Ráð varðandi hreinlæti og snyrtingu kettlingsins

3.10.2018
Kettlingurinn þinn þarf feldhirðu, klóklippingu og tannhirðu sem þú þarft að annast. Ef þú sinnir þessu af varfærni og þolinmæði, styrkist sambandið milli ykkar auk þess sem þú tryggir velferð gæludýrsins þíns.
Adult cat lying down on owners knee while being groomed with a red brush.

Kettir verja miklum hluta tímans sem þeir eru vakandi í að snyrta sig. Þú berð samt ábyrgð og hefur ákveðnu hlutverki að gegna þegar kemur að feldhirðu og hreinlæti kettlingsins þíns.

Umönnun kettlingsins kemur sér ekki aðeins til góða fyrir heilsu og velferð hans heldur styrkir hún samband ykkar líka.

Feldhirða kettlingsins

Ef þú burstar feld kettlingsins reglulega geturðu fylgst með því hvort sníkjudýr hafa hreiðrað um sig á húðinni eða í feldinum. Regluleg feldburstun kemur líka í veg fyrir að hár safnist fyrir innvortis og myndi þar kúlur.

Hvernig á að bursta feld á kettlingi?

  • Byrjaðu að bursta mjög varlega svo kötturinn venjist burstanum eða greiðunni.
  • Greiddu kettlingnum fyrst í sömu átt og hárin vaxa og síðan upp á móti þeim. þannig losnar um laus hár og smáhnúta.
  • Ef greiðan fer ekki í gegnum hnútinn, leystu hann þá varlega og af þolinmæði í stað þess að toga fast og slíta feldhárin.
  • Að snyrtingunni lokinni er sniðugt að leika við kettlinginn svo hann tengi feldhirðuna við eitthvað jákvætt og skemmtilegt.
  • Á vorin og sumrin er meira um hárlos og þá þarf að sinna feldinum meira. Notaðu nuddhanska úr gúmmíi og greiddu síðan. Þannig losna dauðu hárin frekar.

Að snyrta snögghærða ketti

Það nægir að bursta snögghærða ketti vikulega. Áður en þú burstar feldinn, getur þú nuddað feldhárin upp á við með feldhanska til að losa hár og styrkja húðina. Notaðu mjúkan bursta ef þú getur, með náttúrulegum silkimjúkum hárum til að skaða ekki feldinn.

Að greiða ketti með miðlungs síðan feld og persneska ketti

Með því að bursta feldinn daglega kemur þú í veg fyrir að hnútar myndist auk þess sem þú fjarlægir óhreinindi úr feldinum. Best er að nota grófa greiðu. Það þarf að fara varlega þegar feldurinn er greiddur því greiðan fer nær húðinni en burstinn og þá eykst hætta á að særa húðina. Gefðu þér góðan tíma til að velja góða greiðu og vandaðu valið.

Hvernig á að klippa klær á kettlingi?

Kettlingar nota klærnar til að merkja sér yfirráðasvæði. Best er að klippa klærnar svo kettlingurinn geti hegðað sér á eðlislægan hátt án þess að valda skemmdum, til dæmis á húsgögnum. Kettlingurinn finnur ekkert til þótt klærnar séu klipptar en hann getur hins vegar orðið órólegur. Byrjaðu nógu snemma að klippa klærnar á kettlingnum þínum svo hann venjist því frá unga aldri.

  • Spurðu dýralækninn - Áður en þú byrjar að klippa klær á kettlingnum þínum skaltu biðja dýralækninn að sýna þér hvaða hluta af klónum er óhætt að klippa án þess að það blæði og valdi sársauka.
  • Mikilvægt er að vel fari um ykkur, bæði þig og kettlinginn. Komdu þér vel fyrir á þægilegum stað og hafðu kettlinginn í kjöltunni þannig að þú haldir honum milli læranna. Inn á milli skaltu strjúka kettlingnum um kviðinn til að róa hann.
  • Sérstakar klóklippur eru notaðar til að klippa klær á gæludýrum, ekki naglaklippur eins og við notum. Klipptu hvíta hlutann á klónni og gættu þess að fara ekki of nálægt bleika þríhyrningnum, því þar er kvikan Ef þú klippir of nálægt kvikunni getur það valdið sársauka og blæðingu.
  • Gefðu þér góðan tíma til að klippa klærnar. Betra er að klippa nokkrum sinnum og lítið í einu en stóran hluta í einu lagi.

Klær á kettlingnum segja heilmikið um heilsufar hans. Klær sem eru of harðar eða of mjúkar eru hugsanlega merki um vannæringu eða bakteríusýkingu. Ef kettlingurinn þinn er annað hvort með of harðar eða of mjúkar klær, skaltu hafa samband við dýralækni.

Adult Maine Coon sitting in a bath being washed with a shower head.

Hvernig á að hreinsa snoppuna á kettlingi?

  • Að hreinsa augu kettlingsins þíns - Sumir kettir, til dæmis þeir sem hafa stutt trýni, framleiða tár sem geta litað feldhárin undir augunum. Þú getur hreinsað feldinn með grisju sem þú vætir í augnhreinsvökva. Hreinsaðu í áttina frá augnkróknum.
  • Að hreinsa nefbrodd kettlingsins þíns - Nefbroddurinn á heilbrigðum kettlingi ætti alltaf að vera rakur og hreinn. Sumir kettir hafa útferð úr ytri hluta nasanna. Það er auðvelt að hreinsa nefbroddinn með grisju eða pappírsþurrku sem vætt er með volgu vatni.
  • Að hreinsa eyru kettlingsins þíns - Þú ættir að skoða eyru kettlingsins reglulega. Ef þau eru óhrein, skaltu setja svolítinn eyrnahreinsi í eyrun og nudda svo ytra eyrað.

Ef þú sérð útferð úr eyrunum, skaltu ræða við dýralækni sem ráðleggur þér viðeigandi meðferð.

Munn- og tannhirða kettlingsins þíns

Barnatennurnar koma í ljós þegar kettlingur er tveggja til sex vikna. Þú þarft að huga að munn- og tannhirðu því annars getur kötturinn misst tennur, gómurinn getur bólgnað og kötturinn orðið andfúll.

  • Að bursta tennur kettlingsins þíns - Mælt er með því að nota tannbursta og tannkrem sem er sérstaklega ætlað köttum. Það borgar sig að byrja að bursta tennur kettlingsins sem fyrst. Með því að bursta tennur hans reglulega og af þrautseigju, venst hann því fljótlega.
  • Komið í veg fyrir tannsteinsmyndun - Veldu þurrfóður sem vinnur gegn tannsteini. Það hefur sérstaka áferð og inniheldur efni sem binda kalkið í munnvatninu svo tannsteinn myndast hægar.

Ef þú hefur einhverjar áhyggjur af tannheilsu kettlingsins þíns, skaltu tala við dýralækninn sem getu ráðlagt þér eða hreinsað tennurnar með sérstöku hljóðbylgjutæki.

Hvernig á að baða kettling?

Mjög fáir kettir eru hrifnir af vatni en bað er nauðsynlegur hluti af umhirðu katta með miðlungssíðan og síðan feld. Það borgar sig þess vegna að venja kettlinginn við bað frá unga aldri.

Það er mikilvægt að nota kattasjampó sem er miðað við sýrustig húðar og felds kattarins. (Þú ættir aldrei að nota sjampó sem er ætlað fólki því það getur haft eitrunaráhrif á kettlinginn).

1. Vendu köttinn við vatnið. Sýndu nærgætni en staðfestu

2. Byrjaðu á því að bleyta hann með svampi Ef kettlingurinn bregst illa við, skaltu hætta og reyna aftur nokkrum dögum síðar þar til hann sættir sig við vatnið

3. Þvoðu feldinn varlega og einbeittu þér að óhreinum svæðum

4. Fylltu baðkarið með 36-37 gráðu heitu vatni og komdu kettlingnum varlega fyrir í baðkarinu

5. Hughreystu kettlinginn með því að tala rólega við hann og strjúka honum

6. Skolaðu sjampóið með því að hella vatni varlega yfir bak kattarins og gættu þess að vatn fari ekki í augu og eyru.

7. Vefðu kettlinginn í hreint og hlýtt handklæði. Þú getur fullþurrkað feldinn með hárblásara en gættu þess að blásturinn sé hvorki of heitur né of nálægt kettlingnum.

Snyrting kettlingsins er frábær leið til að styrkja tengslin milli ykkar á sama tíma og þú stuðlar að heilbrigði hans og velferð. Þú kynnist líka húð kattarins þíns, augum, eyrum, tönnum og feldi þannig að þú sérð þá fljótt ef eitthvað er að. Ef þú sérð skyndilegar breytingar eða eitthvað óeðlilegt skaltu hafa samband við dýralækni til að fá ráðleggingar eða meðferð.

Efst á síðu

Sérsniðin næring fyrir kettlinginn þinn

Næringarríkt fóður sem styrkir náttúrulegt varnarkerfi kettlingsins og stuðlar að heilbrigðum vexti og þroska meltingarfæranna.

Content Block With Text And Image 1