, soja og sumar korntegundir. Ef ofnæmisvaki kallaði fram næmi hjá hundinum þínum þegar hann var ungur, fær hann ofnæmiseinkenni upp frá því ef hann kemst í snertingu við ofnæmisvakann. Ef þú greinir ofnæmiseinkennin snemma eru auknar líkur á að þú getir veitt hundinum þínum bestu mögulegu meðferð. Þó ber að hafa í huga að ofnæmi er ólæknandi.

Hvernig er hundurinn minn ofnæmisprófaður?

Það er mikilvægt að fara með hundinn til dýralæknis ef þig grunar að hann hafi ofnæmi. Dýralæknirinn fær skýrari mynd af stöðunni þegar hann hefur spurt þig út í einkennin. Í framhaldi af því framkvæmir hann ofnæmispróf til að kanna hverjir ofnæmisvaldarnir eru. Ofnæmispróf eru bæði gerð með húðskrapi og blóðrannsókn. Ef dýralækninn grunar að um sé að ræða fæðuofnæmi biður hann þig að taka ákveðna þætti smám saman úr fóðrinu í átta til tólf vikur.

Hundurinn fær þá ný hráefni. Síðan er ákveðnum þáttum úr gamla fóðrinu smám saman bætt aftur saman við og fylgst með viðbrögðunum. Með þessu móti getur dýralæknirinn ákvarðað hverjir ofnæmisvaldarnir eru.

Umhirða húðarinnar

Til eru nokkrar einfaldar leiðir til að draga úr ofnæmisviðbrögðum húðarinnar og tryggja heilbrigði hennar eins og kostur er. Hægt er að baða hundinn með sérstöku sjampói sem hreinsar feldinn og róar húðina þannig að hundinum líður strax betur. Einnig eru til sjúkrakrem og gel sem hægt er að bera á húðina.

Þú getur gefið hundinum þínum fóður með næringarefnum sem vitað er að hafa góð áhrif á húðina. Þar á meðal eru omega 3 og omega 6 fitusýrur sem viðhalda húðþekjunni heilbrigðri, andoxunarefni og aloe vera sem er talið létta á sumum húðvandamálum.

Það er mikilvægt að tala við dýralækni ef hundurinn þinn hefur verið að klóra sér mikið í nokkra daga. Þú getur líka, hvenær sem er, fengið ráðleggingar hjá dýralækninum varðandi umhirðu húðarinnar.

Efst á síðu

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsu hundsins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Leita í nágrenni við mig
Jack Russel Terrier adult standing in black and white on a white background