Þjálfun virkar best þegar lotur eru tiltölulega stuttar en tíðar, ekkert annað truflar köttinn á meðan, umbunin sem kötturinn fær er honum mikils virði og hegðunin sem verið er að kenna honum er ekki tengd einhverri neikvæðri fyrri reynslu.
Hvernig kettir læra
Grunnuppeldi kettlingsins fer fram á tímabilinu frá fæðingu til 6 mánaða og byggir mest á ráðandi hlutverki móðurinnar og samskiptum við systin. Kettlingur byrjar á að herma eftir hegðun móður sinnar og lærir síðan sjálfur með því að prófa sig áfram. Þess vegna er framlag þitt til grundvallaruppeldis kettlingsins þíns takmarkað, en samt ber þér skylda til að ljúka félagsmótun hans þegar í nýtt umhverfi er komið.
Hlutverk móðurinnar fyrir köttinn
Mælt er með að bíða þar til kötturinn er að minnsta kosti tveggja mánaða gamall áður en hann er aðskilinn frá móður sinni og systkinum. Móðirin gegnir lykilhlutverki í uppeldi kettlinga sinna með því að kenna þeim hreinlæti og félagslegar venjur með fordæmi og leik, auk þess að næra þá, fylgjast með þeim, hugga og vernda.
Þitt hlutverk
Kettlingurinn verður líka fyrir áhrifum af umhverfinu sem þú sýnir honum. Kettlingur sem hefur kynnst ólíku fólki og öðrum dýrum frá frumbernsku verður veraldarvanur og forvitinn köttur.
Grunnatriði varðandi þjálfun kettlingsins
Í byrjun hermir kettlingurinn eftir mömmu sinni en síðan fer hann að þreifa sig áfram sjálfur. Hann lærir af reynslunni um orsök og afleiðingu og það er hluti af þroskaferlinu. Ef honum finnst afleiðingarnar jákvæðar, endurtekur hann það sem orsakaði þessar ánægjulegu afleiðingar.
Bitið og klórað
Kettlingurinn þarf að læra sem fyrst hvað má og hvað ekki, áður en tennur og klær þroskast að fullu. Þegar gotsystkini fara í gamnislag læra þau að meta hversu fast má bíta og klóra án þess að meiða.
Að nota kattakassann
Kettlingurinn ætti að kunna að nota kattakassann um fimm til sex vikna gamall. Kettlingar eyða gjarnan drjúgum tíma í að hylja þvag og hægðir í kassanum. Ef kettlingurinn gerir það ekki, skaltu fara oft með hann í kassann, ekki síst eftir að hann borðar. Haltu í framloppurnar á honum og láttu hann gera holu í sandinn svo hann venjist því að hylja það sem hann gerir í kassann. Þú ættir ekki að þurfa að gera þetta nema einu sinni eða tvisvar.
Það er ekki mjög auðvelt að þjálfa kettlinginn en þegar þú lærir á líkamstjáningu hans, til dæmis hljóð sem hann gefur frá sér og svipbrigði, lærir þú smám saman táknmál hans og átt þá auðveldara með að tryggja velferð hans.