Húðvandamál eru algengari hjá hundum af ákveðnum tegundum en einnig getur aldur hundsins haft áhrif sem og fjölskyldusaga hans. Nokkrar einfaldar leiðir eru til að flýta fyrir bata og koma í veg fyrir slík vandamál í framtíðinni.
Hvað skiptir máli varðandi húð hundsins þíns?
Húð hunda virkar eins og vegatálmi milli umhverfisins og líffæra hundsins, vöðva og beinagrindar. Húðin er stærsta líffærið og vegur um 12% af heildarþyngd hundsins ef feldhárin eru talin með. Hún er lífsnauðsynleg vörn gegn sníkjudýrum. Hún varðveitir fitu, vökva, vítamín og viðkvæma taugaenda.
Hún hindrar vökvatap og kemur þar af leiðandi í veg fyrir ofþornun auk þess sem hún viðheldur stöðugum líkamshita. Húðin gefur líka frá sér húðfitu sem myndar sýklaskán á yfirborði húðarinnar. Þessi sýklaskán virkar sem vörn gegn utanaðkomandi ógn því hún viðheldur jafnvægi milli „góðra“ og „slæmra“ baktería og kemur í veg fyrir offjölgun baktería. Sýklaskánin sér líka til þess að sýrustig húðarinnar helst rétt og hún kemur í veg fyrir óþægindi vegna breytinga í umhverfinu.
Húðin er mikilvæg sía milli hundsins og umhverfis hans og þess vegna þarf að hlúa vel að henni.
Hver eru einkenni ofnæmis hjá hundum?
Rétt eins og mannfólkið, geta hundar fengið þurra húð og rauða bletti á afmörkuðum svæðum ásamt því að finna fyrir kláða. Feldurinn kann að virðast þurr eða feitur og hundurinn gæti fengið hárlos eða flösu. Líklegt er að fyrstu einkennin sem þú sérð séu þau að hundurinn klórar sér meira en venjulega þegar hann reynir að létta á óþægindunum.
Misjafnt er eftir hundategundum hvort og þá hvaða húðvandamál eru algeng. Hundar eins og Bulldog og Pug geta orðið fyrir óþægindum ef bakteríur og sveppir ná fótfestu í húðfellingum þeirra. Miðlungsstórir hundar sem verja miklum tíma utandyra við vinnu, verða fyrir miklum umhverfisáhrifum. Huga þarf sérstaklega að náttúrulegum vörnum húðarinnar hjá þeim. German Shepherd, Dalmatíu-hundar, Miniature Schnauzer og Shih Tzu eru allt tegundir með viðkvæma húð. Það borgar sig þess vegna að spyrja dýralækninn hvort þú þurfir að gera sérstakar ráðstafanir þess vegna.
Af hverju fá hundar húðsjúkdóma?
Í sumum tilvikum stafa húðvandamál í hundum af utanaðkomandi þáttum. Hundar sem eru mikið úti og komast í snertingu við meindýr og sníkjudýr geta fengið bólgur í húðina. Hreinlæti skiptir vissulega máli en ef þú notar sjampó eða hreinsiefni sem þurrka upp fitulagið á húðinni, getur það valdið húðvandamálum.
Næringarfræðilegt ójafnvægi í mataræðinu getur stuðlað að því að húðsjúkdómar myndist hjá hundum. Nokkrar tegundir eru til af aukaverkunum af völdum matar og er ofnæmi algengast þeirra. Það getur leitt til einkenna eins og að hundurinn klóri sér, húðin roðni og bólgur geti myndast. Næmi hundsins þíns að viðbættu mataræði hans getur svo valdið ertingu á húð.
Til að viðhalda húð hundsins heilbrigðri þarf hann að fá flókna blöndu af næringarefnum, þar á meðal langkeðju fitusýrur eins og finnast í omega 3 og omega 6. Snefilsteinefni eins og sink og kopar eru mikilvæg fyrir heildarvirkni frumna og til að viðhalda gæðum feldsins. Mestu máli skiptir svo að hundurinn fái hágæða, auðmeltanleg prótein. Húð og feldur hundsins taka til sín stóran hluta af daglegri próteinneyslu, svo mikilvægt er að hann fái rétta tegund og magn af próteini.
Þú getur eflt heilbrigði hárs og húðar og gripið til fyrirbyggjandi aðgerða gegn mörgum algengum húðsjúkdómum með því að velja viðeigandi fóður og vera meðvituð/aður um utanaðkomandi þætti sem gætu orðið á vegi hundsins. Ef þú ert ekki viss um hvað skuli gera skaltu biðja dýralækninn um frekari ráð.