Það eru nokkur atriði sem þú ættir að hafa í huga áður en þú velur þér kött. Eitt af því sem þú ættir að velta fyrir þér er hvort þú ættir að fá þér hreinræktaðan kött eða ekki og hver munurinn er á persónuleika þeirra og þörfum.
Hegðun katta fer annars vegar eftir erfðafræðilegu upplagi og hins vegar reynslu á mikilvægasta mótunartímanum. Sá tími er stuttur hjá köttum og honum lýkur við átta vikna aldur. Kettlingar mótast vissulega lengur af umhverfi sínu. Hegðun þeirra breytist í samræmi við lífsreynslu sem þeir öðlast til sex mánaða aldurs.
Ættbókafærðir kettir
Hreinræktaðir kettir eru aðeins litill hluti af öllum köttunum sem eru til. Þegar talað er um ættbókarfærðan kött er átt við að fyrir liggja staðfest gögn um ætterni og forfeður kattarins. Kötturinn er skráður í ættbók af tilteknu kattakyni hjá viðurkenndu kattaræktarfélagi. Í því felst ákveðin fullvissa fyrir því að kötturinn hafi ákveðna eiginleika, bæði hvað varðar útlit og atgervi.
Ættir þú að fá þér hreinræktaðan kött eða ekki?
Við þessari spurningu er hvorki til rétt né rangt svar því allt er þetta spurning um persónulegan smekk. Sumir vilja taka að sér kött úr athvarfi og láta þannig gott af sér leiða.
Stundum eru hreinræktaðir kettir í athvörfum en það er þó fremur sjaldgæft.
Fyrir kemur að ræktendur leiti að heimili fyrir eldri ræktunarketti sem ekki eru lengur í ræktun. Þó er algengara að ræktendur láti gera þá ófrjóa og hafi þá áfram hjá sér.
Mestar líkur eru á að staðurinn þar sem þú færð köttinn ráðist af því hvort þú ákveður að fá þér hreinræktaðan kött eða venjulegan heimiliskött. Hreinræktaðir kettir eru vanalega keyptir hjá ræktendum meðan venjulega heimilisketti má fá víðar. Algengast er að fólk fái sér kött hjá ættingjum eða vinum sem eiga læðu sem óvart eignaðist kettlinga.
Til hvers að fá sér hreinræktaðan kött?
Kattakyn verða til vegna þess að valdir hafa verið kettir til ræktunar sem búa yfir tilteknum útlitseiginleikum: Síður feldur, sérstakt höfuðlag og eyru eða skott, svo dæmi séu nefnd. Við val á ræktunardýrum er einnig hugað að geðslagi og hegðun. Þess vegna er hvert kattakyn jafn auðþekkjanlegt og raun ber vitni. Það er miklu erfiðara að segja fyrir um geðslag kettlingsins úr athvarfinu en margir kattavinir segja raunar að það sé hluti af sjarmanum. Flestir sem hrífast af hreinræktuðum köttum heillast ekki aðeins af útlitinu heldur ekki síður af persónuleikanum.
Ragdoll eru til dæmis þekktir fyrir að vera rólegir kettir sem aðlagast auðveldlega nýju heimili. Norskir skógarkettir eru félagslyndir og þar af leiðandi frábærir í samskiptum við börn. Oriental-kettir eru mjög kröfuharðir á eigendur sína og mynda afar sterk tengsl við þá. Ef þú veist um helstu persónueinkenni og þarfir ólíkra kattakynja, verður auðveldara fyrir þig að velja þann kött sem hentar þér best.
Ragdoll, Maine Coon og Bengal-kettir njóta mikilla vinsælda nú um stundir. Mörg ný kattakyn hafa litið dagsins ljós á síðustu árum og má þar á meðal nefna Sphynx sem er hárlaus, Rex sem er hrokkinhærður og Manx sem er skottlaus.
Það er eðlilegt að þú veljir kattakyn með útlit sem höfðar til þín en þó er mikilvægara að geðslag og eðlislægir eiginleikar kattarins henti þér. Þú getur lesið meira um eiginleika og þarfir hvers kattakyns hér á síðunni okkar eða farið á kattasýningu þar sem þú getur spjallað við ræktendur.
Af hverju að velja blandaðan kött?
Við upphaf ræktunar er eingöngu þeim einstöku köttum sem búa yfir nauðsynlegum líkamlegum einkennum og skapgerð haldið til undaneldis. Ef einungis fáir einstaklingar hafa þessi einkenni getur genamengið orðið mjög takmarkað.
Ef mjög fáir einstaklingar uppfylla skilyrðin getur ákveðin innræktun því miður orðið nauðsynleg til að tryggja þá eiginleika sem óskað er eftir. Þetta ferli getur aukið hættuna á að skapa erfðavandamál. Hins vegar eru erfðapróf að verða sífellt aðgengilegri, en þau má nota til að skima eftir mögulegum genavandamálum sem tengjast viðkomandi kyni og gera ræktendum kleift að forðast þau. Flest kattaræktarsambönd hvetja til ábyrgrar ræktunar þar sem góðum starfsvenjum er fylgt hvað varðar val og takmörkun á mikilli innræktun.
Sumir ræktendur ýta undir ákveðin formfræðileg sérkenni með öfgakenndum hætti, til að búa til það sem kallast „ofurtegund“ (e. hypertype). Sem dæmi má nefna Siamese- og Oriental-kynin sem fá sífellt ílengra höfuðlag og á móti þróast Persian- og Exotic-kynin með sífellt flatara trýni. Þessar ýkjur hvað lögun varðar hafa ákveðnar líffærafræðilegar og lífeðlisfræðilegar afleiðingar sem geta leitt til heilsufarslegra vandamála.
Hjá köttum sem ekki eru ættbókarfærðir og blönduðum köttum er genamengið mun stærra og líkurnar á að þróa arfgenga sjúkdóma eru umtalsvert minni.
Skiptir kyn máli þegar kemur að hreinræktuðum eða blönduðum tegundum?
Lykilspurningin er hvort áberandi munur sé á hegðun og eðli eftir því hvort um fress eða læðu sé að ræða.
Kynjamunur er minna áberandi hjá hreinræktuðum köttum vegna þess að skapgerð er hluti af sérkennum ræktunarinnar. Það gerir þér kleift að velja tegund með tilliti til þess hvaða skapgerð hentar best þínum áherslum og lífsstíl.
Hvað varðar blandaða ketti, sem eru síður fyrirsjáanlegir hvað skapgerð varðar, er stundum sagt að fressin séu rólegri, umburðarlyndari og muni flakka lengra, en læðurnar haldi sig nær heimilinu. Á hinn bóginn er því einnig haldið fram að læður geti viljað vera meira ráðandi á heimilinu, sem gerir sambýli við önnur dýr stundum erfitt.
Að því sögðu þá hverfur venjulega ýmiss konar hegðunarmunur milli kynjanna, sem kemur fram á kynþroskaaldri, þegar þau eru vönuð. Þetta eru t.d. þvagmerkingar hjá fressum og breim hjá læðum.
Hvort sem þú velur blandaðan eða hreinræktaðan kött, þá er mikilvægt að muna að allir kettir eru einstaklingar og persónuleiki þeirra eða þarfir geta verið mismunandi. Talaðu við ræktandann eða starfsfólk kattaathvarfsins sem þekkir persónuleika hvers kattar og getur hjálpað þér að greina hver uppfylli kröfur þínar og henti best þínum lífsstíl.