Meltingarvandamál katta geta verið margvísleg og orsakirnar fjölbreyttar - og því getur verið gagnlegt að þekkja helstu merki þess að meltingin sé í ólagi.
Kötturinn þinn á erfitt með að borða eða kyngja
Ef stífla er í vélindanu, (t.d. af völdum hárkúlu), eða vöðvarnir í vélinda eða maga virka ekki rétt, gætirðu tekið eftir að kötturinn eigi erfitt með að borða eða kyngja.
Þú munt þá taka eftir að kötturinn virðist tregur til að borða - af því að það gæti verið sárt - og þegar hann borðar virkar það erfitt eða þvingað. Hann gæti skilað matnum upp aftur, þ.e. kastað honum upp fljótlega eftir að hafa borðað og án nokkurrar viðvörunar. Hann gæti jafnframt hóstað vegna ómeltrar fæðu sem er föst í vélindanu.
Kötturinn ælir eða er með hárkúlur
Það er ekki óvenjulegt að kettir æli af og til, sérstaklega ef þeir hafa borðað eitthvað sem líkami þeirra skilgreinir sem skaðlegt. Tíð uppköst, tvisvar í mánuði eða oftar, geta verið vísbending um alvarlegra vandamál, svo sem sýkingu, bólgusjúkdóm eða magasár, þótt kettir geti ælt af ýmsum ástæðum. Þegar kötturinn þinn ælir mun hann skila upp mat sem hefur verið meltur að hluta í maganum, eða galli, oft þegar nokkur tími hefur liðið eftir að hann borðaði. Þetta er öðruvísi en að skila upp mat, sem eru óvirkari viðbrögð sem eiga sér stað fljótlega eftir að kötturinn borðar.
Ef kötturinn þinn skilar upp þéttum, flæktum hárklumpi gæti hann verið að þjást af hárkúlum. Það orsakast af því að of mikið hár er innbyrt við snyrtingu og klessist saman í meltingarvegi kattarins. Venjulega ætti kötturinn að melta og skila þessum hárum út, en ef magnið er of mikið ræður líkaminn ekki við það og hárkúlur myndast. Þótt síðhærðir kettir geti verið útsettari fyrir þessu, eru það aðallega innikettir sem eiga á hættu að fá hárkúlur vegna þess að þeir verja miklu meiri tíma í að snyrta sig en útikettir. Sumir kettir skila ekki af sér fullmótuðum hárkúlum, en þegar þeir æla er innihaldið hárblandað.
Kötturinn fær niðurgang
Niðurgangur getur verið merki um víðtækari veikindi sem hrjá köttinn. Hið sama á við um uppköst. Dýralæknar gera greinarmun á því hvort niðurgangur tengist smáþörmum eða stórþörmum. Einkennin eru ólík og orsakirnar sömuleiðis.
Ef kötturinn þinn er með niðurgang sem tengist stórþörmum geta hægðirnar verið minni eða álíka miklar og venjulega. Þær eru hinsvegar tíðari og oft slímkenndar eða með blóði. Hægðirnar geta líka verið mýkri að kvöldi en morgni. Kötturinn þarf hugsanlega að skaka sér ótt og títt.
Sé niðurgangur tengdur smáþörmum, hefur kötturinn meiri hægðir en venjulega og geta þær verið grænleitar eða jafnvel appelsínugular á litinn. Ómeltur matur er oft sjáanlegur í hægðunum. Kötturinn gæti líka grennst, kastað upp og þjáðst af vindgangi.
Það getur verið erfitt að fylgjast með hægðunum ef kötturinn fer út til að gera þarfir sínar. Sé það raunin, getur þú kannað hvort merki um hægðir eru við endaþarmsopið. Það gæti verið vísbending um niðurgang og þá skaltu fylgjast með því hversu oft hann fer út.
Ef þú tekur eftir þessum einkennum skaltu fara með köttinn til dýralæknis svo hægt sé að greina vandamálið og meðhöndla það. Hægt er að draga úr margvíslegum vandamálum í tengslum við meltinguna með réttu fóðri. Spurðu dýralækninn hvaða fóður sé best til að bæta meltingu kattarins þíns.