Húðofnæmi katta

20.9.2018
Ef kettinum þínum klæjar, hann klórar sér eða snyrtir sig ákaft, getur það verið merki um að hann þjáist af ofnæmi. Kynntu þér hvað dýralæknirinn þinn mun gera til að greina orsökina og hvernig þú getur hjálpað kettinum þínum heima fyrir.

Rétt eins og fólk geta kettir þjáðst af ofnæmi og óþægilegum einkennum ofnæmisviðbragða. Þrátt fyrir að hægt sé að meðhöndla ofnæmi katta getur verið vandasamt að finna út hvað valdi því og nauðsynlegt er að fá aðstoð frá dýralækninum við það.

Einkenni ofnæmis hjá köttum

Húð kattarins þíns veitir bestu vísbendingarnar um hvort hann þjáist af ofnæmi. Þegar þú strýkur kettinum gætirðu fundið fyrir smágerðu hrúðri, auk þess sem þú gætir einnig tekið eftir stórum, tiltölulega flötum svæðum á húðinni sem eru rauð eða virðast bólgin, eða sárum í andliti, á kvið eða utan á lærum. Köttum með ofnæmi klæjar mikið og þeir klóra sér oft, stundum í óhófi, auk þess sem þeir eiga til að ofsnyrta sig til að reyna að draga úr óþægindum. Afleiðingarnar gætu verið skallablettir, að hárið klofni auðveldlega eða hárlos.

Af hverju er svona erfitt að ákvarða ofnæmi hjá köttum?

Þrjár meginorsakir eru fyrir ofnæmi katta: flær, eitthvað í mataræðinu og ofnæmisvaldandi efni í umhverfinu. Það er erfitt að ákvarða hver þessara þátta er orsök ofnæmisviðbragða og þarf dýralæknirinn að beita útilokunaraðferðinni til að finna hvað veldur ofnæmiseinkennunum hjá kettinum þínum.

Hvað mun dýralæknirinn gera til að greina ofnæmi kattarins míns?

Það fyrsta sem dýralæknirinn mun gera er að ákvarða hvort einkenni kattarins þíns séu af völdum einhvers annars en ofnæmisviðbragða. Mörg ofnæmiseinkenni hjá köttum eru svipuð þeim sem orsakast af sníkjudýrasýkingu, sveppasýkingu - svo sem hringormi - og jafnvel hegðunarvandamálum. Dýralæknirinn þarf að útiloka alla þessa þætti áður en hann byrjar að kanna ofnæmi.

Næst mun dýralæknirinn meðhöndla köttinn við flóm. Kettir geta orðið ofurviðkvæmir fyrir flóabítum, sem leiðir til þess að þeir klóri sér ákaft og valdi hrúðri eða sárum. Dýralæknirinn mun biðja þig um að beita kröftugri flóameðferð á köttinn og öll önnur gæludýr ef slík eru til staðar á heimilinu, og grípa að auki til annarra varúðarráðstafana á borð við að hreinsa umhverfi kattarins reglulega.

Ef kötturinn er enn með ofnæmisviðbrögð eftir þessa meðferð, gæti dýralæknirinn viljað ganga úr skugga um að ekki sé um fóðurofnæmi að ræða með því að taka eitt og eitt innihaldsefni úr fóðri kattarins. Þetta ferli tekur um átta vikur. Ef einkennin hverfa, lætur dýralæknirinn köttinn aftur á sama fóður og áður. Ef einkennin koma aftur í ljós, er líklegt að kötturinn sé viðkvæmur fyrir einhverjum efnum í fóðrinu.

Ef þessi aðferð ber ekki árangur er líklegt að kötturinn þinn þjáist af ofnæmi sem krefst lyfjameðferðar.

Áhrif fóðurs á ofnæmi kattarins þíns

Fóður kattarins þíns hefur bein áhrif á húðina, sem er stærsta líffærið. Fóður sem er sérstaklega hannað fyrir ketti með mjög viðkvæma húð, getur dregið úr óæskilegum áhrifum fóðursins og bætt ástand húðarinnar.

Þetta fóður er með sérvöldum próteinum og kolvetnum sem eru ólíkleg til að vekja ofnæmisviðbrögð hjá kettinum þínum. Þessi efni eru auðmeltanleg og eru ekki í öllu kattafóðri sem almennt er til sölu. Hugsanlega eru í fóðrinu omega 3 langfjölómettaðar fitusýrur sem bæta ástand húðarinnar (bólgueyðandi) bíótín, níasín og B5. Þessi efni auka raka í húðinni og styrkja hana í baráttu við það sem veldur óþægindum.

Ef þú sérð merki um ofnæmi hjá kettinum þínum skaltu tafarlaust hafa samband við dýralækni. Í sameiningu ættuð þið að geta fundið leið til að bæta heilbrigði húðar og felds hjá kettinum.

Efst á síðu

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Leita í nágrenni við mig