Fyrsta skrefið til átta þig á að hundinum þínum líði illa eða hann þjáist af þvagfæravandamálum er að þekkja einkennin. Engir tveir hundar eru eins, en ef þú tekur eftir einhverjum af þessum algengu einkennum hjá hundinum þínum er nauðsynlegt að þú látir dýralækni skoða hann.
Einkenni og orsakir þvagfærasýkingar hjá hundum
Rétt tæp 20% allra þvagfæravandamála sem dýralæknar takast á við eru greind sem þvagfærasteinar, þ.e. myndun „steina“ í þvagblöðru eða þvagfærum. Þessir steinar verða til við uppsöfnun mismunandi steinefna í þvagi hundsins. Ef samþjöppun steinefnanna verður of mikil á líkaminn í erfiðleikum með að losna við þau og þau byrja að kristallast.
Ef hundurinn þinn er með steina gæti hann átt erfitt með að pissa eða fundist þvaglát sársaukafull vegna þess að steinninn stíflar þvagfærin. Ákveðnum hundum er hættara við að fá þvagfærasteina en öðrum, svo sem smærri hundakynjum. Þau eru með minna magn þvags og pissa sjaldnar, sem þýðir að samþjöppun efna verður meiri. Einnig eru þvagfærasteinar algengari hjá eldri hundum og karlkyns hundum.
Meðferðir fyrir hunda með þvagfærasteina
Ef vandamálið er talið nægilega alvarlegt gæti dýralæknirinn ákveðið að fjarlægja steininn með skurðaðgerð til að koma í veg fyrir frekari óþægindi hjá hundinum. Hins vegar eru breytingar á mataræði og lífsstíl algeng aðferð til að leysa upp steina og koma í veg fyrir frekari steinamyndun.
Mataræði með miklu vökvainnihaldi – svo sem með blautfæði – hjálpar til við að þynna þvag hundsins og koma í veg fyrir uppsöfnun steinefna. Þú ættir jafnframt að hvetja hundinn til að drekka mikið vatn og láta hann pissa oft. Sérhæft mataræði getur einnig hjálpað til við að breyta sýrustigi þvagsins hjá hundinum og koma í veg fyrir að ákveðnar tegundir steina myndist.
Einkenni, orsakir og meðferðir við þvagfærasýkingum hjá hundum
Sýking í neðri þvagfærum er algengt þvagfæravandamál, einkum meðal tíka. Sýking verður yfirleitt þegar baktería úr óhreinindum eða líkamsvessa kemst óvart inn í þvagrásina. Sýkingin gæti líka verið einkenni bæklaðs ónæmiskerfis. Sýking í neðri þvagfærum getur líka stafað af langvinnum sjúkdómi eins og nýrnasjúkdómi, sjúkdómi í þvagblöðru eða sykursýki.
Ef hundurinn þinn er með sýkingu í neðri þvagfærum, reynir hann ítrekað að kasta af sér vatni en oft með litlum eða engum árangri. Þvagið gæti verið skýjað eða blóðugt og það gæti dropað frá hundinum. Hann gæti líka sleikt þvagfæraopið til að létta á ertingu. Sé ástandið alvarlegt gæti hundurinn fengið hita.
Dýralæknirinn gerir ítarlega rannsókn til að komast að orsök þvagfærasýkingarinnar. Ef um er að ræða sýkingu felst meðferðin í sýklalyfjagjöf. Þú skalt hvetja hundinn til að drekka mikið vatn svo hann pissi oftar.
Einkenni, orsakir og meðferðir við þvagblöðruvandamálum hjá hundinum þínum
Sjúkdómar í þvagblöðru eru algengir meðal hunda og tengjast oft sýkingu í neðri þvagfærum og þvagfærasteinum. Þvagblaðran geymir þvagið og vöðvar umhverfis hana gefa hundinum merki þegar tímabært er að hann pissi. Fyrirstaða eins og þvagfærasteinar eða ofvöxtur geta komið í veg fyrir að þessi merki berist. Erting eða sársauki geta hins vegar fylgt sýkingu.
Eitt af einkennum þvagblöðrusjúkdóms getur verið að erfitt er fyrir hundinn að kasta þvagi, hann reynir ítrekað og lítið eða ekkert kemur frá honum. Kviður hundsins kann að vera þaninn og því fylgja verkir. Í alvarlegum tilfellum getur hundurinn misst matarlyst eða kastað upp.
Dýralæknirinn gæti sett upp þvaglegg til að létta á þvagblöðrunni meðan hann rannsakar orsök vandamálsins. Ef þvagflæði stöðvast alfarið getur það dregið hundinn til dauða enda getur hann þá ekki losað sig við úrgangsefni. Í slíkum tilvikum kann dýralæknirinn að mæla með skurðaðgerð. Hann gæti jafnframt mælt með lyfjagjöf og breytingum á fóðri til að draga úr líkum á vandamálum tengdum þvagblöðrunni í framtíðinni.
Það er afar mikilvægt að hundurinn geti losað sig við úrgangsefni og þess vegna skiptir öllu máli að hafa samband við dýralækni ef þú sérð einhver þeirra einkenna sem greint er frá hér. Dýralæknirinn finnur út orsökina og veitir dýrinu þínu bestu mögulegu meðferð.