Hvenær á að vana læðu?

20.9.2018
Margir eigendur kjósa að láta vana læðuna sína, en það er örugg og algeng aðgerð. Einfaldar leiðbeiningar okkar um vönun útskýra hvað það er, hvernig það virkar og hver áhrifin geta verið.

Það er mikilvæg ákvörðun að láta vana læðuna þína. Það getur haft jákvæð áhrif á heilsu hennar og velferð, en gæti einnig leitt til ýmissa mögulegra fylgikvilla og eftirkasta.

Hvað þýðir að taka úr sambandi?

Vönun kvendýra er ferlið við að gera læður ófrjóar. Hjá fressum er þetta kallað gelding, þótt stundum sé þetta hugtak notað um ófrjósemisaðgerðir bæði hjá fressum og læðum.

Hvernig virkar vönun kvendýra?

Dýralæknir eða annar hæfur fagaðili þarf að framkvæma vönunina, en við hana þarf læðan að fara í aðgerð. Vönunin kemur í veg fyrir að læðan framleiði egg sem fressið getur frjóvgað, auk þess sem með aðgerðinni hættir líkami hennar að gefa frá sér kynhormón sem laða að fress.

Hvenær get ég látið vana læðuna mína?

Hvort sem um fress eða læðu er að ræða er hægt að framkvæma ófrjósemisaðgerð í kringum kynþroskaaldurinn. Fyrir læður er það við sex til sjö mánaða aldur, þótt hægt sé að framkvæma aðgerðina á öruggan hátt frá þriggja mánaða aldri. Læður breima oftast fyrst við sex mánaða aldur og þú munt taka eftir hegðunarbreytingum á borð við aukið mjálm, að læðan nuddi sér við fótleggi eða húsgögn og fari í mökunarstellingu þegar bak hennar er snert.

Ætti ég að láta vana læðuna mína?

Þú ræður því hvort læðan þín verði vönuð eða hvort þú viljir að hún geti eignast kettlinga í framtíðinni. Ýmiss konar ávinningur er af því að vana læðuna, en sá mikilvægasti er að það getur lengt ævi hennar umtalsvert.

Vönun getur einnig:

  • Komið í veg fyrir slysagot
  • Minnkað líkurnar á að læðan þín sláist við aðra ketti
  • Dregið úr líkum á því að kynsjúkdómar dreifist
  • Takmarkað fjölda flækingskatta sem eru ein afleiðing slysagota
  • Dregið úr breimi, sem getur verið hávaðasamt og pirrandi fyrir eigendur

Hvaða áhrif hefur vönun á mataræði læðunnar minnar?

Um leið og læðan þín hefur verið vönuð byrjarðu að taka eftir breytingum á hegðun hennar - þar á meðal matarvenjum. Matarlyst hennar getur aukist um 20-25% en raunveruleg orkuþörf hennar minnkar um 30%. Það þýðir að það er mjög auðvelt fyrir læðuna þína að borða of mikið og safna aukaorkunni sem fitu.

Ef þú ákveður að vana læðuna þína á meðan hún er enn kettlingur mun hún engu að síður halda áfram að vaxa. Því þarf hún fæði sem styður við vöxtinn án þess að leiða til þess að hún þyngist óþarflega. Fóður sem hefur verið sérblandað fyrir vanaða kettlinga er því eitt það besta sem hægt er að fóðra hana með á þeim tímapunkti.

Hvaða fylgikvillar eru mögulegir eftir vönun?

Stærstu fylgikvillar vönunar tengjast mögulegri þyngdaraukningu læðunnar, sem aftur getur leitt til alvarlegra heilbrigðisvandamála. Bæði sykursýki og liðasjúkdómar eru tengd við offitu hjá köttum, auk þess sem kyrrsetu- eða innikettir geta lent í meltingarfæravandamálum vegna skorts á hreyfingu og miklum tíma sem þeir verja í að snyrta sig.

Ákvörðunin um að láta vana læðuna þína getur haft jákvæð áhrif á heilsu hennar og heimilislíf, en áhrifin eru langvarandi. Ef þú vilt frekari ráð skaltu tala við dýralækninn þinn sem getur hjálpað þér að taka réttu ákvörðunina.

Efst á síðu

Sérsniðin næring fyrir kettlinginn þinn

Næringarríkt fóður sem styrkir náttúrulegt varnarkerfi kettlingsins og stuðlar að heilbrigðum vexti og þroska meltingarfæranna.