Hvað er smitandi lífhimnubólga í köttum?
Smitandi lífhimnubólga (FIP) er banvænn sjúkdómur sem kettlingar og fullorðnir kettir geta fengið. Sjúkdómurinn er mjög sjaldgæfur en honum veldur kórónaveira í köttum sem er talsvert algeng.
Hvað er kórónaveira í köttum?
Kórónaveira í köttum er veira sem smitast með sýktum saur.
Smitið getur borist milli katta þegar þeir snyrta hver annan eða ef þeir deila kattakassa og fóðurskálum. Veiran getur einnig smitast með áhöldum sem notuð eru til feldsnyrtingar.
Hvernig veldur kórónaveiran smitandi lífhimnubólgu í köttum?
Það eru einkum tvær gerðir af kórónaveirum sem kettir og kettlingar geta fengið:
- Kórónaveira í meltingarfærum
- Kórónaveira sem veldur smitandi lífhimnubólgu
Meltingarfæraveiran herjar fyrst og fremst á meltingarfærin. Hún fjölgar sér og getur valdið niðurgangi. Kettlingar eru gjarnari á að fá þessu veiru, einkum ef þeir búa í návígi við aðra ketti.
Kórónaveiran sem veldur smitandi lífhimnubólgu er talin vera stökkbreytt afbrigði af kórónaveirunni í meltingarfærum. Vísindamenn vita ekki hvernig hin tiltölulega meinlausa meltingarfæraveira hefur stökkbreyst þannig að hún veldur banvænum sjúkdómi eins og smitandi lífhimnubólgu.
Hvað gerist þegar köttur fær smitandi lífhimnubólgu?
Kettir með smitandi lífhimnubólgu geta sýnt tvenns konar sjúkdómsmyndir:
- Vökvasöfnun í brjóstholi og kviðarholi. Þessi einkenni eru nefnd „vökvaform smitandi lífhimnubólgu“.
- Hnúðar myndast í líffærum kattarins (bólguhnúðar) og eru þessi einkenni kölluð „þurrform smitandi lífhimnubólgu“.
Hver eru einkenni smitandi lífhimnubólgu?
Köttur eða kettlingur með smitandi lífhimnubólgu sýnir ýmis einkenni og þeirra á meðal eru:
- Hiti
- Uppköst
- Lystarleysi
- Niðurgangi
- Krampar eða flog
Getur dýralæknir rannsakað hvort kötturinn minn er með smitandi lífhimnubólgu?
Nú á tímum búa dýralæknar yfir tækni sem gerir þeim kleift að greina kórónaveiru. Þessi greining sker þó ekki úr um hvort kötturinn er með afbrigðið sem ræðst á meltingarfærin eða afbrigðið sem veldur smitandi lífhimnubólgu.
Það má því segja að ekki sé til nein bein leið til að rannsaka hvort köttur er með smitandi lífhimnubólgu.
Hvenær gerir dýralæknir rannsókn á því hvort köttur er með kórónaveiru?
Dýralæknir gerir rannsókn ef sjúkdómseinkenni kattarins benda til þess að hann geti verið með veiruna.
Dýralæknar túlka niðurstöðurnar varlega og skoða fleiri þætti eins og híbýli kattarins, klínísk einkenni og niðurstöður annarra rannsókna.
Er til bóluefni gegn smitandi lífhimnubólgu?
Það er til bóluefni gegn smitandi lífhimnubólgu í köttum en menn greinir á um áhrifamátt þess.
Allir kettlingar og kettir þurfa að fá grunnbólusetningar gegn:
- Kattaflensu, bæði áblástursveiru í köttum (fHV) og bikarveiru í köttum (FCV)
- Kattafársveiru (FPV)
- Hvítblæði í köttum (FeLV)
Þar sem bólusetning gegn smitandi lífhimnubólgu flokkast ekki sem grunnbólusetning fá ekki allir kettir og kettlingar hana.
Þú þarft að ræða við dýralækninn þinn um þær bólusetningar sem henta kettlingnum þínum. Hann ráðleggur þér með tilliti til lifnaðarhátta kattarins, til dæmis hvort hann fær að fara út og hvort hann verður í samneyti við aðra ketti.
Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kettlingsins þíns eða hefur spurningar um bólusetningar hans, skaltu tala við dýralækninn þinn.