Í gegnum hvert aldursstig þarf kötturinn mismunandi umönnun til að styðja við velferð hans – hvort sem það er að tryggja heilbrigðan vöxt kettlings á vaxtarskeiðinu eða styðja við heilsu kattar sem farinn er að eldast. En hvenær telst kötturinn þinn aldraður og hvaða breytingum geturðu búist við?
Aldur kattarins í samanburði við fólk
Rétt eins og hjá fólki er öldrunarferlið einstaklingsbundið og einkenni þess koma fram hjá hverjum ketti fyrir sig með mismunandi hætti á mismunandi tímum. En almennt mun líkami kattarins sýna fyrstu merki um öldrun á frumustigi við sjö ára aldur - en þú munt ekki sjá nein ytri einkenni fyrr en kötturinn er um það bil 12 ára. Frá þessum tímapunkti hægist á frumum líkamans og líkamsstarfsemi kattarins verður óvirkari, þar með talið hjarta og ónæmiskerfi.
Dýralæknisfræðileg flokkun á aldri katta er:
- Á aldrinum sjö til tíu ára er kötturinn roskinn
- Á aldrinum 11 til 14 ára er hann flokkaður sem eldri
- Frá 15 ára aldri er hann talinn vera í öldrunarflokki
Til að setja þetta í samhengi við æviskeið fólks væri 10 ára köttur með þroska á við 56 ára manneskju. Það er ekki óalgengt að kettir verði allt að 20 ára gamlir - það jafngildir því að manneskja verði 96 ára gömul.
Merki um öldrun hjá kettinum þínum
Öldrunarmerki eru einstaklingsbundin en þó á sér stað ákveðin þróun hjá öllum köttum. Bragð- og lyktarskyn minnkar og heyrnin versnar. Þetta hefur áhrif á matarlystina. Tannholdssjúkdómar geta líka haft áhrif á matarlystina. Ef kötturinn er búinn að missa tennur eða tennurnar orðnar eyddar, hefur það líka áhrif. Þetta getur leitt til þess að kötturinn léttist.
Liðirnir eru stirðari en áður og ef kötturinn er með slitgigt, minnkar hreyfigeta hans auk þess sem hann finnur til. Þessi stirðleiki gerir að verkum að erfiðara er fyrir köttinn að snyrta sig almennilega og það getur bitnað á feldi og húð.
Feldurinn sjálfur getur líka breyst, feldhárin geta gránað og feldgæðin minnkað. Ástæðan er sú að fitukirtlarnir sem framleiða næringu fyrir húðina virka ekki eins og áður. Náttúrulegur eiginleiki til að virkja ónæmiskerfið hefur tilhneigingu til að minnka með aldrinum. Kötturinn er þar af leiðandi viðkvæmari fyrir sjúkdómum og sýkingum. Líkamsstarfsemin breytist, til dæmis meltingin því með aldrinum minnkar hæfnin til að vinna úr fitu og próteinum.
Hegðunin getur breyst hjá gömlum köttum. Félagslyndi þeirra getur minnkað og þeir geta tekið upp á því að hafa hátt á óheppilegum tímum. Þeir sofa gjarnan meira en áður en ekki jafn fast. Það getur raskað daglegum venjum og valdið hegðunarvandamálum.
Sjúkdómseinkenni í öldruðum köttum
Stundum eru einkenni í gömlum köttum ekki bara merki um öldrun heldur geta þau verið merki um stærra vandamál.
Kettir hafa tilhneigingu til að leyna sjúkdómum. Þeir hreyfa sig kannski minna í stað þess að sýna einkenni eins og að haltra eða kveinka sér. Þetta getur gert ástandið verra. Þess vegna skiptir máli að þú hafir auga með breytingum á hegðun kattarins þíns, til dæmis ef hann neitar að borða eða stekkur ekki lengur upp á uppáhalds staðinn sinn. Undir slíkum kringumstæðum skaltu fara með hann í skoðun til dýralæknis.
Það eru nokkur einkenni hjá gömlum köttum sem geta bent til undirliggjandi sjúkdóms:
- Minni matarlyst og þyngdartap gæti bent til meltingarfæravandamála
- Aukin þvaglát og aukinn þorsti gæti verið vísbending um þvagfærasjúkdóm
- Stirðleiki, helti eða ef kötturinn á erfitt með að standa upp gæti bent til liðagigtar
- Kötturinn er illa áttaður, kvíðinn eða breyttur í háttum
Ef þú ferð reglulega með köttinn þinn til dýralæknis er hægt að greina alvarlega sjúkdóma á frumstigi og veita honum bestu mögulegu umönnun.