Húð hundsins er stærsta líffæri líkamans og gegnir mikilvægu hlutverki við að vernda hann gegn ytri ógnum. Mataræði hundsins hefur mikil áhrif á hvort húð hans sé heilbrigð og virki á réttan hátt.
Húð og feldur hundsins þíns
Húð og feldur hundsins eru að meðaltali 12% af líkamsþyngd hans og eru mikilvæg líffæri þegar kemur að því að tryggja viðvarandi heilbrigði og þroska. Húðin er gerð úr þremur mismunandi lögum og gegnir hvert þeirra sínu hlutverki:
- Efsta lagið, húðþekjan, nýtist sem hindrun fyrir utanaðkomandi ertingarvalda
- Miðlagið, leðurhúðin, veitir húðinni teygjanleika og viðnám
- Neðsta lagið, undirhúðin, er rík af fitufrumum og veitir einangrun
Húð hundsins veitir nauðsynlega vörn gegn umhverfisþáttum og ytri sníkjudýrum sem geta valdið gæludýrinu þínu óþægindum. Húðin verndar einnig gegn vatnstapi, stjórnar líkamshita og hýsir hárið á feldinum. Því þarf að sjá vel um húð hundsins til að hjálpa honum að halda heilsunni sem bestri.
Hvaða húðvandamál geta komið upp í hundum?
Eitt af því sem getur gerst er að örveruþekjan sem liggur á húð hundsins þíns, eyðist. Þekja þessi er mynduð úr húðfitu sem ver hundinn gegn utanaðkomandi óværu. Þegar þessi örveruþekja er heilbrigð kemur hún í veg fyrir offjölgun „slæmra“ baktería og þar með húðvandamál.
Sumar hundategundir glíma við tiltekin húðvandamál sem nauðsynlegt er að huga sérstaklega að. Hundar með húðfellingar eins og Pug og Bulldog eru útsettari en aðrir hundar fyrir húðvandamálum, þar sem bakteríur eiga auðveldara uppdráttar í húð þeirra. Smáhundarnir sem státa af miklum feldi geta haft sérstaklega viðkvæma húð. Þeir geta orðið fyrir hárlosi, feldhárin geta slitnað og litur þeirra dofnað. Þetta á til dæmis við um Miniature Schnauzer og Shih Tzu.
Áhrif mataræðis á húð hundsins
Rétt mataræði getur bætt heilbrigði húðarinnar og þá þarf rétt blanda af næringarefnum að vera í fóðrinu.
Hundurinn þinn þarf prótein til að byggja upp heilbrigða húð og heilbrigðan feld. Þessi prótein þurfa helst að vera mjög auðmeltanleg og þar af leiðandi úr góðu hráefni. Þá á hundurinn auðveldara með að melta fæðuna og nýta próteinin. Fjölómettaðar fitusýrur hafa einnig góð áhrif á húð og feld. Ef hæfilegt magn af omega 3 og omega 6 er í fóðri hundsins, getur það dregið úr kláða og ertingu í húðinni.
Einnig er hægt að draga úr líkum á áhrifum umhverfisþátta á húð hundsins. A, B og D vítamín hafa góð áhrif á húðfrumurnar og sink sömuleiðis. Kopar nýtist einnig til að skerpa hárlitinn.
Hundar geta verið með óþol eða jafnvel ofnæmi fyrir ákveðnum fæðutegundum og það getur valdið húðvandamálum.
Ef þú hefur áhyggjur af húð hundsins þíns skaltu tala við dýralækni. Hann getur veitt þér upplýsingar um óþol og ofnæmi ásamt því að ráðleggja þér heppilegt fóður.