Meltingarkerfi kattarins gegnir nauðsynlegu hlutverki við að efla heilbrigði líkamans alls. Hvað styður heilbrigði meltingarvegarins?
Svona virkar meltingarkerfi katta
Meltingarkerfi kattarins er ábyrgt fyrir því að melta fæði og taka upp næringarefnin sem líkaminn þarfnast. Meltingarvegurinn hýsir örflóru, sem einnig er þekkt sem „gagnlegar“ bakteríur, sem stuðlar að heilbrigðri meltingu, og þar með góðri heilsu almennt þegar hún er í jafnvægi, og aðstoðar við vinnslu matar og næringarefna. Meltingarkerfið inniheldur einnig þétt magn ónæmisfruma, sem þýðir að meltingarvegur kattarins er einn fyrsti staðurinn sem ónæmiskerfið kemst í snertingu við sýkla eða aðra hluti sem gætu krafist ónæmissvörunar.
Hins vegar getur meltingarkerfi kattarins verið viðkvæmt. Það þýðir að kötturinn getur verið viðkvæmur fyrir skyndilegum breytingum á mataræði og hvers kyns breytingar geta leitt til ólgu í maga. Kettir hafa einnig tilhneigingu til að borða oftar og minni máltíðir en fólk. Þeir sækja í fóðurskálina sína oft yfir daginn og borða lítið magn í einu, sem síðan er unnið í meltingarkerfinu.
Áhrif mataræðis á meltingarkerfi kattarins
Meltingarkerfi kattarins telst heilbrigt þegar það tekur með skilvirkum hætt upp öll þau næringarefni sem kötturinn þarfnast til að viðhalda heilbrigði. Mataræði hans, þar með talið meltanleiki mataræðisins og samsetning næringarefna, stuðlar því beint að heilbrigði meltingarkerfisins og líkamans í heild.
Ólíkt öðrum spendýrum geta kettir ekki myndað ákveðin næringarefni í líkamanum, sem nauðsynleg eru fyrir skilvirka líkamsstarfsemi. Þar á meðal er tárín – sem finnst í próteini – ákveðnar fitusýrur, D-vítamín og A-vítamín. Mataræði kattarins verður því að innihalda þessi nauðsynlegu næringarefni til að stuðla að almennri velferð og heilbrigði.
Kettir eru með mikla próteinþörf – meiri en hundar og fólk. Próteinið er notað til endurnýjunar á frumum í líkamanum, þar með talið í klóm, mótefni og feldi. Þetta prótein inniheldur 11 nauðsynlegar amínósýrur, svo sem tárín, sem kötturinn þarfnast til að viðhalda skilvirkri líkamsstarfsemi. Skortur á táríni getur leitt til hrörnunar á sjónhimnu og hjartavandamála.
Fita er orkuþéttur hluti af mataræði kattarins, sem getur stuðlað að bæði heildarheilbrigði hans og heilbrigði meltingarkerfisins. Til dæmis þarf kötturinn sérstakar fitusýrur til að endurnýja húðfrumur og viðhalda virkri vörn húðarinnar gegn ytra umhverfi. Hins vegar er mikilvægt að hafa gott jafnvægi á fitu í mataræðinu, því of mikil fita getur leitt til offitu og annarra vandamála, þar með talið valdið meltingarnæmi hjá sumum köttum.
Trefjar, bæði óleysanlegar og leysanlegar, eru einnig lykilatriði í mataræði kattarins hvað varðar heilbrigði í meltingarvegi. Óleysanlegar trefjar hvetja til reglulegra þarmahreyfinga og auka umfang hægðanna. Leysanlegar trefjar virka eins og „hleypiefni“ og geta hægt á flæði í maganum og smáþörmum. Unnin matvæli sem eru næringarfræðilega heildstæð munu vera með rétt jafnvægi milli þessara trefja til að viðhalda heilbrigði meltingarinnar.
Bætibakteríuörvandi efni er jafnframt mikilvægur þáttur í mataræði kattarins, sem tryggir að meltingarkerfið sé heilbrigt og geti tekið upp þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Það ýtir undir þróun „gagnlegra“ þarmabaktería sem stuðla að heilbrigði meltingar hjá kettinum. Bætibakteríuörvandi efni innihalda næringarefni sem hafa jákvæð áhrif á örflóruna sem fyrir er í meltingarvegi kattarins.
Meltingarvegur kattarins er viðkvæmur og flókinn og nauðsynlegt að hugsa vel um hann til að halda honum heilbrigðum og skilvirkum. Ef þú ert ekki viss um hvernig best sé að styðja heilbrigði meltingar hjá kettinum skaltu ráðfæra þig við dýralækni.