Umönnun hundsins í köldu veðri

2.10.2018
Það er skynsamlegt að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir svo hundurinn fari hraustur og óhultur í gegnum veturinn. Byrjaðu á að fara með hundinn til dýralæknis til að ganga úr skugga um að hann sé fullkomlega hraustur.
Adult Bernese Mountain Dog standing outdoors on a snow footpath.

Áður en kaldur vetur gengur formlega í garð er skynsamlegt að gera ráðstafanir svo uppáhalds hundurinn þinn fari hraustur og óhultur í gegnum veturinn. Byrjaðu á að fara með hundinn til dýralæknis til að ganga úr skugga um að hann sé fullkomlega hraustur.

Þótt ótrúlegt megi virðast, er rétt feldhirða líka mikilvægur þáttur í því að halda góðri heilsu yfir vetrarmánuðina. Þungur og þæfður feldur ver húð hundsins ekki nægilega vel gegn miklum kulda. Ef hundurinn þinn er mikið úti, skaltu skoða eyru og þófa reglulega til að kanna hvort þú sérð vísbendingar um kal. Það er mikilvægt að klippa hárin undir þófum yfir vetrartímann til að snjór safnist síður fyrir milli tánna.

Hreyfing utandyra þegar kalt er í veðri

Þótt við mannfólkið kunnum best við okkur uppi í sófa eða undir sæng á veturna, þarf hundurinn þinn að fá hreyfingu. Annars er hætt við að hann þyngist, verði taugatrekktur, daufur eða leiður. Einkum er hætt við að hvolpar temji sér ósiði eins og væl eða látlaust gelt. Þeir geta einnig farið að grafa, naga og bíta hvað sem fyrir verður eða leika of harkalega ef þeir fá ekki hreyfingu og útrás fyrir orkuna sem í þeim býr.

Þú getur ærslast með honum í garðinum í stað þess að fara í hefðbundnar gönguferðir. Þótt þú gerir ekki annað en að ganga aðra leið en venjulega, örvar það skilningarvit hundsins þíns að sjá nýja staði og finna nýja lykt. Þú getur fundið upp á nýjum leikjum í garðinum. Þú getur til dæmis gert þrautabraut eða leikið við hundinn með nýjum leikföngum. Það sem mestu máli skiptir er að hundurinn fái líka hreyfingu yfir köldustu mánuðina.

Puppy Hygenhunds standing on a snowy front doorstep.

Fóður í samræmi við hreyfingu og líkamsbyggingu

Meginreglan er sú að hvolpar og ungir hundar brenna fleiri hitaeiningum en fullorðnir hundar og þurfa þess vegna orkumeira fóður. Veldu fóður með hágæða próteinum og fitu í samræmi við orkuþörf hvolpsins þíns. Eldri hundar og þeir sem hreyfa sig lítið þurfa að fá orkuminna fóður sem er sérstaklega hannað fyrir þá.

Litlir hundar þurfa orkumeira fóður en þeir stóru. Ekki gleyma því að hundar hafa sérþarfir varðandi fóður í samræmi við heilsufar, aldur og hreyfingu.

Þegar kalt er í veðri, innbyrða hundar meira af hitaeiningum, rétt eins og mannfólkið. Þetta á við um hunda af öllum stærðum og þess vegna er mikilvægt að viðhalda hreyfingu og æfingum yfir vetrartímann.

Óþægindi vegna veðurfars

„Kuldaboli bítur eyrun, býsna er nú kalt,“ segir í skemmtilegri barnavísu en raunin er sú að kuldi getur haft verri áhrif á hundinn þinn en þig.

Sumir hundar hafa þykkan feld sem heldur á þeim hita þegar kalt er í veðri en hlý peysa eða vesti getur hentað sumum snögghærðum tegundum, smáhundum, hvolpum og öldruðum hundum. Veldu hlífðarflík úr vatnsheldu efni sem passar vel á hundinn en er þó nægilega víð til að heitt loft geti leikið milli hundsins og flíkurinnar.

Fylgstu vel með einkennum sem benda til þess að hundurinn finni til óþæginda vegna kuldans. Ef hundurinn skelfur, hniprar sig saman, lyftir fótum ótt og títt upp eða reynir stöðugt að komast aftur inn, líður honum áreiðanlega illa í kuldanum. Ágæt þumalfingursregla er að ef það er of kalt fyrir þig, er líklega líka of kalt fyrir gæludýrið þitt.

Efst á síðu