Þvagfærasjúkdómar í köttum

20.9.2018
Kettir eru gjarnir á að fá þvagfærasjúkdóma. Með því að koma fljótt auga á sjúkdómseinkenni er hægt að meðhöndla sjúkdóma og koma í veg fyrir varanlegar afleiðingar.

Sjúkdómur í neðri þvagfærum katta (Feline lower urinary tract disease, oft nefndur FLUTD) er algengur hvarvetna í heiminum og er ekki vitað hvað veldur honum. Þessi sjúkdómur getur haft víðtæk áhrif á heilsu kattarins þíns svo það skiptir máli að geta greint einkennin og komið kettinum undir læknishendur sem fyrst.

Ástæður þvagfærasjúkdóma í köttum

Þvagfærakerfi katta getur bólgnað og einnig geta steinefni safnast fyrir í þvagblöðrunni. Þessi steinefni geta á endanum kristallast og þá myndast svokallaðir „steinar“ sem geta ert þvagfærin og stíflað þvagrásina. Rosknir kettir sem hafa tíð þvaglát gætu verið með nýrnasjúkdóm eða annan sjúkdóm sem tengist þvagfærakerfinu.

Einkenni þvagfærasjúkdóma í köttum

Hegðun í kringum þvaglát breytist ef kötturinn þinn þjáist af þvagfærasjúkdómi. Hann kann að reyna að pissa oftar en venjulega og þá lítið í einu eða jafnvel ekki haft nein þvaglát. Það getur litið út fyrir að hann sé að reyna mikið á sig eða sé kvalinn þegar hann reynir að pissa og hugsanlega er hann lengur í „pissustellingu“ en venjulega. Þvagið gæti verið bleikt á litinn vegna blóðs í þvagi. Stundum sleikja kettir kynfærin í gríð og erg, missa matarlyst eða sýna önnur merki um að eitthvað ami að.

Á kötturinn minn á hættu að fá þvagfærasjúkdóma?

Of þungir og feitir kettir og þeir sem hreyfa sig lítið eiga frekar á hættu að fá þvagfærasjúkdóma en kettir í kjörþyngd sem hreyfa sig reglulega. Eldri kettir eiga líka frekar á hættu að fá langvinna nýrnasjúkdóma eða aðra líffærasjúkdóma eins og innkirtlasjúkdóma.

Ýmislegt bendir til þess að kettir sem búa við mikla streitu og mikið áreiti séu líklegri til að þróa með sér þvagfærasjúkdóma. Meðal þess sem getur valdið streitu hjá köttum eru breytingar á fjölskylduhögum, flutningar, breytingar á mataræði, kattakassi á stað þar sem kötturinn kemst ekki auðveldlega í hann og sambúð með mörgum öðrum dýrum. Ef samband kattar og eiganda er náið, getur kötturinn orðið fyrir áhrifum af streitu eiganda síns og það getur valdið honum heilsufarsvandamálum.

Meðferð fyrir ketti með þvagfærasjúkdóma

Það er brýnt að fara með köttinn til dýralæknis ef þú tekur eftir einkennum eins og þeim sem greint er frá hér að ofan. Dýralæknirinn getur greint nákvæmlega hvert vandamálið er og séð kettinum fyrir bestu mögulegu læknismeðferð.

Þú getur einnig haft áhrif á það hvort kötturinn þinn fær þvagfærasjúkdóma með fóðrun og heilsusamlegum lifnaðarháttum. Kettir eru ófúsir að drekka mikið vatn. Þeir eru afkomendur spendýra úr eyðimörkum sem höfðu ekki alltaf aðgang að vatni. Vatn er mikilvægt til að viðhalda þvagfærakerfinu heilbrigðu. Þvaglát aukast ef kötturinn drekkur meira auk þess sem þvagið þynnist út. Það minnkar líkur á því að þvagfærasteinar myndist.

Þú getur hvatt köttinn þinn til að drekka meira vatn með því að setja vatnsskálar á fleiri en einn stað. Forðastu samt að setja þær nálægt fóðrinu, kattakassanum eða þar sem miklar mannaferðir eru. Gefðu kettinum stofuheitt vatn og fylltu skálina upp að börmum, til að auðvelda honum að drekka úr skálinni. Kettir geta líka haft gaman af því að drekka rennandi vatn úr krana eða úr litlum gosbrunnum.

Hægt er að viðhalda þvagfærakerfinu heilbrigðu með fóðri, ýmist blautfóðri eða þurrfóðri sem eykur vatnsinntökuna.

Því miður eru þvagfærasjúkdómar algengir hjá köttum en með réttri meðferð og í samráði við dýralækni ættir þú að geta bætt heilsufarið með fóðri, lífsstíl og lyfjum ef þess gerist þörf.

Efst á síðu

Finna dýralækni

Ef þú hefur áhyggjur af heilsufari kattarins þíns skaltu ráðfæra þig við dýralækni.

Leita í nágrenni við mig