Kettir kynntir fyrir öðrum gæludýrum

20.9.2018
Það er stórt skref fyrir kettling þegar hann er kynntur fyrir nýju fjölskyldunni og öðrum dýrum, þar á meðal köttum og hundum. Það skiptir sköpum varðandi heilbrigði hans og velferð í framtíðinni að vel sé staðið að þessu ferli.

Það getur verið snúið að kynna nýtt gæludýr fyrir þeim sem fyrir eru á heimilinu. Þó að dýrin sjái um að mynda eigin virðingarröð, máttu ekki leyfa þeim að ráðast hvert á annað. Gefðu þér góðan tíma og sýndu þolinmæði og umhyggju því á þessu stigi er grunnurinn lagður að sambúðinni í framtíðinni.

Það er mikilvægt skref fyrir kettlinginn að kynnast nýju umhverfi og nýjum fjölskyldumeðlimum og á þessum tímapunkti kemur í ljós hversu vel hann aðlagast breyttum aðstæðum. Þetta á að vera rólegur tími því sú umönnun og athygli sem kettlingurinn fær á þessum tíma hefur áhrif á þroska hans og velferð.

Það ætti alltaf að fylgjast með dýrum þegar þau eru að kynnast því annars getur komið upp ósætti milli þeirra, til dæmis deilur um yfirráðasvæði og ýmislegt annað sem þau deila. Þú skalt bóka tíma hjá dýralækninum áður en þú kynnir kettlinginn fyrir hinum dýrunum á heimilinu. Þannig getur þú gengið úr skugga um að kettlingurinn beri ekkert smitandi með sér inn á heimilið.

Þegar nýi kettlingurinn kemur á heimilið og er kynntur fyrir þeim dýrum sem fyrir eru, þarf bæði að huga að sértækum og almennum aðgerðum svo öll dýrin verði sátt.

  • Í byrjun skaltu ekki hafa nýja kettlinginn hjá hinum dýrunum heldur leyfa honum að kynnast nýju heimkynnunum smám saman.
  • Farðu með kettlinginn í eitt herbergi af öðru og leyfðu honum að vera einum svo hann geti smám saman kynnst heimilinu án þess að það verði yfirþyrmandi.
  • Veittu gæludýrunum sem eru fyrir á heimilinu áfram mikla athygli. Það er ekki síst mikilvægt fyrstu dagana að þau njóti góðs af því að hafa búið á heimilinu um tíma.
  • Hughreystu gæludýrin sem eru fyrir á heimilinu þegar þau eru á sínu yfirráðasvæði.
  • Hughreystu nýja köttinn þar sem hann er á eigin svæði (í rólegu herbergi).
  • Þurrkaðu kettlingnum varlega um trýnið með klút þannig að lyktin hans setjist í klútinn. Nuddaðu síðan neðri hluta veggjanna, þar sem hin dýrin eru, með klútnum þannig að þau venjist lyktinni af kettlingnum.

Að kynna kettlinginn fyrir hundum á heimilinu

Ef hundurinn þinn hefur þegar kynnst köttum og honum líkar vel við þá er þetta ferli einfaldara. Hundur sem þekkir ketti sættir sig auðveldlega við nýjan kött á heimilinu. Aðlögunin getur orðið erfiðari ef heimilishundurinn er orðinn gamall en hann ætti samt að geta lært að búa í sátt og samlyndi við köttinn. Kötturinn ætti að vera laus en hundurinn í taumi þegar þau hittast fyrst. Þau ættu smám saman að finna leið til að búa saman í sátt ef þú lætur þau hittast nokkrum sinnum undir eftirliti.

Þú getur auðveldað þetta ferli með því að:

  • Hafa hundinn í taumi og róa bæði hann og köttinn. (Verðlaunaðu þau fyrir að vera róleg).
  • Gæta þess að kötturinn króist ekki af úti í horni. Láttu þau hittast í herbergi þar sem þeim líður vel og þar sem eru felustaðir fyrir köttinn, helst svolítið hátt uppi.
  • Þvinga köttinn ekki til að eiga samskipti við hundinn heldur leyfa þeim að nálgast hvort annað þegar þau eru tilbúin til þess.

Að kynna kettlinginn fyrir köttum á heimilinu

Það getur verið flóknara að kynna hann fyrir ketti en hundi. Fullorðnir kettir eiga oft auðveldara með að sætta sig við kettling en annan fullorðinn kött. Þar sem kettir eru gjarnan einfarar, geta þeir orðið ósáttir við að fá annan fullorðinn kött inn á yfirráðasvæði sitt. Hann kann að sýna óánægju sína með ógnandi hegðun og það getur tekið nokkra daga eða jafnvel mánuði þar til hann sættir sig við þessar breyttu aðstæður.

Þú skalt láta kettina hittast reglulega undir eftirliti og þá endar með því að þeir sætta sig hvor við annan og hræðslan minnkar smám saman. Kettirnir gera með sér samkomulag um hvor „á“ hvaða yfirráðasvæði og þú þarft að virða það.

Mundu að það er ekki hægt að þvinga kött til að líka við annan kött en þú getur gert það sem í þínu valdi stendur til að þeir haldi friðinn.

Þegar nýr köttur er kynntur fyrir þeim eldri:

  • Farðu varlega að og sjáðu til þess að báðir kettirnir hafi nægilegt pláss til að fela sig hvor fyrir öðrum. Láttu þá hittast á hlutlausu svæði. Herbergið þarf að vera nægilega stórt til að hvor um sig geti verið í talsverðri fjarlægð frá hinum.
  • Báðir kettirnir þurfa að hafa flóttaleið.
  • Láttu þá hittast í stutta stund í byrjun og lengdu síðan tímann smám saman næstu daga.
  • Útbúðu aðskilda hvíldarstaði fyrir kettina og sjáðu þeim fyrir eigin matar- og vatnsskálum enda ólíklegt er að þeir vilji deila þeim.
  • Mælt er með því að hvor köttur hafi eigin kattakassa og auk þess sé annar kassi sem þeir geta valið að nota eða nota ekki.
  • Ef kettirnir fara ekkert út, er ráðlegt að tryggja þeim nægilega stórt svæði til að fela sig, leika sér í og rannsaka. Hvor köttur gæti til dæmis haft eigið klifurtré.
  • Vandamál skapast þegar annar kötturinn kemur í veg fyrir að hinn geti athafnað sig eðlilega. Gakktu úr skugga um að hvor köttur um sig geti til dæmis borðað, drukkið, sofið og notað kattakassann í friði og án þess að honum stafi ógn af hinum kettinum.

Þótt þú getir ekki þvingað kött til að kunna vel við annan kött, getur þú hvatt þá til góðrar hegðunar og til að virða hvorn annan þannig að sambúðin verði friðsæl.

Áður en nýi kettlingurinn kemur inn á heimilið og líka þegar sambúðin er komin í fast horf, er mikilvægt að gleyma ekki þörfum dýranna sem eru fyrir á heimilinu. Það þarf að gæta þess að álagið á þau verði sem minnst.

Efst á síðu

Lesa meira um kattakyn

Skoða öll kattakyn