​10 eitruð matvæli sem þú ættir ekki að gefa hundinum þínum

3.10.2018
Hér eru tíu matvæli, allt frá avókadóhýði til makadamíuhneta, sem þú ættir að forðast að gefa hundinum þínum vegna þess að þau geta valdið alvarlegum heilsufarslegum vandamálum.

Margir hundaeigendur vita vel að súkkulaði getur valdið hundum alvarlegum vandamálum. Hins vegar getur fjöldi algengra matvæla til viðbótar sem líklegt er að þú eigir heima hjá þér valdið gæludýrinu alvarlegum vandamálum. Til viðbótar við þetta gæti ýmiss konar annar heimilismatur verið óhollur fyrir hundinn svo þú skalt hafa samband við dýralækninn þinn áður en þú gefur hundinum eitthvað í viðbót við hefðbundið fóður.

Sætuefni

Xylitol er sætuefni sem finnst í tyggjói, sykurlausu hnetusmjöri, tannkremi og öðrum afurðum og er unnið úr harðviðartrjám. Of mikil neysla á xylitol getur valdið uppþembu, vindgangi og niðurgangi hjá mönnum - en fyrir hunda er xylitol eitrað. Mikilvægt er að halda vörum sem innihalda xylitol fjarri hundinum svo ekki sé hætta á hann borði þær, jafnvel þótt það sé óvart.

Áfengi

Nýru mannfólks geta unnið úr áfengi með skilvirkum hætti, en það geta nýru í hundum ekki og því getur áfengi valdið þeim læknisfræðilegum vandamálum. Ferskt, hreint vatn er alltaf best fyrir hundinn þinn.

Avókadó

Það er ekki avókadókjötið sem getur valdið hundinum skaða, heldur steinninn, hýðið og laufin. Þau innihalda efni sem kallast persín, sem veldur uppköstum og niðurgangi.

Koffín

Þótt koffín sé ekki eitrað fyrir hunda hefur það sömu áhrif á þá og menn – og vegna þess að þeir eru næmari fyrir þessum áhrifum geta þau orðið mjög óþægileg fyrir þá. Ef hundurinn þinn fær jafnvel lítið magni af koffíni getur hann orðið ofvirkur eða farið að skjálfa.

Súkkulaði

Það er vel þekkt að súkkulaði er mjög eitrað fyrir hunda. Þetta er vegna þess að það inniheldur þeóbrómín, örvandi efni sem truflar efnaskiptaferli hunda. Dökkt súkkulaði og súkkulaði til baksturs inniheldur sérstaklega mikið þeóbrómín, sem gerir það enn hættulegra fyrir hunda. Ef hundur innbyrðir súkkulaði getur það leitt til magakveisu, hjartavandamála, flogs eða jafnvel dauða - mismunandi eftir því hversu mikið hann borðar.

Steiktur og feitur matur

Steiktur og feitur matur er jafn óhollur fyrir hunda og fyrir mannfólkið. Fituríkur matur getur valdið magaóþægindum hjá hundinum þínum og í sumum tilvikum leitt til briskirtilsbólgu. Auk þess getur regluleg neysla á slíkum mat leitt til offitu og tengdra heilsufarsvandamála.

Hvítlaukur og laukur

Margir nota lauk og hvítlauk reglulega í matargerð en hvort tveggja er eitrað fyrir hunda. Hvort sem hundur borðar hráan eða eldaðan lauk og/eða hvítlauk, getur það valdið því að rauðum blóðkornum fækkar og það getur valdið blóðleysi.

Vínber og rúsínur

Þessir ávextir sem eru heilsusamlegir fyrir fólk eru eitur fyrir hunda. Vínber og rúsínur hafa veruleg áhrif á heilsu hundsins og geta leitt til bráðrar og skyndilegrar nýrnabilunar.

Hnetur

Þótt hnetur virðist vera heilsusamlegar, skaltu forðast að gefa hundinum þínum þær. Þær geta auðveldlega staðið í hundinum og þar sem þær eru fituríkar geta þær valdið magakveisu. Sér í lagi hefur sýnt sig að makadamíuhnetur séu mjög eitraðar fyrir hunda - þótt þær leiði jafnan ekki til dauða geta þær valdið því að hundurinn geti ekki gengið, kasti upp, verði sinnulaus og fái skjálfta.

Mjólk, rjómi og ostur

Þegar hundar fullorðnast, missa þeir eiginleikann til að melta mjólkurvörur enda hafa þeir ekki þau ensím sem til þarf. Þeir geta þess vegna sýnt merki um mjólkursykuróþol ef þeir neyta mjólkur, osts eða rjóma. Einkennin geta verið uppköst, niðurgangur eða magaverkir.

Ef þig grunar að hundurinn hafi borðað eitthvað sem honum getur orðið meint af, er mikilvægt að fá ráðleggingar strax frá dýralækni. Öruggast er að geyma matvæli sem eru hundinum skaðleg einhvers staðar þar sem hann kemst ekki í þau.

Efst á síðu

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsu hundsins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Leita í nágrenni við mig